24.05.1918
Neðri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

48. mál, úthlutun kola

Magnús Pjetursson:

Jeg vona, að hæstv. ráðherrar eða hæstv. forseti taki ekki hart á mjer, þó jeg taki þennan útúrdúr. Mjer þykir leitt, að hæstv. fjármálaráðherra skyldi ekki geta gefið betri skýringu á þessu nú þegar. Jeg hjelt satt að segja, að hann þyrfti ekki mikinn undirbúning til þess. Það er munur, hvort landssjóður leggur fram 300.000 kr. eða 500.000 kr til þessarar kolaniðurfærslu, og því undarlegt athugaleysi, að einn fjármálaráðherra skuli ekki vita neitt, hvernig á þessum mismun stendur. Hæstv. fjármálaráðh. hjelt, að verðið mundi miðað við meðalverð þeirra kola, sem landsverslunin hafði til sölu. Jeg býst við, að það muni vera rjett. En það var ekki ætlun þingsins, og engin ástæða til þess, að landsverslunin græddi um 200.000 kr. á því að selja landssjóði þessi kol. Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að það hefði ekki verið tekið fram í þinginu í fyrra, að dýrtíðarkolin ættu að vera úr neinu ákveðnu skipi. Það má ef til vill segja, að þetta sje rjett hermt. En víst er um það, að allir þingmenn höfðu þá þennan ákveðna skipsfarm í huga. Og þegar þeir greiddu atkvæði með því að veita þennan afslátt af kolaverðinu, þá var það með þeirri fullu vissu, að ekki færi þessi niðurfærsla yfir 300 þús. kr., því það var þá kunnugt öllum þingmönnum, að landsstjórnin átti von á kolum fyrir það verð. — Það getur verið satt, að þetta hafi ekki mikið að segja, þegar upphæðin kemur í landssjóðinn hvort sem er. En það er óviðfeldið, að þegar hagur landsverslunarinnar er gerður upp, þá sje af gróðanum fram kominn við það, að landssjóður hafi borgað of mikið fyrir vöru, sem hann keypti af versluninni.

Jeg hefi komið þessu að hjer, til þess að þurfa ekki að koma með sjerstaka fyrirspurn um það. Það þarf líklega ekki að ræða meira um þetta. Jeg býst við, að þær upplýsingar sjeu komnar fram, sem hægt er að fá, að minsta kosti hjá hæstv. fjármálaráðherra.