18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Bjarni Jónsson:

Það er vandi að tala svo vel sje um mál þetta. Jeg á sæti í nefnd þessari, er ýmsir hv. þm. virðast bera kvíðboga fyrir að starfi illa, og hyggja jafnvel, að eigi muni auðið að fá skýrslu um starf hennar. Þennan fagra dóm sinn byggja þeir fróðu menn á því, að nefndin sje illa skipuð, og að eins eigi þar setu einn maður, sem fær sje til starfsins, verkfræðingurinn. Það sje fjarri mjer að segja, að hann sje illa fallinn til starfsins, en víst er um það, að fræðigrein hans veitir honum ekki mikla hjálp fram yfir aðra, en það er eins og hv. þm. viti ekki, að hann hefir ekki lagt þessa fræðigrein, rafmagnsfræðina, sjerstaklega fyrir sig. En hversu mikið hann hefir um slík mál lesið áður en hann kom í nefndina er mjer ókunnugt, en hann er góður og fróður maður og mesti gáfumaður og því vel fallinn til að vera í nefndinni. En svo erum við hinir nefndarmennirnir; um oss er sagt, að vjer sjeum lítt til þess færir að eiga þar sæti, og verð jeg að virða það á betri veg, þótt hv. þm. treysti mjer ekki vel; jeg er óreyndur og að sumu gallagripur í augum þeirra. Það læt jeg afskiftalaust, en jeg vil þó halda hlífiskildi fyrir formanni og flokksbróður hv. þm. N.-Ísf, (S. St.), sem eigi getur nú borið hönd fyrir höfuð sjer. Sýnist hv. þm. (S. St.) eigi vilja ábyrgjast hann. En það þori jeg að gera, því að hann er landþektur fyrir fróðleik sinn og gáfur. Annar nefndarmanna á sæti hjer í hv. deild, hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), og þótt bróðir hv. fjármálaráðherra hafi, sem lögfræðingur, verið valinn í nefndina, og nefndin falið honum lögfræðisleg verk fyrir sig, þá þarf eigi að bregða honum um vantraust fyrir það, þótt nefndin síðar fæli mjer að gera rannsókn um fossa á afrjettum landsins. Það kom af því, að spursmál það kom til nefndarinnar þegar hann hafði nóg að starfa að öðru fyrir hana.

Jeg vil benda á það, að það er næsta skringilegt, að þeir, sem eigi hafa verið valdir í nefndina, þykjast vita miklu betur en við fimm nefndarmennirnir, hvað nefndin eigi að gera og hverjir sjeu færir til starfsins. En enginn getur felt slíkan dóm, svo á viti sje bygður, nema því að eins, að hann þekki verkið út í æsar og nauðaþekki mennina. Dómar á öðru bygðir eru sleggjudómar. Og þegar gætt er þess, hvernig nágrannaþjóðir vorar hafa valið slíkar nefndir, þá sjest það strax, að þær eru skipaðar stjórnmálamönnum og þingmönnum, en þeir hafa síðan fengið sjer aðstoð sjerfróðra manna. Þetta er og sjálfsagt, því halda ber hreinum stefnum í stórmálum þjóðarinnar, og því verða þingflokkarnir að eiga fulltrúa í nefndunum. Og því var það, að flokkarnir á síðasta þingi vildu eiga fulltrúa í nefndinni. (P. J.: Því var mótmælt). Það má vel vera, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hafi mótmælt því; hann mótmælir svo mörgu, sem hann á ekki að mótmæla. Og það er með öllu óhugsandi, að stjórnin með nefndarsetningunni ,sje að útbýta bita, þ. e. a. s. kaupa sjer fylgi; sú hugsun dettur engum í hug nema fávísri og illgjarnri sál., Nei stjórnin hefir valið þessa menn í nefndina af því, að hún hefir talið þá færa til þess, og jeg segi um þá alla nema mig, um mig getur hver sagt það er hann vill, þeir eru færir til starfsins; á því tek jeg ábyrgð.

Einn þm. var að fjargviðrast um það, að nefndin mundi ekki finna púðrið. Jeg skal ekki um það segja, en samt er jeg nú ekki viss um, nema svo fari, en. hitt er mjer ókunnugra um, hvort hann þekkir púðrið, ef það finst.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) var miklu, mýkri í síðari ræðu sinni, og var það eðlilegt, er, þess er gætt, að hann vissi, að dauðinn stóð fyrir dyrum; skal jeg þá og mýkri vera. Hv. þm. (S. St.) talaði svo, sem hann vildi ekki taka ábyrgð á vali formanns nefndarinnar. Mjer koma ummæli þau kynlega fyrir sjónir, þar sem hæstv. forsætisráðherra hefir, að því er jeg fæ best skiljð, tekið það fram, að hann hafi verið valinn í nefndina að hvötum flokks síns, og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fyllir flokk þann. Mjer skilst því, að hann og flokksmenn hans mættu hjer um vera ánægðir.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þótti tal mitt um þá gömlu sveit Valtýinga harla kynlegt, en eigi var svo. Hann var að brigsla stjórninni um, að hún veitti atvinnu og annað eftir frændsemi og fylgi, en ekki verðleikum, og sagði, að það væri tíska nú. Þessu mótmælti og mótmæli jeg en sagði, að ef svo væri, þá ættu hinir gömlu Valtýingar sök á því, því að þingsveit þeirra hefði fylgt þeirri reglu, að miða styrkveitingar þingsins yið það hvort styrkþegi fylgdi þeim að málum eða ekki. Þetta get jeg sannað með vottföstum dæmum, ef þurfa þykir.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) segist treysta Jóni verkfræðingi Þorlákssyni einum nefndarmanna. Fyrir þetta kann jeg honum þakkir og er glaður yfir, því jeg má varla greina hversu feginn jeg er yfir að hafa vantraust frá honum, því að njóta trausts manns, er talar af jafnmikilli fáfræði og hleypidómum um þetta og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) gerir, væri hverjum góðum dreng mesta hörmung. Jeg vil því færa honum þakklæti mitt fyrir það, er hann má verða mjer og öðrum góðum mönnum til stuðnings, eftir setningunni: „það er fremdartjón, ykkar verk, ef vitmenn lasta, en verra er samt ef hrósa flón“.

Hv. þm. (S. St.) þekkir einn foss í Vigur, þann er beljar hjer við hlið mína.