01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir tekið af mjer ómakið, því hann tók fram flest það, sem jeg hefði annars viljað athuga við málið. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir stungið upp á því, að fela málið annari nefnd en áður hefir um það fjallað, skjóta því frá hv. allsherjarnefnd, þar sem hann er formaður, til hv. fjárveitinganefndar. Í þessu liggur ómaklegt vantraust til allsherjarnefndar, og er það kynlegt að heyra úr þessari átt.

Jeg á, með tveim öðrum þm., brtt. á þgskj. 213, og ætlaði jeg að mæla með þeim. En af því að útlit er fyrir,að málið eigi lengri leið gegnum deildina, þá sleppi jeg því að tala nokkuð frekar en þessar brtt. Jeg hafði vænst þess, að till. þessar leiddu til samkomulags, og líkurnar voru þar talsvert miklar, hefðu eigi þessi óvæntu hausavíxl orðið á meðferð málsins. En nú er von á hæstarjettardómi fjárveitinganefndar, og ætla jeg að bíða með að mæla með brtt. þangað til hann er upp kveðinn.