30.05.1918
Neðri deild: 35. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

65. mál, Alþingiskvaðning

Fyrirspyrjandi (Sigurður Stefánsson):

Hv. deild getur verið forsætisráðherra þakklát fyrir hina fróðlegu skýrslu, er hann gaf um tildrög fánamálsins og horfur þess, og lofsöng hans um hjálpsemi og velgerðir Dana oss til handa. En hins vegar skal jeg láta þess getið, að meginið af ræðu hans snerti alls ekki fyrirspurnina, eins og hún liggur fyrir. Hún gaf enga ástæðu til, að farið væri að rekja sambandsmálið eða afstöðu hæstv. forsætisráðh. og Dana til fánamálsins. Hún gaf ekki heldur tilefni til þeirra hugleiðinga, hvort undirtektir Dana undir málið hefðu verið að rjettu lagi fráfararefni fyrir hann. Yfirleitt lá ræða hæstv. forsætisráðh. fyrir utan umtalsefnið. Hins vegar var hún fróðleg, og líklega eina skýrslan, sem þingið hefir fengið um framkomu hans í þessu máli, en hana hefir mjer aldrei dottið í hug að víta.

Fyrirspurn mín hljóðar að eins um tímann, sem hæstv. stjórn þóknaðist að ákveða, að þingið skyldi koma saman á, en um annað fjallar hún ekki. Hæstv. forsætisráðh. sagði, að það hefði verið stjórnarfarslega rjett að kalla þingið svona snemma saman. Það má deila um það, en þó það nú hefði aldrei verið nema stjórnarfarslega rjett, þá getur þó vel verið, að mörg atvik liggi til þess, að ekki sje rjett að fylgja þeirri reglu út í æsar, og þau atvik liggja einmitt fyrir í vetur. Jeg hafði aldrei nokkuð við það að athuga, að þingið yrði kvatt saman á þessu ári, en það, sem jeg tel stórkostlega athugavert, var, að það skyldi vera kvatt saman 10. apríl. Og þótt það hefði aldrei verið annað en stjórnarfarslega rjett í eðli sínu, þá gat það líka verið stjórnarfarslegt glapræði að kalla það saman á þessum tíma, og vil jeg nú færa rök fyrir, að svo hafi verið. Þar sem hið mikla vandamál þings og þjóðar — fánamálið, eins og maður nú hefir heyrt, — var aðalorsök þess, að þingið var kvatt saman, og þar sem það eitt gerir það stjórnarfarslega rjett í augum hæstv. forsætisráðherra að kalla þingið svona snemma saman, þá verð jeg að lýsa því yfir, að það var ekki síður stjórnarfarslega viðeigandi, að þingið hefði getað þegar í byrjun snúið sjer að því máli og tekið þar til óspiltra málanna. En nú höfum vjer þegar beðið í tvo mánuði og þetta mál enn ekki tekið á dagskrá og ekkert að því unnið opinberlega, nema hvað ein nefnd hefir eitthvað verið að rjála við það í mesta pukri. Hvaða gagn hefir þá fánamálið haft af því, að þingið var kvatt saman 10. apríl? Jeg sje það ekki. Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þá álít jeg, að þegar um aukaþingskvaðningu sje að ræða, þá verði maður að heimta það af stjórninni, að hún hafi gert alt, sem í hennar valdi stóð, til þess, að þm. sætu ekki iðjulausir í því máli, sem vera átti aðalverkefni aukaþingsins. En er nú þetta svo? Það er svo langt frá því, því við erum ekki hænufeti nær samningum við Dani nú heldur en fyrir tveimur mánuðum. Og hverjum er þetta að kenna? Jeg kenni það stjórninni og engum öðrum. Hún kallar okkur til þings án þess að hafa minstu tryggingu fyrir því, hve nær þetta stórmál geti komið til athugunar í þinginu.

