18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í C-deild Alþingistíðinda. (2252)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Fyrirspyrjandi (Gísli Sveinsson):

Hjer á landi eru, eins og kunnugt er, allmargar nefndir, svo margar, að jeg veit ekki, hvort hjer eru fleiri fossar heldur en nefndirnar nú á tímum. Ein af þessum nefndum er fossanefndin, og nú hefir það atvikast svo, að jeg ásamt öðrum hv. þm. hefi leyft mjer að koma fram með fyrirspum til hæstv stjórnar um framkvæmdir þessarar nefndar, ekki af því, að þessi sje eina nefndin, sem spyrja þyrfti um; t. d, væri fróðlegt að fá að vita eitthvað um starf verðlagsnefndarinnar, sem nú hefir setið síðustu árin og, að því er menn best vita, hefir gert lítið annað en að hirða laun sín. En um fossanefndina þarf að spyrja, af því, að hún hefir nú líka setið um hríð og tekið sín laun, en ekkert hefir heyrst af framkvæmdum hennar. Og að spurt er um hana hjer er af sjerstakri orsök, og orsökin er þingsályktunartill. frá síðasta þingi; hún sýnir sem sje í 4 liðum, hvað það er, sem nefndin eigi að gera og að nokkru að hafa gert fyrir þetta þing, og vil jeg því, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa till. upp:

„Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina að skipa 5 manna nefnd til að taka til íhugunar fossamál landsins, og skal verkefni nefndarinnar sjerstaklega vera þetta:

1. Að athuga, hverjar breytingar nauðsynlegt er að gera á gildandi fossalöggjöf.

2. A6 afla sem ítarlegastra upplýsinga og skýrslna um fossa í landinu og notagildi þeirra.

3. Að athuga, hvort tiltækilegt sje, að landið kaupi vatnsafl og starfræki það.

4. Að athuga, hvort og með hvaða kjörum rjett sje að veita fossafjelaginu „Ísland“ og öðrum slíkum fjelögum, er umsóknir kunna að senda, lögheimild til að starfrækja fossaafl hjer á landi“.

Svo kemur niðurlagið, sem segir, að nefndin skuli senda stjórninni álit sitt og tillögur, sjerstaklega hvað 1. og 4. liðinn snertir, ekki íðar en svo, að hægt sje að leggja það fyrir næsta þing.

Nú kynnnu menn að segja, að þetta næsta þing sje næsta reglulegt þing, sem koma á saman á næsta sumri. En þessu vil jeg mótmæla, og byggi jeg þau mótmæli m. a. á umræðunum, sem urðu um þetta mál á síðasta þingi, þar kom það berlega fram, að með þessu „næsta þingi“ var átt við það aukaþing, sem kunnugt var öllum þingmönnum, þegar tillagan var samþykt, að koma mundi saman einhvern tíma á árinu 1918.

Nú höfum vjer þingmenn ekki fengið að vita neitt um það, hvað frá þessari nefnd hefir komið, og þess vegna er spurt, hvað líður framkvæmdum þessarar nefndar, hvað þá fjóra liði snertir, sem um er getið í þingsályktunartill. síðasta þings, og þá sjerstaklega 1. og 4. liðinn. Við hljótum sem sje að ganga út frá því, að hún hafi þegar athugað þetta, ef ekki 2. og 3., þá þó að sjálfsögðu og áreiðanlega hinn 1. og 4.

Þá verð jeg að taka það fram, að eins og hv. þm. muna, voru menn á síðasta þingi ekki á eitt sáttir um grundvallartilhögun þessa máls. Sumir vildu afgreiða málið þegar á þinginu og veita einu sjerstöku fjelagi heimild til að starfrækja nokkra fossa hjer á landi um vist árabil, en aðrir voru því mótfallnir. Í öðru lagi voru menn ekki heldur á eitt sáttir um það, hvernig fara ætti með málið, ef það yrði ekki afgreitt frá þinginu.

