24.05.1918
Neðri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

48. mál, úthlutun kola

Fyrirspyrjandi (Bjarni Jónsson):

Jeg sje á þessu svari hæstv. fjármálaráðherra, að það er fremur sök bæjarstjórnar heldur en landsstjórnar, að kolunum hefir verið ranglátlega skift niður, en þó þykir mjer það miður, að stjórnin skuli hafa samþykt þessar reglur, sem settar voru um útbýtinguna.

Jeg galt jákvæði mitt við þessari dýrtíðarráðstöfun hv. Alþingis með það fyrir augum, að fátæklingarnir skyldu aðallega njóta þessa, menn, sem ekki væru nægilega úrræðagóðir og út undir sig að afla eldiviðar á annan hátt. En þessi flokkun skilst mjer röng, þar sem runnið hafa gjafir úr landssjóði til þeirra, er vel voru efnum búnir og ekki voru gjafarþurfar. Sjálfur átti jeg kost á að fá kol úr hæsta flokknum, en vildi ekki nýta, en kunnugt er mjer um, að menn með sömu tekjum og jeg hefi voru þar ofarlega á blaði, og af því get jeg ráðið, að þeir nutu, sem ekki voru þurfandi.

Það hefði átt að koma þessu öðruvísi fyrir, og ef kolin hefðu orðið of dýr, þá hefði bæjarstjórnin átt að kaupa kolin og láta svo fátæklingana fá þau undir verði, en selja svo hinum efnaðri fullu verði. Jeg verð því að vita þessa aðferð bæjarstjórnarinnar, því hún fer í bág við anda laganna og vilja hv. Alþingis, því jeg veit, að hv. þm. munu vera sömu skoðunar og jeg um þetta mál.