18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Sigurður Stefánsson:

Að eins fáein orð. Þegar jeg kom til þings síðastliðið sumar, var þetta mál komið svo langt, að ekki var eftir annað en reka á það endahnútinn. Jeg var á fundinum í sameinuðu þingi og heyrði þá lýst yfir því, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, eða hvað þeir nú heita, ætluðust til, að flokkarnir rjeðu kosningu mannanna, með öðrum orðum, að nefndarstarfið skyldi gert að flokksbitlingum. Hæstv. forsætisráðh. hefir nú skýrt frá, að þetta ætti ekki við Heimastjórnarflokkinn.

Það er auðvitað ekki nema gott fyrir þá, sem völdin hafa, að geta gefið þeim við og við brauðbita, sem fylgispakastir eru og bestir viðfangs. En hitt orkar meir tvímælis, hvort það sje heppilegt fyrir alþjóð, ef meir er farið eftir því við val manna til einhvers starfs í þarfir hins opinbera, hvaða klíku þeir eru í, en eftir hinu, hverjum hæfileikum þeir eru gæddir og hversu líklegir þeir eru til að geta unnið að gagni fyrir þjóðina. Og mjer finst rjett að nefna það í þessu sambandi, þótt ekki væri tekið tillit til þess þá, — að jeg tók það þá fram, að jeg sæi engan þann í þessum sal, er jeg gæti treyst til að leysa þetta starf af hendi svo vel, sem skyldi. Að vísu bjóst jeg ekki við, að hæstv. stjórn myndi taka mikið tillit til þessara ummæla minna, en til hins hefði mátt ætlast, að hún veldi ekki mann í þessa nefnd af þeirri ástæðu, að hann var bróðir fjármálaráðherrans. Það er langt frá því næg trygging fyrir því, að sá heiðursmaður sje því starfi vaxinn. (B. J.: Er hann verri fyrir það?) Það hefi jeg ekki sagt, en mjer er tjáð, að hv. þm. Dala. (B. J.) hafi tekið að sjer lögfræðihlið þessa starfs, og það ber ekki vott um mikið traust til þessa lögfræðings í nefndinni, að hún fær til að rannsaka rjettarhlið þessa máls mann, sem, þótt hann þykist vera yfirlögfræðingur þingsins, hefir þó ekki hinn lögákveðna lögfræðingsstimpil.

Hæstv. atvinnumálaráðherra sagði, að hann hefði haft óbundnar hendur um val nefndarmannsins, og þykir mjer það reyndar gott að heyra. (Atvinnumálaráðherra: Jeg stend við það!) Gott! En ef hann hafði óbundnar hendur, þá þykir mjer það í meira lagi skrítið, að valið skyldi einmitt falla á þann mann, er flokkurinn var fyrirfram búinn að ákveða að fara skyldi í nefndina. En þar til verða auðvitað færð þau rök, að sá heiðursmaður hafi fyrir sjerstakra hæfileika sakir verið vel til starfsins fallinn. Um hæfileika hans veit jeg ekki, en hann var þó einn í þeirra tölu, sem jeg gat eigi treyst til þess starfs í fyrra, og enn er mjer ókunnugt um sjerstaka hæfileika hans til þessa starfs. En það er þegar nokkuð grunsamlegt, að hæstv. atvinnumálaráðherra með „óbundnu hendurnar“ skyldi þegar detta einmitt ofan á þennan mann, sem flokkurinn var búinn að binda fastmælum að koma í nefndina.

Jeg heyrði hv. fyrirspyrjanda (G. Sv.) furða sig á því, hvernig nefndin var skipuð. Mjer kom ekki til hugar að furða mig. Hjer er alt orðið að bitlingum; öll launuð störf eru fyrst og fremst ætluð skyldmennum, flokksmönnum og vinum stjórnarinnar. Og sama má jafnvel segja um afskifti þingsins af þeim störfum, sem liggja undir veitingu þess. Svona er nú komið. Það eru því miður fáir, sem hafa einurð til að minnast á þetta í þessum sal.

Jeg hefi það eftir góðum heimildum, að nefndin muni þykjast þurfa að sitja á rökstólunum í 4—5 ár. Það verður dálaglegur skildingur, ef kostnaðurinn verður hlutfallslegur við það, sem hann hefir verið þetta hálfa ár, sem nefndin er búin að hirða, sem nemur hátt á 12. þúsund króna. Þá verður árskostnaðurinn um 24 þús. og meira, já, miklu meira. Því heyrst hefir, að nefndin þykist þurfa að ferðast víða um lönd til að skoða fossa, líklega samt ekki til þess að sjá, hvort fossar renna niður á við eða upp á við. Vera má, að hún geti unnið gagn með þessari fossaskoðun, en varla trúi jeg þó, að gagnið verði á við kostnaðinn, og ekki skil jeg, að nefndin þurfi að fara að sigla til að geta sagt álit sitt um fossa hjer á landi. En vera má, að hún leggist svo djúpt í fyrirætlunum sínum, að hennar vegir sjeu óskiljanlegir okkur fáráðunum.

Hv. fyrirspyrjandi (G. Sv.) talaði um að vísa málinu til stjórnarinnar. En jeg verð að segja, að jeg treysti ekki betur hennar forsjá í þessu máli hjer eftir en hingað til. En fela vildi jeg stjórninni það að sjá um, að nefndin verði búin að ljúka störfum sínum fyrir næsta þing. Það ætti ekki að vera frágangssök fyrir nefndina, einkum þar sem í henni eru meðal annara menn, sem þykjast hafa vit á öllu á himni og jörð. Jeg vildi skjóta því til hv. forseta, hvort ekki megi afgreiða fyrirspurnina með rökstuddri dagskrá Ef hann leyfir það, mun jeg bera fram dagskrá. Það er mest um vert að binda einhvern enda á starfstíma þessarar nefndar. Væri vel ef hægt væri að hindra hana í að ferðast um alla Evrópu, Asíu, Afríku og guð veit hvað. Og svo jeg komi aftur að því, sem jeg oft minnist á og hneykslar suma þá, er næstir mjer sitja, þá er fjárhagurinn nú ekki svo glæsilegur, að efni sjeu á að hafa slíka „praktútgáfu“ af fossanefnd, sem þessi nefnd lítur út fyrir að vera. Auðvitað má maður líka búast við langri bók frá nefndinni, sem enginn les, 70—80 þjettprentaðar arkir. Það er í seinni tíð orðið sjálfsagt starf þessara milliþinganefnda að rubba upp slíkum ritverkum, sem sárfáir endast svo til að lesa. Fyrir skömmu ljet einn mjög vitur maður svo um mælt um eina slíka bók, að hann sæi mest eftir pappírnum.