Jeg og fleiri voru þeirrar skoðunar, að þetta mál væri þannig vaxið, að vísa bæri því til stjórnarinnar, og að stjórnin rannsakaði eða ljeti starfshæfa menn, með sjerþekkingu á þessum málum, athuga öll þessi atriði, blátt áfram vegna þess, að þessi atriði voru þannig vaxin, að þau áttu ekki að vera stjórninni og þeim ráðamönnum eða aðstoðarmönnum, er hún veldi sjer, ofvaxin. Á þessari skoðun var fjárhagsnefnd þessarar hv. deildar. En það varð nú úr, eftir till. hv. Ed., að nefnd skyldi skipa. Þegar sú till. kom til umr. í sameinuðu þingi og rætt var um, hvernig skipa ætti nefndina, þá tók jeg og fleiri það skýrt fram, að landsstjórnin yrði að vera algerlega sjálfráð og óbundin í vali mannanna, en ekki, eins og heyrst hafði, að hún ætti að vera bundin af flokkunum, þannig, að hvert flokksbrot tilnefndi einhvern pólitíkus, sem ætti að sitja sem nokkurskonar fulltrúi þess í nefndinni. Jeg áleit, að því að eins væri meining í þessu, að mennirnir yrðu valdir í nefndina frá því sjónarmiði, sem eitt er rjett, en það er að taka ekkert tillit til flokka, heldur velja þá eina, sem fulltreysta mátti til þess að vinna starfið svo, að enginn efaðist um, að það væri ábyggilega af hendi leyst. Því verður ekki neitað, að þetta mál er talsvert sjerfræðilegt, og að sjerfróða menn þarf til þess að athuga það, ef vel á að vera. Auk þess, sem jeg tók þetta fram á þinginu í fyrra, þá greiddi jeg og fleiri atkv. með skipun milliþinganefndar með þeim ákveðna fyrirvara, að hún yrði þannig skipuð, sem jeg nú taldi. En þegar til kastanna kom, kom það upp úr kafinu, að flokkabrotin höfðu búið þarna til bitlinga handa gæðingum sínum. 3 flokkarnir í þingi nefndu hver til sinn mann, að því er virðist, er ætti að hafa sæti í nefndinni af þeirra hálfu, því að út fyrir þingið mátti ekki fara með þessa veitingu, að svo miklu leyti, sem þingið gæti haft ráð á henni.

Það er alkunnugt, hverjir þessir menn voru, enda ætlaði jeg ekkert um þá að tala persónulega. þegar svo til kom, að stjórnin skipaði þá 2 menn, sem henni var ætlað að velja í nefndina, þá fór það svo, að mörgum þótti henni ekki takast vel valið. Annar maðurinn hafði sjerþekkingu til að bera og þá að sjálfsögðu rjettilega valinn. Um hinn manninn skal jeg taka það skýrt fram, að jeg get ekki sjeð, að hann ætti neitt að gera í þessa nefnd, að manninum ólöstuðum að öðru leyti. Hann var embættismaður uppi í hjeraði, og verður ekki sjeð, að neinn nauður hafi rekið til að rífa hann upp úr embætti sínu til þess að setja hann í nefndina. Að vísu mun því verða svarað, að þetta hafi verið gert til þess að fá lögfræðing í nefndina. En mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi neitt það til brunns að bera sem lögfræðingur, að fyrir þær sakir hefði ekki mátt lofa honum að sitja í friði í embætti sínu, en skipa sæti hans í nefndina öðrum manni hæfum. Svo er því líka farið um mennina hina, er flokkarnir rjeðu, að allur almenningur gat ekki sjeð, að þeir hefðu neitt í það að vera í þessari nefnd, og sumir hefðu alls ekki átt í hana að komast. Það mun sýna sig, þegar til uppskerunnar kemur, hvort orð mín sannast ekki í þessu efni.

Jeg vona, að hæstv. stjórn geti nú þegar gefið upplýsingar um afrek nefndarinnar, svo að hv. þingdeild og allur almenningur megi brátt þekkja nefndarmennina af ávöxtunum. Úr því að jeg er að tala um nefndarmennina, þá skal jeg enn taka það fram, viðvíkjandi skipun nefndarinnar, að það hefir verið lagt stjórninni til lasts, að auk þess, sem hún fór að láta þingflokka taka fram fyrir hendur sjer, þá skyldi hún ekki skipa 2 menn með sjerþekkingu í þau sæti, sem hún átti yfir að ráða. Og loks er annar þeirra manna, sem stjórnin skipaði og jeg hefi áður getið um, ofskyldur einum ráðherranum til þess, að það hefði mátt eiga sjer stað, að hann væri til þess valinn. Það er nú líka meining mín og margra annara þingmanna, að um fleiri menn, og marga hæfari en þessa, hafi verið að velja.