Við þingm. hlýðum auðvitað kallinu og komum í þeirri góðu trú, að alt sje vel undirbúið, en þá verðum við fyrir þeim miklu vonbrigðum, að málið er ekki tilbúið. Og vonbrigðin verða enn þá meiri þegar litið er á, hve nauðafátækleg þau frv. voru, sem stjórnin lagði fyrir þingið. Það var svo sem ekki því að heilsa að hún fyrir sitt leyti fengi þinginu nægilegt viðfangsefni, meðan það var að bíða eftir fána- eða sambandsmálinu.

Það er þegar öllum augljóst, að þingið hefir verið kvatt saman 5—6 vikum of snemma.

Það er ekki ríflega í lagt, þótt talið sje, að þingið kosti 1.000 krónur á dag í 5-—6 vikur verða það 35—42 þús. kr., sem ófyrirsynju er eytt í þinghaldið. Svo bætist þar við gífurlegur ferðakostnaður þingmanna á þessum versta tíma ársins. Flutningur vestfirskra þingmanna frá Ísafirði til Reykjavíkur kostaði um 2.000 kr. Flutningur norðlensku þingmannanna með Geir úr Borgarnesi veit jeg ekki með vissu hve dýr hefir verið; sumir segja 1.000 kr., aðrir 3.000 og enn aðrir 5.000 kr. En þó hann hafi ekki kostað nema 1.000 kr., þá er þessi þingfararkostnaður orðinn 3.000 kr., eða einum 500 kr. minni en allur ferðakostnaður þingmanna í vanalegu ári. Og þá er ótalinn allur landferðakostnaðurinn að þessu sinni.

Jeg veit reyndar, að nú á tímum er þetta ekki talið mikið fje, og kemur mjer því ekki á óvart, þótt sumum hv. þingmönnum, sem láta sjer mest ant um stjórnina, þyki jeg óþarflega hótfyndinn við hana, með því að vita það framferði hennar að ausa út fje úr landssjóði að þarflausu. En jeg lít nú svo á fjárhag vorn, að mjer sje bæði rjett og skylt að víta svona aðfarir.

Þá vil jeg taka það fram, að þó þingið hefði ekki komið saman fyr en 5—6 vikum síðar, þá hefði það auðveldlega getað lokið við þau mál, er fyrir þurfti að taka og stjórnin hafði fram að bera. Jeg veit, að mjer verður svarað því, að við þessi mál hafi þingið þó ekki lokið enn þá, en þessari mótbáru er svarað með þessu, að þegar menn vita til þess, að nægur tími er fyrir höndum, þá vinna menn ekki af eins miklu kappi og eins miklum dugnaði og þegar fastákveðinn tími er ætlaður til starfanna.

