01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla að fara að eins og hv. frsm. allsherjarnefndar (P. O.), að tala ekki langt mál, því jeg veit, að hann hefir orðið að stilla sig mikið, því hafa mun hann haft talsverða tilhneigingu til þess að ausa sjer út. Hvernig dagskráin er komin fram skil jeg ekki, en jeg hefði getað skilið hana, ef hún hefði komið fram áður en tvö málin næstu á undan voru afgreidd hjeðan. Þá hefði hún getað komið til mála, því jeg sje ekki, að frá hans (S. St.) sjónarmiði, eða eftir því sem hann hefir látið um mælt, sje neinn verulegur munur á þessu frv. og bæði till. og frv. um læknana. Það er því mjög undarlegt, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) skyldi ekki detta þessi leið í hug, áður en hin tvö málin voru afgreidd, svo að hann þá hefði getað reynt að hindra alt málið í heild. Aðalreglan í þessu máli er hin sama og í frv. um hækkun á föstum launum lækna, sem er sú, að breyta lagaákvæðum, sem gilda. Jeg tel það dálítið broslega ástæðu, hjá þessum sama hv. þm. (S. St.), að kenna stjórninni um alt, sem hann telur ver farið. Er það t. d. stjórninni að kenna, þó símamenn kvarti og hóti að segja af sjer, ef þeir fái ekki bætt kjör sín. Jeg býst ekki við, að neinn hafi ætlast til, að alment frv. um launabætur embættis- og sýslunarmanna hefði verið lagt fyrir þetta þing, en það hefði verið ósköp hægt að gera, jafnvel fyrir þingið í fyrra, en það þótti þá ekki rjett að gera það, sjerstaklega vegna þess, að peningaverð var talið mjög á reiki.

En annars held jeg það ekki rjett að telja það hindrun þessu máli, þó peningaverð hafi verið mjög á reiki og óákveðið, og að minsta kosti er það víst, að aðrar nágrannaþjóðir okkar hafa ekki látið það tálma rjettlátum endurbótum á kjörum embættismanna.

Í fyrra voru t. d. launalög samþykt í Noregi og launin hækkuð að mun frá því sem var. Jeg get vel játað, að það er dálítið óheppilegt, að málinu sje nú aftur vísað til nefndar, en þar sem nú hv. deild hefir ákveðið, að sama nefndin skuli fjalla um öll þessi mál, þá sje jeg ekki ástæðu til setja mig beint upp á móti því, að hún þá líka íhugi þetta frv. Annars finst mjer, að þetta mál hefði mátt ganga sína leið og hefði verið látið standa eða falla eitt út af fyrir sig, og jeg vona, að nefndin láti það líka standa eitt fyrir sig, hvernig sem því svo reiðir af í henni. Hitt sýnist mjer í sjálfu sjer ekki svo mjög óeðlilegt, að málið gangi nú til fjárveitinganefndar, þótt svo hafi farið í allsherjarnefnd, að hún hafi ekki getað fallist á þetta frv., því ef hún hefði fallist á að láta það ganga fram í einhverri mynd, þá hefði þurft að skjóta því til fjárveitinganefndar til þess að fá álit hennar.

Eins og þingsköpin eru nú, er ekkert á móti vegi, að málið komi til fjárveitinganefndar, ef menn vilja, að það komist fram í einhverri mynd. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir ekki athugað þessa breytingu á þingsköpunum, þegar hann var að mótmæla því, að málið kæmi í fjárveitinganefnd.

Jeg býst við því, að sú stjórn, sem býr mál undir næsta þing, verði fús á að athuga, hvort tiltækilegt verður að koma fram með alment launalagafrv. það fer að verða nauðsynlegt að gera það, þegar altaf er verið að breyta launakjörum opinberra starfsmanna. Nú á síðustu árum hefir verið breytt launakjörum við alla þá menn, sem ekki er beint lögákveðið hver laun skuli hafa. það er ekki til neins að tala um það, að ekki megi breyta launum einstakra flokka, þegar altaf er verið að breyta launum einhverra. Það breytir auðvitað engu, að þessu leyti, hvort veiting embættisins er konungleg eða ekki.