Og að sjálfsögðu var það skylda stjórnarinnar að velja í nefndina þá færustu menn, sem völ var á. Mjer er þá einnig óhætt að segja það, að það var tilgangur margra þingmanna, að minsta kosti fjárhagsnefndar neðri deildar, með því, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar, að hún fengi sjerfróða og ábyggilega menn til þessara rannsókna, og var þá ekki ætlast til, að hún leitaði einungis fyrir sjer hjer á landi, heldur útvegaði sjerfróða menn frá öðrum löndum, ef ástæða virtist til þess.

Þá ætla jeg að víkja að einu atriði, sem kemur við nefndarstörfunum, því að heyrst hefir, að nefndinni hafi nú verið fengið það í hendur. Á aukaþinginu 1916—17 flutti jeg till. til þingsályktunar um, að rannsaka skyldi eignarrjett að afrjettarfossum, og var tillagan samþykt og afgreidd í einu hljóði. Þetta var gert vegna þess, að aðallega eitt útlent fjelag hafði sýnt lit á að vilja kaupa afrjettarfossa, og sveitarfjelög höfðu selt því fossa, ekki einungis niðri í bygð, heldur líka uppi á afrjettum. Jeg hjelt því fram, eftir því sem jeg hafði kynt mjer lög landsins að fornu og nýju, að sveitarfjelögin ættu ekki rjett til að selja fossa á afrjettum, fremur en þau hafa rjett til að láta af hendi námurjettindi og annað þesskonar. Þegar svo til stjórnarinnar kom að fá hæfan mann til að rannsaka þetta, þá vissi jeg lengi vel ekki hvað því leið, fyr en á útmánuðum í fyrra vetur, að eitt blað hjer í bænum — það var víst „Tíminn“, loflegrar minningar — flutti þá fregn, að nú væri stjórnin búin að sýna rögg af sjer og skipa „nafnkendan fræðimann“ til þessara rannsókna. Málið er, eins og gefur að skilja, rjettarsögulegs eða fræðilegs eðlis, svo að ganga mátti út frá, að hjer væri um rjettarfræðing að ræða, en maðurinn var ekki nefndur. Síðan fekk jeg að vita það hjá einum ráðherranum, að þessi maður væri fyrv. landritari Klemens Jónsson. Það hefir sjálfsagt þótt tilhlýðilegt að velja hann til þessa starfa, þar sem hann hafði þá, eins og mönnum er kunnugt, Játið af embætti sínu og er nokkuð þektur lögfræðingur. En um fræðimensku hans er mjer ekki kunnugt að öðru leyti. „Tíminn“ lofaði nú að flytja útdrátt úr þeirri skýrslu og þeim gögnum, sem þessi maður legði fram, að rannsókn lokinni, sem brátt mundi verða. Og satt að segja hlakkaði jeg til að sjá þetta, og jeg hygg, að svo hafi verið um fleiri. En svo leið veturinn og vorið, sumarið með og haustið. Ekkert varð vart við neina skýrslu. Þegar fram á veturinn næstliðinn kom, fór það að kvisast, að rannsókninni mundi vera lokið. En þegar til þess kom, að þessi maður ljeti uppi árangurinn af þessari rannsókn, þá neitaði hann að skýra stjórninni frá niðurstöðum þeim, sem hann hafði komist að. Jeg hefi heyrt, að hann hafi gefið þá ástæðu, að hann væri í stjórn fossafjelagsins „Titan“ og gæti því ekki látið af hendi neinar upplýsingar, hvort sem þær kynnu nú að vera andstæðar hagsmunum fjelagsins eða ekki. Það var einmitt þetta fjelag, sem gaf tilefni til þess, að komið var fram með till. um rannsókn málsins. Nú hefir stjórninni sennilega ekki verið það kunnugt, að maður þessi ætti sæti í stjórn þessa fjelags. Einn ráðherranna, sá þeirra, sem einmitt fjallaði um þetta mál, hefir tjáð mjer það í prívat-samræðu, að hann hafi ekkert um þetta vitað. En maðurinn, sem skipaður var, hefir þó vitað það. Og eins og hann síðar færði þá ástæðu fyrir því, að láta engar niðurstöður uppi, að hann væri í stjórn þessa fjelags, eins hefði hann þegar í byrjun átt að geta sagt stjórninni það, að hann væri, af sömu ástæðum, ekki bær til að leggja neinn dóm á mál, sem fyrirsjáanlegt var að mundi snerta hagsmuni hans eigin fjelags.

