27.05.1918
Neðri deild: 32. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

53. mál, hækkun á verði á sykri

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Jeg vil leyfa mjer að gera stutta grein fyrir framkomu fyrirspurnarinnar um sykurmálið.

Eins og kunnugt er, var skipuð nefnd 27. f. m. í þessari deild til þess að athuga verslunarframkvæmdir landsins. 2. maí sendi nefnd þessi stjórninni brjef og bað um upplýsingar varðandi verslun landssjóðs. 10. s. m. svarar stjórnin aftur og kveðst eigi geta gefið þessar upplýsingar nema með löngum fyrirvara. Um sama leyti lá í loftinu, að þingfundum yrði frestað. Þótti sýnt, að afráðið yrði um það um hvítasunnuna. Nefndin sá nú, að það mundi eigi verða nema tilferðin tóm, þótt hún færi að rannsaka verslunarmálið, og afrjeð því að gera ekki neitt að sinni. Því bar jeg og samflutningsmenn mínir upp fyrirspurn þessa um hækkun sykurverðsins. Töldum við sjálfsagt að fá að vita, hvaða rök stjórnin vildi færa fyrir þessari ráðstöfun sinni, því að enn sem komið er hefir hún engin nýtileg rök komið með til stuðnings henni. Enn fremur var einsætt að gefa stjórninni kost á því að rökstyðja lækkun sykurverðsins aftur.

Þótt verslunarmálanefndin hefði nú tekið að rannsaka þetta atriði, býst jeg ekki við, að hún hefði fengið fullnægjandi skýringu á þessari ráðstöfun. Hún mundi hafa fengið sömu upplýsingar sem jeg hefi fengið hjá núverandi forstjórum landsverslunarinnar, og jeg er þeim þakklátur fyrir. Fyrirspurnin hefði því óhjákvæmilega jafnt komið fram, þótt nefndin hefði tekið málið til rannsóknar, því að hún mundi eigi heldur hafa fengið upplýsingar, sem rjettlættu þessar ráðstafanir.

Jeg kem þá að málinu sjálfu.

Sykur er ein þeirra vörutegunda, sem landssjóður verslar með. Í júní f. á. mun landsstjórnin hafa haft allmikið af sykri í vörslum sínum. Þá, 12. júní, var sykurverðið hækkað um 25 aura pr. kíló, og verðið þá ákveðið: á höggnum sykri kr. 1,35 pr. kg., á steyttum sykri kr. 1.15 pr. kg.

Var verð þetta auðvitað lagt á allar, bæði eldri og yngri, birgðir, sem fyrir voru. En fyrir voru allmiklar birgðir þá.

Í júlí f. á. fær landsstjórnin svo sykur frá Ameríku með eimskipinu „Ísland“, rúmar 400 smálestir, þar af 101 smálest steyttan sykur. Þessi sykur er einnig seldur sama verði og eldri sykurinn, sem verðið hafði verið hækkað á 12. júní f. á. Virðist þetta verð á „Íslands“sykrinum hafa verið nærri lagi, en talsverður gróði hlýtur að hafa orðið á eldri birgðunum með þessu verðlagi.

Í september f. á. kemur enn sykur með „Íslandi“, 590 smálestir af höggnum sykri. Þessi sykur var nokkru dýrari en sykur sá, er fyrir var. Skipið hafði orðið að bíða nokkuð lengi í New York, og farmgjald því hærra en áður, og innkaupsverð nokkru hærra líka. Samt sem áður lætur stjórnin sykurverðið haldast óbreytt enn um hríð.

Svo kemur þá að hækkuninni. 19. okt. f. á. eru kannaðar sykurbirgðir landsverslunarinnar. Á hún þá fyrirliggjandi sykur, svo sem hjer segir:

A. Högginn sykur:

Í vörslum landsversl. ……………………… 1.157 smál.

Í vörslum sýslumanna …………………….. 128 smál.

Alls 1.285 smál.

B. Steyttur sykur:

Í vörslum landsversl. ……………………… 135 smál.

Í vörslum sýslumanna …………………….. 87 smál.

Alls 222 smál.

