18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla ekki að svara fyrir hönd nefndarinnar; hún er engum skyld um skýrslu fyr en stjórninni á sínum tíma. Hv. sessunautur minn (S. St.), sem er gætinn maður og góðviljaður og notar sjaldan stóryrði, fullyrti, að jeg hefði tekið að mjer að rannsaka lögfræðilegu hliðina á þessu máli, og að lögfræðingurinn í nefndinni, Guðmundur Eggerz sýslumaður, hafi ekki talist hæfur til þess starfs. Jeg er hjer upp staðinn til að lýsa hann ósannindamann að þessu hvorttveggja. Jeg hefi tekið að mjer að rannsaka söguhlið málsins, en alt það, sem horfir beint við lögfræðinni, hefir hr. Guðmundur Eggerz með höndum.

Sessunautur minn (S. St.) kvartaði yfir því, að veislur stjórnarinnar færu mest eftir vinfengi og frændsemi, og hefði það verið orð í tíma talað er Valtýskan var á ferðinni, en hann var einn aðalmaður þeirrar stefnu. Þá fóru allar styrkveitingar eftir því, hvort mennirnir voru valtýskir. Um skipun nefndarinnar skal jeg að öðru leyti geta þess, að það var aldrei neitt launungarmál, að margir litu svo á, að heppilegt væri, að stjórnmálaflokkarnir skipuðu hver sitt sæti í nefndinni. Er þetta ekki nema eðlilegt. Fossamálin eru svo mikilfengleg, að allir flokkar vilja láta sín við getið þar, sem um þau er fjallað.

Skal jeg svo ekki frekar skifta mjer af þessum umræðum, og mun jeg þola það, þó jeg enn einu sinni verði að hlusta á þennan rangmælafoss (S. St.), sem fossar hjer við hlið mína.