01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Frsm. minni hl. (Einar Arnórsson):

Jeg held, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafi misskilið eitthvað það, sem jeg sagði áðan. Mín meining var ekki sú, að ef valin yrði sú leiðin, að hækka dýrtíðaruppbótina, að dagskráin útilokaði það. En jeg taldi líklegt, að hv. fjárveitinganefnd mundi vilja fara aðra leið, t. d. búa til bráðabirgðalaunalög. Hv. þm. (S. St.) var því að tala um alt annað en jeg. Ef jeg tala í austri, þá vil jeg ekki, að hann tali í vestri, og ef jeg tala um kynbætur hesta, þá er ekki til neins, að hann tali um snjó í Esjunni.

Ef hv. fjárveitinganefnd kemur fram með umbætur á launalögunum í heild sinni, þá vildi jeg ekki, að deildin útilokaði, að það yrði tekið til meðferðar. (S. St.: Það kemst aldrei í gegn). Það getur vel komist í gegn, því hv. þm. (S. St.) er ekki nema 26. hluti af deildinni. En ef hv. nefnd kynni að leggja það til, að gerðar yrðu bráðabirgðaumbætur á launalögunum, þá gæti deildin ekki tekið það til meðferðar, ef dagskráin yrði samþ., því í því frv. yrði samskonar ákvæði um laun yfirdómaranna og skrifstofustjóranna og vísað væri frá með dagskránni. Þetta var það, sem jeg vildi benda á, áður en leitað er atkv.