21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi tekið það fram áður hjer í háttv. deild, og mjer virðist það hafa fengið nokkurt bergmál, að rjettlátasti skatturinn, sem hægt væri að leggja á, væri gróðaskattur. Slíkur skattur hefði átt að vera lagður á fyrir löngu síðan. En betra er seint en aldrei, og leyfi jeg mjer því að koma fram með frumvarp í þessa átt. Ákvæði um tekjuskatt eru nú í lögum 14/12 1877 og viðaukalögum frá 26/10 1917. Samkvæmt þessum lögum báðum eru af 10 þús. kr. atvinnutekjum 270 kr. skattur, af 15 þús. kr. 595 kr., af 20 þús. kr. 1.045 kr., af 25 þús. kr. 1.620 kr. og af 30 þús. kr. ca. 2.320 kr.

Jeg nefni hjer skatt af nokkrum upphæðum. Gróðaskattur sá, sem hjer er um að ræða, kemur fyrst til greina þegar tekjurnar eru orðnar 30 þúsund og þar yfir, og byrjar með 5%, en vex procentvis (1/2% af hverju 1.000), þar til hann er orðinn 15% af upphæð, sem nemur 50 þús. kr. eða þar yfir. Þessi nýi skattur er h. u. b.:

370 kr. af 35 þús. kr.

820 kr. af 40. þús. kr.

1.400 kr. af 45 þús. kr.

2.100 kr. af 50 þús. kr.

en upp úr því 15% af upphæðum fyrir ofan 50 þúsundir.

En þegar atvinnutekjum er bætt við samkvæmt tveim áðurgreindum lögum, þá verður skatturinn samtals af þeim upphæðum, sem jeg nú tilfærði, hjer um bil þannig:

af 35 þús. kr. 3.440 kr.

af 40 þús. kr. 4.640 kr.

af 45 þús. kr. 5.970 kr.

af 50 þús. kr. 7.420 kr.

en skattarnir samlagðir fyrir ofan 50 þúsund verða 30%.