18.04.1918
Efri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

1. mál, ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Frv. þetta er stutt og sömuleiðis greinargerðin. Í henni er þó tekið fram, hvað fyrir stjórninni vakti með bráðabirgðalögum þeim, sem prentuð eru með frv.

Eins og kunnugt er, var útlitið alt ískyggilegt í haust og vetur með fóðurbirgðir landbænda. Hey voru lítil og slæm, en ýmiskonar fóðurbætir, síldarmjöl og fleira, hafði verið notað áður til skepnufóðurs og reynst vel.

Þótti því stjórninni vissara að leggja bann við sölu slíkra fóðurtegunda út úr landinu, sjerstaklega þegar jafnframt stóð svo á, að komið hafði kauptilboð frá Danmörku í síldarmjölið á Siglufirði.

Stjórnin keypti því allmikið af fóðurmjöli, til þess að geta haft vald yfir því og miðlað því til þeirra staða, þar sem þörfin reyndist mest, og standa nú yfir flutningar í því skyni.

Jeg vil svo leyfa mjer að óska þess, að málið fái að ganga til 2. umr., en vil um leið mælast til þess, að þeirri umr. verði frestað uns kosin hefir verið bjargráðanefnd sú, sem kjósa á samkvæmt till. þeirri, sem fram er komin.