Auk þessara óþörfu útgjalda er líka stórkostlegt óbeint tjón, sem leiðir af því fyrir þingm., að þeir voru svo að segja gintir á þetta aukaþing, sem ef til vill getur staðið í alt sumar. Þeir fara frá búum sínum og heimilum í aprílbyrjun og búast við að vera komnir heim aftur í maílok, en þegar sú varð nú ekki raunin á, þá eru bú þeirra í reiðileysi frá maílokum og allan þann dýrmæta tíma, sem hverjum bónda er mest nauðsyn á að vera heima. — Þeir munu hafa búist við því, að þingið stæði ekki lengur en 5—6 vikur, og það var nægilegur tími til þess að ráða sambandsmálinu og öðrum nauðsynjamálum til lykta á, ef ekki hefði verið flanað að því að kalla þingið saman áður en það gat hafið þessar samningatilraunir. Þetta þing verður líklega lengsta þingið, sem háð hefir verið á Íslandi, því jeg geri mjer ekki vonir um, að nokkuð verði aðhafst í sjálfstæðismálinu fyr en í júnílok, ef þá ekki allar vonir manns á því máli verða tálvonir, og þá sjest fyrst, hversu nauðsynlegt var að kalla þingið saman áður en stjórnin vissi, hvort nokkrir samningar tækjust eða ekki. Jeg er líka viss um, eða þykir það að minsta kosti líklegt um jafngóða menn eins og nú sitja í stjórninni, hvað svo sem um gerðir þeirra er að segja, eða hversu þeir eru starfanum vaxnir, sem þeir hafa tekist á hendur, að þeir með sjálfum sjer sjeu í raun og veru farnir að sjá það og finna til þess, að eitthvað sje bogið við þessa samanköllun. Byggi jeg þessa skoðun mína á því, að þegar kemur fram yfir miðjan maí, þá fara að heyrast raddir um það í þinginu, að fresta eigi fundum þess, svo þingmenn geti skroppið heim til búa sinna og annara heimastarfa, og hefi jeg fyrir satt, að þetta sje komið í upphafi frá hæstv. forsætisráðherra. Þessi tillaga var af sumum þingmönnum talin óalandi og óferjandi öllum bjargráðum, en svo var ekki um mig, því jeg virti hæstv. stjórn fyrir að eiga frumkvæðið að henni, því hún er mjer vottur þess, að stjórnin hafi verið farin að sjá, að hún hafi hlaupið á sig, er hún kvaddi saman þing 10. apríl, og hafi sjeð, að það var með öllu óverjandi að láta það sitja lengi aðgerðalaust. En jeg virði ekki stjórnina fyrir það, hvernig henni tókst að fylgja þessari tillögu sinni fram. Stjórnin sem sje heldur fundi með hinum svonefndu flokkum þessa þings, og þar er svo þessi tillaga velkt og volkuð í marga daga, og endirinn verður sá, að þetta góðá áform svo að segja lekur niður úr lúkunum á stjórninni. Svona fór um sjóferð þá, en þó var þetta þó einhver aðkenning þess hjá stjórninni, að hún hefði ekki farið sem hyggilegast að ráði sínu við þessa þingkvaðningu, hvað svo sem stjórnarfarslegum rjetti hennar til þess viðvíkur. Svona standa sakirnar nú, að við bíðum, stjórnin veit ekkert, þingið veit ekkert enn í dag, en við eigum bara að bíða og bíða í trú, von og trausti þess, að danska mamma veiti okkur einhvern tíma á sumrinu einhverja áheyrn í þessu máli, sem átti að vera fyrsta mál á dagskrá aukaþingsins. Jeg veit vel, að segja má, að þingið hafi nægilegt að gera, en þess verður að gæta, að það á ekki að dæma gagn þingsins eftir því, að það hafi nóg að gera, heldur eftir því, hvað það gerir og hvernig það er gert. Og þó nóg væri að gera allan þennan tíma, sem við bíðum eftir málinu, sem átti að vera fyrsta mál á dagskrá aukaþingsins, þá rjettlætir það ekki gerðir stjórnarinnar, nema því að eins, að hún hefði sjeð þinginu fyrir nógri og þarfri vinnu í alla þá mánuði, sem það kann að bíða eftir svarinu frá Danmörku, en því er ekki að heilsa. Fjöldi þingmanna situr hjer sáróánægður og nauðugur, og því minni trygging er fyrir því, að nokkuð verði úr verki, enda er sjón sögu ríkari um, að gerðir þingsins eru enn sem komið er í hinni mestu óreiðu.

Þá vil jeg taka það fram, að fyrir utan sambandsmálið hefir þingið alls ekki nóg að gera allan þennan tíma við þau mál, sem stjórnin hefir lagt fyrir það. Það var sannarleg skylda stjórnarinnar að fá þinginu nytsamlegt verkefni. En eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram, þá hefir hún ekki lagt nema eitt frv. fyrir þessa deild, um björgunarráðstafanir, og það hefði vel getað náð fram að ganga á venjulegum aukaþingstíma, ef vel hefði verið undirbúið, en sökum þess, hvernig það var úr garði gert, er tvísýnt, hvort það merst í gegnum þingið. Þeim frv. sem fóru í þá átt að afla landinu tekna, var fyrst ungað út af stjórninni næstum mánuði eftir þingsetningu, og sumu seinna, og svo kemur þessi huggun frá hæstv. forsætisráðh., að með þessum tekjuaukafrv. komi þó svo miklar tekjur í landssjóð, að þær verði meira en nægilegar til þess að greiða með allan þingkostnaðinn. Flestir munu að vísu líta svo á, að landssjóður hafi nóg að gera með þessar tekjur, þótt miklum hluta þeirra væri ekki sóað í óþarft aukaþinghald.