Jeg verð að telja þetta mjög svo óheppilegt. Ekki það, að maðurinn, sem til rannsóknanna var valinn, gæti ekki álitist fær til þess, heldur hitt, að hann sagði ekki til þess fyrirfram, að hann, sökum afstöðu sinnar til fjelagsins, væri ekki hæfur til starfsins. Nú er því ekkert búið að eiga við þetta mál, sem hefði getað verið klappað og klárt. Og sökum þess, að maðurinn tók verkið að sjer, þá var ekki hægt að fá annan mann til þess á sama tíma. Nú er svo komið, að þessu máli, þessari rannsókn hefir verið varpað í þá ruslakistu, sem kölluð er fossanefnd. Í hana er látið alt það, sem foss er nefndur í, hverju nafni sem það nefnist að öðru leyti. Það er leiðinlegt, að þetta atriði skyldi lenda í fossanefndinni, því að í henni er enginn, sem fær er um að rannsaka þetta rjettarlega atriði. Að vísu er einn lögfræðingur í nefndinni. En hann er enginn fræðimaður, og víst ekki við því búinn að rannsaka þetta. Jeg hefi að vísu heyrt, að annar maður í nefndinni, sem líklega þykist fræðimaður, og vill auk þess oft koma fram sem einskonar yfirlögfræðingur hjer á þessu þingi, þótt ólögfróður sje, hafi nú tekið að sjer að rannsaka þetta. Um árangurinn af hans starfi veit jeg, eins og gefur að skilja, ekki neitt.

Heyrst hefir það, og haft eftir nefndarmönnum, að þeir starfi allmikið, og að fyrir nefndinni lægi svo mikið verk, að henni nægði ekki til að ljúka því minna en mörg ár. Frá mínu sjónarmiði sjeð er starf nefndarinnar þannig vaxið, að ekki ætti að þurfa mörg ár til að koma því af. Það kom jafnvel til álita á þinginu í fyrra, eins og jeg hefi drepið á, að stjórnin mundi geta annast þetta verk með aðstoð sjerfróðra manna. Og svo mikið er víst, að þeir verða nokkuð margir, sem ekki verða ánægðir, ef nefndin situr með þetta mál eða á þessu máli í mörg ár.

Hvað sjerstaklega snertir rannsókn 1. og 4. liðar í þingsályktuninni, þá verð jeg að álíta, að ekki hefði þurft lengri tíma en nefndin þegar er búin að sitja á rökstólum, til þess að komast að einhverri niðurstöðu um þau atriði.

1. liðurinn er um það, hverjar breytingar þurfi að gera á gildandi fossalöggjöf. Jeg geri nú ráð fyrir að nefndin hafi gert sjer það ljóst, á hvaða grundvelli hún telur rjettast og heppilegast að fossalöggjöf byggist hjer á landi. Þegar þessi grundvöllur er fundinn, þá ætti það að vera nefndinni kleift að koma fram með tillögur í samræmi við það og eftir þeirri stefnu, sem nefndarmenn taka sjer. Til þess ætti ekki að þurfa svo ýkjalangan tíma, enda full þörf á, að undinn sje bráður bugur að því.

