16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

34. mál, úthlutun kornvöru og sykurs

Fyrirspyrjandi (Halldór Steinsson):

Það þýðir lítið fyrir mig og hæstv. atvinnumálaráðherra að þjarka um landsverslunina og grundvöll hennar; við verðum þar aldrei sammála.

Svar það, er hæstv. atvinnumálaráðh. bar fram við fyrirspurn minni, var hvorki betra nje verra en jeg bjóst við; jeg vissi, að hann mundi aldrei geta gefið fullnægjandi svar. Hæstv. atvinnumálaráðh. sagði, að aðflutningarnir væru af skornum skamti, að vörubirgðirnar væru litlar og að aðrar þjóðir hefðu kunnað því illa, ef við hefðum ekki haft seðlafyrirkomulagið.

Það er rjett, að aðflutningarnir voru af skornum skamti, og þá var rjett að setja á fót seðlafyrirkomulagið, ef einhver sparnaður hefði verið samfara því. En jeg hefi sýnt fram á það, að hjer er ekki um nokkurn sparnað að ræða, og því er reglugerðin órjettmæt. Það er öldungis óþarft að ætla, að aðrar þjóðir vilji, að við höfum seðla þessa; þær vita, hvað mikið við notum í „normal“ári, svo þær geta hæglega látið oss fá hið afskamtaða uppeldi, er við höfum þurft. Og það, hversu mikið við notum, getur ekki verið neitt launungarmál. Það hefir verið birt í blöðum landsins, og skýrslur hagstofunnar eru sendar til margra samskonar landsstofnana í öðrum löndum, og það geta því allir sjeð, hversu mikils við þurfum af þessum vörutegundum.