Sykurbirgðirnar alls eru 1.507 smál. Þar af voru með „Íslandi“ í sept, eins og áður segir, 590 smálestir. Eldri birgðir, er seldar voru með lægra verðinu, voru því 917 smálestir.

Þennan dag, 19. okt. f. á., sýnist hafa verið í ráði að hækka verð á öllum sykurbirgðum þessum alment. Og sagt er, að það hafi reyndar verið gert, en sú hækkun hafi verið afturkölluð eftir 2 klukkustundir. Forstjóri landsverslunarinnar, sá er þá var, skýrði svo frá í yfirlýsingu í „Vísi“ 12. og 14. nóv. f. á., að verðið hafi þá (19. okt. f. á.) breyst þannig, „að sykurpantanir, sem koma utan af landi til landsverslunarinnar í Reykjavík eftir 19. okt., hafa verið afgreiddar þaðan með hinu hærra verði, en engin fyrirskipun hefir verið gefin til sýslumanna, sem keypt hafa sykur hjá landsversluninni, um að hækka í verði sykurbirgðir þær, sem þeir kunna að eiga óseldar“.

Eftir þessu hefir sykur landsverslunar frá 19. okt. f. á. verið seldur tvennskonar verði:

a. Af birgðum, sem hjá sýslumönnum lágu, og af birgðum, sem voru í vörslum landsverslunarinnar, til kaupmanna í Reykjavík og þeirra annara, er hjer keyptu á staðnum, með gamla verðinu 1,35 kr. kilo af höggnum sykri og 1,15 kr. kilo af steyttum sykri.

b. Ef pantaður var hjeðan sykur og afgreiddur eftir 19. okt. út um land, t. d. af kaupmanni á Ísafirði o. s. frv., þá var sykur seldur með hækkaða verðinu kr. 1,60 kilo af höggnum sykri og kr. 1,50 af steyttum sykri.

Á sama tíma og sama stað er því tvennskonar verð á sömu vöru hjá sömu verslun.

Með þessu síðara, hækkaða verði sýnast hafa verið seldar um 10 smálestir, 20. og 24. okt. f. á., og eru þær afgreiddar til sýslumannanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu, er hjer keyptu á staðnum, með gamla verðinu 1,35 kr. kilo af höggnum sykri og 1,15 kr. kilo af steyttum sykri.

Með þessu síðara, hækkaða verði sýnast hafa verið seldar um 10 smálestir, 20. og 24. okt. f. á., og eru þær afgreiddar til sýslumannanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu. Sjest þetta í skýrslu frá landsversluninni, er jeg hefi í höndum.

Eins og getið er áður, átti landsverslunin 19. okt. f. á. 917 smál. af eldri sykrinum. Ef hún hefði þá þegar hækkað allar þær birgðir í kr. l,35kg. af höggnum sykri úr kr. 1,35, og í kr. 1,50 kg. af steyttum sykri úr kr. 1,15, hefði það numið sem hjer segir:

222 smál. st. sykri, hækkun 350 kr. pr. smál. kr. 77.700

695 smál. hg. sykri, hækkun 250 kr. pr. smál. — 175.750

Alls kr. 253.450

Hefði sú upphæð, rúm ¼ miljón, orðið hreinn gróði.

Þessi millibilshækkun stendur, eins og kunnugt er, til 5. nóv. Nokkuð hefir selst á þessu tímabili, frá 19. okt. til 5. nóv. f. á. En 5. nóv. verður eigi sjeð, að nein birgðakönnun hafi farið fram, sem sjálfsagt var þó, því að pakkhúsmenn verslunarinnar hefðu átt að segja, hvað þá væri til, svo að ákveða mætti, hverju þeir ættu að standa skil á. Samskonar gildir auðvitað líka um birgðir sýslumanna, ef hækka átti verð á sykri, er þeir höfðu í vörslum sínum. Eftir því, er ráða má af skýrslum um endurgreiðslur þær, sem fóru fram eftir að verðið var aftur sett niður, hafa milli 30 og 40 smálestir alls verið seldar hærra verðinu.