Þetta er þá ekki síður nauðsynlegt um 4. liðinn. Það var einmitt það atriði, sem gáf tilefni til þessarar nefndarskipunar. það var, eins og menn muna, tilboð fossafjelagsins „Ísland“ um starfrækslu Sogsfossanna. Þetta ætti að vera klappað og klárt alt saman. Nefndarmenn ættu að vera búnir að gera það upp við samviskur sínar, ef það er samviskusök, hvaða tillögur þeir vilja fram bera um þetta efni. Það er sjálfsagður hlutur, að þetta fjelag vinnur með erlendu fjármagni, eins og slíks mun við þurfa, hvernig sem fossar þessa lands verða starfræktir. Og það kemur þá til álita, hvort nefndin leggur til, að nokkru erlendu fjelagi verði leyft að starfrækja nokkra fossa hjer á landi. Það gefur að skilja, hverjum augum sem menn annars líta á þessi atriði, að það er áríðandi fyrir fjelagið að fá að vita, hverju svarað verði þeim málaleitunum, sem lágu hjer fyrir þinginu í fyrra. Það er ekki búið að svara þeim enn, en það verður að gera hið bráðasta. Tilboð þetta bauð ýmsa góða kosti, sem mörgum þingmönnum þóttu aðgengilegir, fyrir suma hluta landsins. En svörin fara auðvitað eftir því, hvort menn vilja leyfa nokkru útlendu fjelagi, eða hvort menn vilja leyfa nokkru einstöku fjelagi yfirleitt tök á nokkrum af fossum landsins. Margir eru þeir, sem vilja lofa fjelagi, sem ábyggilegt teldist, að ríða á vaðið með einn eða fleiri fossa, til ákveðins tíma, ef tryggilega er um hnúta búið og hlunnindi og gjöld koma í staðinn; aðrir taka því ólíklega. Það er nú líka víst, að þessi staður, sem vjer stöndum á, — og á jeg þá ekki við Alþingishúsið, heldur plássið, sem vjer erum í, sem sje Reykjavík, — að hann átti að njóta hlunninda allmikilla af starfi þessa fjelags. Og eins víst er um það, að á þessum tíma væru þau hlunnindi svo mikils virði, að brátt verður ekki tölum talið. Með tilliti til þessa var nefndinni falið að koma með tillögur um þetta atriði fyrir næsta þing. Nýlega hefir komið brjef frá fjelaginu til landsstjórnarinnar, þar sem það spyr, hvort von sje um nokkrar framkvæmdir í málinu. Fjelagið segist enn þá hafa fjeð á reiðum höndum, og jeg tel víst, að það sje fúst til að semja um fyrirtækið hve nær sem er. En það óskar eftir því að fá eitthvað afgert um málið, til þess að það missi ekki fjeð úr höndum sjer. Það má telja. öldungis víst, að fjelagið stendur enn við þau tilboð, sem það hefir gefið, með þeim breytingum, sem þingið vildi á þeim gera, það er að segja ef breytingarnar eru þannig vaxnar, að fjelagið vildi ganga að þeim, og þarf um það að vera víst fyrirfram. Því að það liggur í hlutarins eðli að ekki er til neins fyrir þingið að samþykkja tilboð eða leyfi, sem fjelagið svo vill ekki ganga að.

Jeg sje ekki þörf á margra ára nefndarsetu til þess að komast á rekspöl með þetta, eða ferð til útlanda, eins og einnig hefir heyrst að nefndin ætli sjer. Til hvers eiga hv. nefndarmenn að fara að ferðast úti um lönd? Til þess að horfa á fossa, líta á, hvernig þeir eru starfræktir og hvað þar er gert? Hvað græðum við eða mennirnir sjálfir á þessu ferðalagi? Jú, þeir hafa gaman af því að líta alt þetta eigin augum, og við höfum sjálfsagt gaman af því að heyra þá segja frá því, sem fyrir augun bar, þegar þeir koma aftur. En hvað græðir málið á því, þó að þessir menn kunni að segja frá, að þeir hafi sjeð ýmsa fossa og sjeð, að þeir voru notaðir til ýmislegs og að þar og þar hafi alt verið í góðu lagi. Sá eini maður í nefndinni, sem hefir sjerþekkingu á þessum efnum, hefði gagn af því að ferðast, en hinir ekki. Þeir hefðu vafalaust fjarska mikið gaman af að ferðast, eins og þegar nokkrir hv. þm. ferðuðust sjer til skemtunar í fyrra sumar austur að Markarfljóti, til þess að horfa á það renna. Já, það var svo sem gaman að ferðast í sumarblíðunni — mikil ósköp —; það gaman gat maður þó gengið inn á, en ekki þetta, að heil nefnd fari að ferðast út um allar álfur heims, eins og nú er dýrt og örðugt að ferðast um í heiminum. Ef nefndin getur ekki aflað þeirra upplýsinga hjer á landi, sem þörf er á, þá efast jeg um, að hún kæmi mikið sannfróðari heim úr þessu ferðalagi, hvað þau atriði snertir, sem henni er ætlað að leysa úr.