Eftir þessari ræðu hæstv. forsætisráðherra sýnist mjer svo, að hann geri ekki mikið úr skilningi þingsins á bjargráðamálum landsins, og nefndi hann því til sönnunar afskifti þingsins af Tjörnesnámunni og fleirum bjargráðaframkvæmdum stjórnarinnar. Það er satt, þingið hefir losað stjórnina við þá ráðsmensku, en af hverju? Af því að því ofbauð það afskaplega ráðleysi, sem hún hafði sýnt bæði í því máli og öðrum bjargráðaframkvæmdum sínum, og um aðalbjargráðafrumvarp hennar að þessu sinni er það að segja, að það var svo í garðinn búið, að skilningsleysi þingsins verður tæplega kent um afdrif þess.

En svo jeg haldi mjer við aðalmálið, sem þingið var kvatt saman til að fjalla um, þá þykir mjer rjett að drepa nokkuð nákvæmar á afstöðu stjórnarinnar til meðferðar þess.

Þegar við komum á þing, þá tilkynnir hæstv. forsætisráðh. oss, að það muni útkljáð þegar eftir þingkosningar í Danmörku, hve nær þessir ráðgerðu dönsku samningamenn komi. En þegar þingkosningarnar eru um garð gengnar, þá er okkur sagt, að ekki verði útkljáð um sendingu þeirra fyr en þingflokkarnir hafi haldið með sjer fundi. En af þeim fundum varð heldur ekkert „resultat“, og þá er okkur sagt, að nú muni það ekki bregðast, að ákvörðun verði tekin í málinu þegar ríkisþingið komi saman, síðast í maí, og oss heitið skeyti um það fyrst í júní, er muni leiða oss í allan sannleika. Hve lengi vjer eigum að lifa í þeirri von, veit enginn. Þessi margsviknu loforð hafa þegar haft þau áhrif á hugi margra, að þeir eru farnir að efast um, hvort nokkur sendinefnd komi. En í þessari von hefur maður þó lifað næstum tvo mánuði, og þann tíma hefir hæstv. stjórn látið Dani teygja sig á eyrunum, með því að gefa vonir, sem reyndust að vera tálvonir, og svo hefir stjórnin teygt okkur á eyrunum, í stað þess að kalla ekki þingið saman fyr en ábyggileg vissa var fyrir því fengin, hvort nokkuð yrði úr þessum samningum eða ekki, og hve nær þær yrðu byrjaðar, ef úr þeim yrði. Og þetta er það, sem jeg hefi að setja út á gerðir stjórnarinnar. Þegar þingið hefir nú setið 7 vikur og jafnóvíst er nú og þegar þingið kom saman, hvort nokkuð verði úr samningum eða ekki, þá er ekki hægt að lá neinum, þó hann sje ekki sterktrúaður á það, að einnig þessi síðasta von verði ekki tálvon. Og þá hefir verið eytt dýrum tíma og miklum peningum fyrir landssjóði í hreinan óþarfa, hvað þetta mál snertir, og þó var þetta mál aðalmálið, sem þingið átti að hafa með höndum. Það hefir verið um mig sagt, að mjer væri einlægt gjarnt á að horfa nokkuð mikið í sparnaðaráttina fyrir landssjóðinn, og jeg veit, að sumum hv. þm. þykir þetta stórgalli og leggja mjer það út til lasts. En jeg verð að segja, að þó það sje dýrmætt að hafa Alþingi Íslendinga sitjandi á rökstólunum, þá geti þó sú pípa orðið of dýru verði keypt, og svo hefir nú orðið raunin á, þar sem það er á daginn komið, að það var kallað saman tveim mánuðum áður en það mál var tilbúið, er það var kvatt saman til að fjalla um. Jeg býst við, að ekki sje of djúpt tekið í árinni, þó áætlað sje, að þingið kosti 1.000 kr. á dag. Og þótt stjórnin huggi sig við þá vissu von, að tekjuaukinn borgi miklu meira en þann kostnað í tvo til þrjá mánuði, þá held jeg, að nægilegt rúm sje fyrir þessa peninga í landssjóðnum, þótt ekkert af þeim færi forgörðum fyrir forsjáleysi stjórnarinnar, því jeg man ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi lýst því yfir í þingbyrjun, að 3½ milj. kr. tekjuhalli mundi verða eftir þetta fjárhagstímabil, svo að auðvelt verður að koma þessum þúsundum í lóg, þó ekki sje streitst við að eyða þeim í óþarfa þingsetu. Það er eins og stjórninni hafi fundist það stórkostleg uppgötvun, er hún sá, að gróðinn af tekjuaukafrumvörpum hennar mundi verða til að margborga þetta aukaþing. Hún gerir sjer nú ef til vill í hugarlund, að hann nægi til að minka allríflega þennan 3½ milj. kr. tekjuhalla, sem öll líkindi eru til að verði einni miljóninni hærri en nú er látið í veðri vaka. Jeg veit það ekki; en annað veit jeg, og það er, að í þessum mikla tekjuhalla mun þessi langa þingseta eiga sinn drjúga þátt, og það álít jeg að sje stjórninni beint að kenna.

