01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (2359)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Sigurður Stefánsson:

Það getur verið mikið satt, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að rjettara hefði verið að dagskrá mín hefði komið í launamálinu, sem nú var til umræðu. En á þessum tímum eru svo margir vanhaldnir, að mjer finst rjett, að farið sje að búa undir, ekki sjerstök launalög, eins og frv., sem hjer liggur fyrir, heldur lög um laun allra embættismanna landsins, eins og launamálanefndin ætlaðist til. Mjer dettur í hug, en jeg skal játa, að jeg er ekki svo lögfróður, að jeg geti ábyrgst hvort það er rjett, að dagskráin geti gripið aftur fyrir sig, til frv., sem samþykt var hjer næst á undan, eða jafnvel til allra launamála, sem taka þarf til endurskoðunar. (E. A.: ] Það getur hún alls ekki). Jæja, það má vel vera, að mjer skjátlist í því efni.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að dagskrá mín kæmi í mótsögn við þá viðurkenningu, að launakjör þessara embættismanna þyrftu bráðra bóta við, þá skal jeg geta þess, að það var ætlun mín, að til bráðabirgða mætti bæta úr því með dýrtíðaruppbót. Þessa menn má einu gilda, hvernig það er gert, þegar, eins og hv. þm. (E. A.) gekk út frá, má búast við almennu launafrumvarpi á næsta þingi. Sú breyting, sem þá kann að verða gerð, kemur auðvitað jafnt niður á þessum embættismönnum og öðrum. Jeg vildi því, að hv. deild tæki til athugunar, hvort ekki mætti bæta úr brýnustu þörf, bæði þessara manna og annara, með dýrtíðarbót.

Ef dagskrá mín verður feld, get jeg ekki verið með frv. í neinni mynd, en mun þó hallast að því að reyna að bjargast við dýrtíðaruppbót fyrst um sinn.