Jeg býst nú við að hv. nefndarmenn upplýsi ósköpin öll, sem þeir þurfi að fræðast um í öðrum löndum. En jeg er þess fullviss að þeir geta fengið fullnægjandi fræðslu um málið með því að kynna sjer það, sem skrifað hefir verið um þessi efni, með því að lesa skýrslur um það, hvað gert hefir verið að starfrækslu fossa, og ekki síst með því að kynna sjer, hvað sagt hefir verið um starfrækslu einstakra fjelaga og einstakra ríkja. Þetta alt má upplýsa hjer á landi, með því að útvega skýrslur og skilríki, sem þar að lúta. Og það er gefinn hlutur, að allir, bæði stjórnendur einstakra fjelaga og opinber stjórnarvöld, mundu fús til að láta stjórninni í tje allar slíkar upplýsingar. Þess vegna hefði verið rjett og fullnægjandi að vísa málinu til stjórnarinnar, að hún hefir tök á að snúa sjer til hverra sem er og beiðast upplýsinga. Það getur nefndin auðvitað líka gert sjálf. Sem opinber nefnd getur hún leitað allra þeirra upplýsinga, sem starf hennar útheimtir, og mundi fá þær viðstöðulaust. En til þess hefði ekki þurft að skipa nefnd. Og nú er stjórnin við hendina og getur útvegað skilríkin, sem nefndin svo byggir starf sitt á. Þetta ætlast jeg til að nefndin geri hjer, og annað býst jeg ekki við að hún geti gert, að undanteknum þeim eina manni í nefndinni, sem segja má að nokkra sjerþekkingu hafi á þessum málum, sem sje verkfræðingnum. Jeg sje því enga ástæðu til, að nefndin í heild sinni fari að ferðast til útlanda.

En nú munu menn ef til vill spyrja sem svo, hvers vegna sje verið að ragast í þessu. Þar til er því að svara, að þetta mál er fyrir mjer alvörumál, alt of áríðandi alvörumál til þess, að ekkert sje að því unnið, heldur verið að fimbulfamba út í hvippinn og hvappinn. Nefndin verður að fara að láta eitthvað eftir sig sjást, til þess að þingið geti eitthvað farið að gera, að minsta kosti í þeim atriðum, sem næst liggja. Starfræksla fossanna á að verða höfuðframfaraskilyrði þessa lands, og bráðnauðsynlegt er, að sem allra fyrst verði farið að vinna að þeim málum, en ekki alt látið lenda í hjali.

Það er ekki kostnaðarins vegna, sem jeg er að fást um þetta. Jeg er yfirleitt ekki sýtinn um það, þó að það, sem gera þarf, og vel er gert, kosti eitthvað, og tel jeg mjer það til hróss. En eins og hjer er frá öllu gengið, þá geta menn álitið, að þetta nefndarstarf fari að kosta svo mikið, að við verðum að fara að sjá, hvort nokkuð rekur eða gengur fyrir nefndinni.

Til upplýsingar skal jeg taka það fram, að jeg hefi fengið að vita hjá landsfjehirði, hvað nefndin hefir kostað fram til þessa, það er að segja, hvað stjórnarráðið hefir ávísað nefndarmönnum til greiðslu úr landssjóði .Frá því skal skýrt, að síðast hefir verið ávisað 23. mars, enn sem komið er. Það, sem gengið hefir til nefndarinnar, síðan hún settist á laggirnar í haust, er samtals kr. 11752,42 eða hart nær 12 þúsundir króna. Eins og kunnugt er, hefir nefndin ekki farið langt út fyrir bæinn enn þá, hvað þá heldur landsteinana, og er ekki búin að sitja nema nokkra mánuði, ekki mörg ár. Til þess að menn viti, hve nær nefndin fer að fá fje úr landssjóði, þá skal jeg geta þess, að fyrst er ávísað:

17. nóv. f. á ……………………………………………………… kr. 2.000,00

þar næst 2. jan. þ. á ……………………………………………… — 2.000,00

og 27. mars þ. á .…………………………………………… — 552,42

sem gerir alls og telst það til fyrra árs …………………………… kr. 4. 552,42

.

Enn fremur 16. jan. þ. á. ………………………………………… kr. 4.000,00

þá 5. mars þ. á …………………………………………………… — 2.000,00

og loks 23. mars þ. á. …………………………………………… — 1.200,00

verður alls og telst til þessa árs útgjalda ………………………… kr. 7.200,00

Það kann nú vel að vera, að nefndin geri grein fyrir, að hún hafi nauðsynlega þurft þessa fjár með. En mjer er sem jeg sjái niðurstöðuna, ef nefndin skilar engu af sjer nú, heldur ætlar að sitja áfram ef til vill árum saman og fara að ferðast út um löndin. Það er nú ekki óhugsanlegt, að það reynist ekki að ófyrirsynju, nje heldur með öllu tilgangslaust að við heimtum upplýsingar um starf nefndarinnar nú þegar, og sjerstaklega að núna á næstunni komi fram ályktanir nefndarinnar viðvíkjandi 1. og 4. lið þingsályktunarinnar, sem ætlast var beinlínis til að till. kæmu um fyrir þetta þing.