21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Fjármálaráðherra (S. E):

Mjer skildist svo á háttv. 1. þm. G. K. (B. K), að honum þætti þeir þegar borga nógu háan tekjuskatt, sem hafa tekjur undir 30.000 kr. Jeg vil þá minna hann á, að þetta frv. tekur ekki til þeirra, en þangað ná gömlu lögin. Þetta frv. herðir því ekki á, fyr en menn hafa ærið háar tekjur. Hvað svo sem prússneski ráðherrann segir, þá á jeg erfitt með að sjá, hvað er rjettlátur tekjustofn, ef ekki sá gróði, sem stríðið skapar, því að stríðið skapaði gróðann með því að verða nærgöngult við þá mörgu, og þeir eiga því síður að bera skattinn heldur en þeir, sem græddu. Ef þeir, sem hafa yfir 30.000 kr. árstekjur, eru ekki færir um að bera tekjuauka, þá veit jeg ekki, hverjir eru færir um það. Stjórninni hefir, sem kunnugt er, verið ámælt fyrir það af mörgum, að hún hafi ekki komið með tekjuaukafrv. Skil jeg nú ekki, að þeir sömu menn geti verið á móti tekjuaukafrv., sem er jafnsanngjarnt og þetta.

Það getur vel verið, að prússneski ráðherrann sje mjög eindregið á móti tekjuskatti. Þess ber einnig að gæta, að það er svo í öllum löndum, að þeir menn, sem gróðann taka, vilja komast undan að greiða nema sem minstan skatt af honum. Þetta er mjög mannlegt. Og jeg hygg, að prússneski ráðherrann hafi junkarana prússnesku, stóreignamennina, að baki sjer, og það er eðlilegt, þó að þeir spyrni á móti auknum sköttum. Jeg held, að vjer getum ekki farið eftir þessari prússnesku fyrirmynd.

Sami háttv. þm. (B K.) kom með þá gömlu grýlu, að stóreignamennirnir mundu ekki þola þessar álögur, og flýja heldur af landi burt. Guð hjálpi mjer! Hvert ættu þeir að flýja? Búast þeir við að fá minni skatta annarsstaðar? Jeg skal játa, að jeg veit ekki vel, hvernig sakir standa í þessu efni, t. d. á Þýskalandi. En jeg vona, að þangað til málið kemur til 2. umr. muni mjer gefast færi á að rannsaka þetta atriði betur, en ótrúlegt þykir mjer, að þeir finni mörg athvörf þar, sem um minni skatta sje að ræða en hjer.

Háttv. 1. þm. G. K (B. K.) sagði, að þingið í fyrra hefði ekki treyst sjer að ganga lengra. En jeg verð að segja, að skatturinn eftir síðustu lögum kemur ljett niður á gróðamönnunum. Þannig eiga menn eftir núgildandi tekjuskattslögum að greiða af 30.000 krónum 2.320 kr. í skatt. Það er ekki ósann gjarnt. En af 50 þús. kr. eiga menn eftir núgildandi lögum að greiða í skatt 5.320 kr.

Jeg vona þess vegna, ef ekki koma alvarlegri mótmæli en enn eru komin, að meiri hl. háttv. deildar sjái, að rjett sje að samþykkja þetta frv. En ef hæstv. Alþingi sjer sjer ekki fært að samþykkja gróðaskatt í einhverri mynd, þá hefi jeg gaman af að sjá, inn á hvaða skattaleiðir þeir telja sjer fært að snúa.

Gangi frv. þetta í gegnum háttv. Nd., þá get jeg ímyndað mjer, að eftir því, sem háttv. Ed. er nú skipuð, þá muni það ekki mæta þar miklum mótbyr.