31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nál. ber með sjer, leggur fjárhagsnefnd til að færa dýrtíðar- og gróðaskattinn niður eins og hjer segir:

1. Að skattur þessi verði ekki reiknaður af lægri tekjum en 50.000 kr., í stað 30.000, er stjórnin lagði til.

2. Að skatturinn hækki um ½ af hundraði á hverjum 5.000 kr., í stað 1.000 kr. í stjórnarfrv.

3. Að hámark skattsins sje 10 af hundraði, er legst á tekjur, er nema 100.000 kr. eða meiru, í stað 15 af hundraði af 50.000 kr. tekjum eða meiru, eins og ákveðið var í frumvarpi hæstv. stjórnar.

Ástæður nefndarinnar fyrir þessu eru einkum þær, að menn, er ekki hafa hærri tekjur en 30.000 kr. eða rúmlega það, leggja oft mikið í kostnað og veita mörgum mönnum atvinnu, en hins vegar tekjurnar ekki svo háar, að þær þoli gífurlegar álögur, auk hins háa skatts, sem nú þegar hvílir á þeim til landssjóðs og sveitar. Eftir breytingu þeirri á tekjuskattslögunum, er samþ. var á síðasta þingi, eiga menn að greiða í landssjóð 15 af hundraði af 30.000 kr. tekjum og þar yfir. Í fyrra þótti þetta hár skattur, svo hár, að eigi þótti þá fært að hafa hann hærri. Ástandið hefir að sönnu versnað síðan og sjerstaklega er hagur landssjóðs nú verri en þá, og það er líka einmitt þetta breytta ástand, sem veldur því, að fjárhagsnefnd vill nú ganga lengra en í fyrra, jafnvel þótt hún treysti sjer eigi til að ganga eins langt og frv. hæstv. stjórnar gerir. Það sýnist ekki lítið að borga undir eða um þriðjung allra tekna í skatt til landssjóðs og sveitar eða bæjar.

Auk þess er svo um ýmsa, t. d. útgerðarmenn, að þeir hætta oft allmiklu fje við atvinnurekstur sinn. Þeir græða stundum annað árið, en tapa svo jafnmiklu hitt árið. Er því álitamál, hvort hækka beri skattinn á þeim, og að minsta kosti sýnir þetta, að ástæða er til að vera varkár, ekki síst gagnvart þeim mönnum, sem veita mörgum atvinnu.

Samkvæmt þessu vil jeg mælast til, að þessi háttv. deild samþ. till. nefndarinnar.