18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Fyrirspurn þessi liggur nú fyrir til umr., og þótt henni fylgi, eins og vant er um fyrirspurnir, löng ræða, sem ekki er nema eðlilegt, þá ætla jeg nú að eins að snúa mjer að fyrirspurninni sjálfri, fyrst um sinn. Hún er í 2 liðum, og eins og allir hv. þm. sjá, er sjerstaklega spurt um, hvað líði framkvæmdum fossanefndarinnar gagnvart 1. og 4. lið margnefndrar þingsályktunar.

Ráðuneytið hefir ekki sjeð ástæðu til þess að spyrja fossanefndina smám saman, hvað störfum hennar liði. Er það því ráðuneytinu eigi sjerstaklega kunnugt, og gat það því eigi svarað fyrirspurninni af eigin ramleik. En þar, sem sjálfsagt var, að fyrirspurnin yrði leyfð, þá taldi stjórnin sjer skylt að gera sem fyrst gangskör að því, að hægt yrði að svara. Fyrirspurnin var því send fossanefnd 11. þ. m. til umsagnar. Svar hennar kom 12. s. m. Stjórnin bauðst svo til að svara 17. s. m. Samkvæmt erindi til forseta átti fyrirspurnin að koma í gær, en fjell úr, án þess að jeg viti um ástæðuna. (E. A.: Þær voru lögmætar). Jeg get nú ekki svarað fyrirspurninni á annan hátt en með leyfi hæstv. forseta að lesa upp svar fossanefndarinnar. Þar segir svo:

„Skal hjer með skýrt frá því, að nefndin hefir ekki enn þá lokið störfum sínum, að því er snertir neitt af þeim fjórum atriðum, sem talin eru í þingsályktun, samþ. 15. sept. 1917. Eru þessi verkefni öll svo náskyld, að þess má ekki vænta, að álit komi frá nefndinni um eitt eða tvö af þeim fyr en nefndin hefir lokið ítarlegri rannsókn á öllum undirstöðuatriðum málsins.“

Gagnvart síðari lið fyrirspurnarinnar segir nefndin enn fremur:

„Í nefndri þingsályktun er látið í ljós, að þingið vænti þess fastlega, að nefndin geti sent stjórninni álit sitt og tillögur, sjerstaklega að því er snertir 1. og 4. lið ályktunarinnar „svo tímanlega, að leggja megi fyrir næst þing“. En þar sem þingið var kallað saman miklu fyr en við hafði verið búist, sá nefndin sjer alls ekki fært að hafa nefndarálit um þessa liði tilbúið fyrir þing.“

Eins og jeg hefi tekið fram, hefir stjórnin ekki neinu við þetta að bæta. Þetta er sú skýrsla, sem nefndin gefur stjórninni, og er hún nú lögð fyrir þessa hv. deild. Annars skal jeg geta þess, að þótt stjórnin hafi ekki haft vakandi auga á gerðum nefndarinnar, þá er henni kunnugt um, að nefndin starfar og hefir starfað, (S. S.: og tekur laun.) og við nánari athugun málsins, hefir hún komist að því, hversu, að hennar skoðun, afarvíðtækt verkefni hennar er. Jeg fyrir mitt leyti tel það mjög eðlilegt, að störfum nefndarinnar sje ekki lokið enn.

Jeg skal geta þess, af því að ræða hv. fyrirspyrjanda (G. Sv.) gaf tilefni til þess, að hr. Klemens Jónsson, fyrv. landritari, var fenginn til að rannsaka rjettarspursmál það, sem till. hans, hv. fyrirspyrjanda (G. Sv.), frá aukaþinginu 1916—17, fór fram á að rannsakað væri. Og eins og hv. fyrirspyrjandi (G. Sv.) tók fram, var það svo lengi framan af, að þetta starf var í höndum þessa manns, er hann nefndi. Hann skilaði svo aldrei árangrinum af starfi sínu, og sá stjórnin þá ekki annað betur við eiga en að fela fossanefndinni það verk, þar sem það lægi eiginlega í 1. lið þingsályktunarinnar í fyrra, og stjórninni auk þess var kunnugt um, að nefndin hafði þegar nokkuð rannsakað þetta rjettarspursmál, er falst í eldri þingsályktuninni.

Gagnvart fyrirspurninni sjálfri get jeg svo eigi gefið frekari upplýsingar en þetta. Og þótt svarið sje flutt í ræðuformi, hefi jeg leyft mjer að skrifa upp svar nefndarinnar, og vitna jeg í þau orð.

Ræða hv. fyrirspyrjanda (G. Sv.) gefur ekki tilefni til að minnast á mörg atriði af því, sem hann tók fram. En hann virtist gefa í skyn, að stjórnin hefði ekki verið sjálfráð í vali nefndarmanna. Hæstv. forsætisráðherra hefir nú skýrt það mál fyrir sinn flokk. Og jeg hefi ástæðu til að taka það sama fram um minn flokk, og get jeg um það vitnað í samflokksmenn mína, að engin skilyrði voru af flokksins hálfu sett, og jeg hafði gersamlega óbundnar hendur í því efni.

Um þetta, sem hann drap á og er allískyggilegt, ef satt er, að það sje alment haft fyrir satt, að störf nefndarinnar muni standa í fleiri ár, er jeg alls ófróður. En nú vill svo til, að hjer í hv. deild eru 2 af nefndarmönnum, og geta þeir eftir vilja sínum svarað ekki einungis þessu atriði, heldur fleirum í ræðu hv. fyrirspyrjanda (G. Sv.), ef það gæti orðið til frekari skýringar í málinu.