Jeg drap á það í fyrri hluta þessarar ræðu minnar, að í raun og veru væru störf þingsins alt annað en skemtileg og væru, þegar að væri gætt, komin í mestu óreiðu, og nú skal jeg færa rök að þessari skoðun minni. Á öndverðu þinginu lýsti stjórnin því yfir, að hún mundi fyrir sitt leyti ekki leggja nein fjáraukalög fyrir þingið. Þar af leiðandi lá það í augum uppi, að engin fjáraukalög mundu verða lögð fyrir þingið, því ekki fer það að leggja fjáraukalög fyrir sjálft sig, heldur er það stjórnarinnar einnar að leggja slík lög fyrir þingið. Þegar jeg heyrði þetta, virti jeg landsstjórninni það fremur til lofs en lasts, því jeg skildi það svo, að hún með þessu vildi forða landinu frá auknum útgjöldum að þessu sinni. En svo þegar kemur fram á þingið, þá verður sú raunin á, að inn á þingið streyma fjárbeiðnir, sem nema til samans hundruðum þúsunda króna, og það aðstreymi eykst með degi hverjum. Annaðhvort hefði verið fyrir þingið á þessum tímum, að moka öllum þessum fjárbeiðnum út, eða þá að fara, ef ekki í bág við bein ákvæði stjórnarskrárinnar, þá að minsta kosti á bug við anda hennar, með því að samþykkja grímuklædd fjáraukalög á hverjum degi, í þingsályktunarformi, og þetta gerir það nú daglega. Vjer getum haldið áfram að samþykkja slík lög í alt sumar, en jeg vil að eins minna á, hversu sparlega við hjeldum á fje landssjóðs og tíma þingsins á þessum alvöru- og erfiðu tímum. Við skulum segja, að hver af þessum tillögum kosti 4 umr.; þær eru nú orðnar 20 talsins og kosta því til samans 80 umr., þó þær kæmu ekki til sameinaðs þings, en ef þær kæmu þangað, þá kosta þær 100 umræður. Fjáraukalögin, ef sá kostur hefði verið upp tekinn, en stjórnin vildi ekki taka upp, hefðu kostað í mesta lagi 9 umr. Með þessu háttalagi er eytt tíma þingsins í 90 umræður umfram það, sem hefði þurft með, ef fjáraukalög hefðu legið fyrir. Það má náttúrlega svara mjer því, að ekki hefði þurft að taka neitt tillit til þessara fjárbeiðna. Það hefði auðvitað verið það rjettasta og eðlilegasta, eins og á stendur. En stjórnin hefir verið með mörgum af þessum tillögum og hefir viljað, að þær gengju fram. Hún hefði að vísu ekki getað tekið þær allar upp í fjáraukalög, en margar af þeim fjárveitingum, sem hjer hefir verið fjallað um, hefði stjórnin einmitt getað tekið upp í aukafjárlagafrumvarp, og ef hún hefði gert það, þá hefði hún með því sparað þinginu að eyða tímanum í þennan hjegóma, í 100 umræður, þar sem ekki þurfti nema í hæsta lagi 9. Þetta er sýnishorn af því, hvernig fer þar, sem vantar einarða, duglega og verkhæfa stjórn, sem lítur til hvorugrar handar, en heldur beina stefnu, — kvíðbogalaust fyrir því, að verða ef til vill að fara frá. — Það er blátt áfram hugleysi af stjórninni að leggja ekki fjáraukalög fyrir þetta þing. Jeg segi ekki, að mig, fyrir mitt leyti, hefði langað til að fá fjáraukalög. En jeg hefði mörgum sinnum heldur viljað þau en allar þessar þingsályktunartillögur, sem ekkert eru annað en grímuklædd fjáraukalög.álít— Það er ekki rjetta leiðin, að þingið leiti til stjórnarinnar með fjárbeiðnir, heldur á stjórnin að leita á náðir þingsins og biðja það að veita sjer heimild til að verja fje landsins í það og það. En þetta er sýnishorn af því, hversu öfugt og snúið alt er orðið, —eintómt reiðileysi bæði hjá þingi og stjórn. — Það er auðvitað hægra fyrir stjórnina að kasta svona allri ábyrgðinni upp á þingið, en hvort það er stjórnarfarslega sæmilegt, það er annað mál.