5. nóv. var almenna sykurverðshækkunin ákveðin. Þá er högginn sykur alment hækkaður úr kr. 1,35 pr. kg. í kr. 1,60 og steyttur sykur úr kr. 1,15 pr. kg. í kr. 1,50, eða högginn sykur um 25 aura pr. kg. og steyttur 35 aura pr. kg„ eða höggni sykurinn um rúmlega 18½% og steytti um rúmlega 30%. En aldrei var þó nein skipun send sýslumönnum um að hækka verð á birgðum þeim, sem hjá þeim lágu þegar hækkun þessi gekk í gildi. Enda var víða sykur seldur á öllu þessu tímabili með gamla verðinu. Er þetta bæði bygt á yfirlýsingu þáverandi forstjóra landsverslunar í Vísi 14. nóv. og fjölda mörgum skýrslum um sykurverðið frá ýmsum stöðum á landinu.

Hjer er því samskonar misfella og misrjettið, sem átti sjer stað um hækkunina 19. okt. f. á.

a. Þeir, sem kaupa eftir 5. nóv. 1917 af landsversluninni sjálfri, verða að borga kr. 1,60 og kr. 1,50 fyrir hvert kg.

b. Þeir, sem kaupa af birgðum sýslumanna, fá sykurinn fyrir kr. 1,35 og kr. 1,15 hvert kg.

Og voru þá enn víða allmiklar sykurbirgðir í vörslum sýslumanna, er seldar voru áfram lægra verðinu.

Þá kem jeg að síðasta þættinum.

Skiljanlegt er það, að mönnum þætti hart undir þessari ráðstöfun, hækkun sykurverðsins, að búa. Eftir verslunarskýrslum vorum er sykurnotkun á mann hjer nálægt 29 kg. á ári. 25 aura hækkun gerir á ári kr. 7,25 á hvert nef, en á landsmenn alla gerir það 650 þús. kr. Sykur er fullkomin nauðsynjavara, einkum í Reykjavík og öðrum mjólkurlitlum stöðum. Því er eðlilegt, að almenningur heimtaði fullar og ótvíræðar röksemdir fyrir nauðsyn þessarar ráðstöfunar. Og það er líka óhætt að segja, að sjaldan hefir mönnum komið betur saman en í þessu máli.

Andófsblöð stjórnarinnar víttu auðvitað oftnefnda ráðstöfun stjórnarinnar. En menn kunna að segja, að eigi sje mikið upp úr því leggjandi. En það sannar meira í þessu efni, að eina stjórnarblaðið, sem þá var, „Tíminn“, varði hana alls eigi. 10. nóv. krefst hann þess, að ráðstöfunin verði feld úr gildi. Segir, að einhver ráð verði að hafa „til þess að lækka einmitt þessa vörutegund“. Segir, að það mundi valda mjög miklu misrjetti, ef þessi vörutegund verði eigi seld undir sannvirði — því að „Tíminn“ hyggur sýnilega, að hækkunin hafi verið nauðsynleg af verslunarástæðum — af því að mikill hluti manna hafi viðað að sjer þessari nauðsynjavöru fyrir veturinn, og að þessi verðhækkun komi því aðallega niður á fátæklingana í kaupstöðunum. „Tíminn“ kallar það því „misfellu“ og „misstigið spor“, að hækkunin kom svo seint, að allmikill hluti landsmanna gat áður birgt sig upp til vetrarins af sykri með lægra verðinu, áður en hækkunin kom.

„Sykurverðið verður að lækka“, segir blaðið.

Kaupmannastjettin tók eins í málið. 7. nóvember var almennur kaupmannafundur haldinn í bænum. Þar var skorað á verslunarráðið að beita sjer fyrir því, að stjórnin næmi ráðstöfun sína

Þegar úr gildi; þar var skorað á alla kaupmenn að selja með óuppsettu verði þann sykur, er þeir ættu. Og þetta gerðu kaupmenn líka. Loks var skorað á stjórnina að ná sjálf eða hjálpa kaupmönnum til að ná sykri, er stjórnin hafði fengið loforð um að fá frá Danmörku.

Því næst var haldinn almennur fundur hjer í bænum 9. nóv. að tilhlutun stjórnar Alþýðuflokksins. Þar voru ráðherrarnir 2, er þá voru hjer á landi. Engin röksemd kom fram, er rjettlætti svo mikla hækkun á sykurverðinu, sem ákveðin hafði verið. Þar bar Jörundur bæjarfulltrúi Brynjólfsson upp till., er samþykt var með viðaukatill. frá Sveini bæjarfulltrúa Björnssyni, og var hún á þessa leið:

„Fundurinn skorar á landsstjórnina að fella nú þegar burtu hina gífurlegu verðhækkun á landssjóðssykrinum, þar sem hún, eins og á stendur, skapar afarmikið misrjetti — og skorar á landsstjórnina að birta þau gögn, sem verðhækkun á núverandi birgðum landssjóðs af sykri byggist á“.

Loks er málið tekið fyrir, utan dagskrár, á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur 15. nóv. þar töluðu margir bæjarfulltrúar, og mælti enginn ráðstöfuninni bót. Var þar samþykt með öllum greiddum atkv. svo látandi tillaga:

„Bæjarstjórnin skorar á landsstjórnina að fella nú þegar niður verðhækkun þá á sykri, sem ákveðin hefir verið og gekk í gildi fyrir Reykjavík 5. þ. m., með því að verðhækkun þessi felur í sjer misrjetti, sem kemur hart niður á almenningi nú í dýrtíðinni, og þess utan hefir eigi verið upplýst, að þörf hafi verið á henni af verslunarástæðum“.

Daginn eftir, 16. nóv., verður það úr, að landsstjórnin neyðist til að lækka verðið aftur. Og hún lækkar það niður í sama verð sem sykur hennar var áður í. Og hún endurgreiðir allan verðmuninn, sem samkvæmt reikningum landsverslunarinnar nam rúmum 10.200 kr.

Manni hlýtur að verða að spyrja: Var lækkunin forsvaranleg frá verslunarsjónarmiði? Stjórnin taldi þá hækkun, sem hún hafði ákveðið, nauðsynlega eftir verslunarreglum sínum. Því hlýtur sú spurning að koma fram, hvers vegna stjórnin lækkaði sykurverðið. Var það verjandi frá verslunarsjónarmiði?

Fyrirspurnin er í tveimur liðum. Fyrst er spurt um, hvers vegna stjórnin hækkaði sykurverðið. En jeg vil leyfa mjer að sundurliða þessa spurningu nánar. Og verður þá sundurliðunin þessi:

1. Af hverju stafaði hin mikla verðhækkun á sykrinum?

2. Hvers vegna var verðið eigi hækkað þegar í stað eftir að stjórnin hafði sannreynt það, hvaða verð þyrfti að leggja á sykurinn, sem kom á „Íslandi“ í september 1917, til þess að sala á þeim sykri út af fyrir sig gæti borgað sig ?

3. Hvers vegna var verðið haft mismunandi frá 19. okt. til 5. nóv. f. á., selt með hækkaða verðinu það, sem var afgreitt samkvæmt pöntunum úti um land, en sýslumannabirgðir og það, sem selt var kaupmönnum hjer, framvegis selt með lægra verðinu?

4. Og loks, hvers vegna var sykur landsverslunarinnar enn seldur mismunandi verði, eftir að almenna hækkunin 5. nóv. var ákveðin, þannig, að af sýslumannabirgðum var framvegis selt með lægra, gamla verðinu, en af birgðum, sem voru í vörslum landsverslunarinnar, með hækkaða verðinu?

Í síðari lið fyrirspurnarinnar er spurt aðeins um ástæður fyrir því, að sykurverðið var aftur lækkað, og eigi að eins lækkað, heldur lækkað alveg niður í gamla verðið á öllum birgðunum, enda þótt „Íslands“sykurinn frá í sept. f. á. væri talsvert dýrari en svo, að sala á honum út af fyrir sig bæri sig með gamla sykurverðinu.

Jeg vona, að hæstv. atvinnumálaráðherra hafi skilið fyllilega sundurliðun mína á spurningunum og svari þeim skýrt og glögt í sömu röð sem þær eru settar fram. Á þann hátt verður auðveldast að ræða málið, glöggast mönnum að átta sig á svörunum og umræður um málið skipulegri.