Jeg hefi minst á það, að þetta þing muni verða það lengsta þing, — þó aukaþing sje, — sem háð hefir verið á þessu landi. En ef það nú samt sem áður ræður því málinu til heppilegra úrslita, sem það var kallað saman til að afgreiða, þá væri minna um að tala. En jeg get hugsað mjer, að það verði ekki einungis lengsta og dýrasta þingið, heldur verði það einnig langómerkilegasta þingið, sem sögur fara af. Eins og jeg hefi tekið fram, gef jeg stjórninni að miklu leyti sök á þessu. Hún hefir kallað þingið saman fyr en hægt var að leggja fyrir það aðalmálið, sem átti að ver og þingið var kallað saman til að útkljá.

Jeg veit það, að ýmsum ættjarðarvinum og frelsishetjum er illa við það, ef minst er á, hvað hlutirnar kosti, eða að fjárhagur landsins standi höllum fæti. Hjer er yfirleitt ekki mikið horft í kostnaðinn og ekki verið að gera sjer rellu um það, hvort tekjuhallinn er miljóninni meiri eða minni. Jeg get ekki að því gert, að mjer finst þetta alvarleg stefna hjá þinginu, því alvarlegri, sem tímarnir eru erfiðari og horfurnar alt annað en glæsilegar fyrir land og lýð. Þegar ranglæti tímanna er í þann veginn að loka öllum sundum fyrir atvinnuvegum vorum, þá erum við að vinna að útgjöldum, sem ekki hefði þurft aukaþing til að ausa út, en vel hefðu mátt biða reglulegs löggjafarþings. Þetta er því verra, sem stjórnin gengur á undan með það að horfa ekki sjerlega mikið í skildinginn. Hún hefir sýnt það, bæði með þessari þingkvaðningu og öðrum fjármálaráðstöfunum, sem sumar hafa verið teknar til athugunar hjer áður.

Þeir verða ekki margir, sem taka undir það með hæstv. forsætisráðherra, að óforsvaranlegt hefði verið að fresta þingkvaðningu lengur en til 10. apríl, þó ýmsir kunni að verða til að halda lofræður hjer á þingi um þá ráðbreytni hennar. Það verður ekki mikill hluti þjóðarinnar, sem tekur í þann strenginn, að sjálfstæði landsins hefði á nokkurn hátt verið í veði, þótt þessi þingkvaðning hefði dregist fram á vorið, og landið verið firt stórkostlegum útgjöldum. En sama stjórnin, sem talar hæst um sjálfstæðismál landsins, sama stjórnin er sjálf að smíða hvern naglann á fætur öðrum í líkkistu fjárhagslegs sjálfstæðis þess. Hún er á leið með það til grafar. Mjer er engin tilhugsun óttalegri en að íslenskur sjálfstæðisfáni blakti yfir þeirri gröf.