31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Gísli Sveinsson:

Eins og nefndarálitið og brtt. bera með sjer, gat nefndin ekki fallist á frv., eins og það lá fyrir. Nefndin var jafnvel í vafa um, hvort rjett væri að fara þessa leið og taka dýrtíðar-og gróðaskatt fram yfir það, sem samþykt var í fyrra.

Það var víst skoðun háttv. þm. á síðast þingi, að tekjuskattsaukinn, sem þá varð að lögum, væri svo stórfeldur, að ekki bæri að auka skattinn frekar að svo stöddu. Að vísu voru þau lög annars vegar komin fram vegna dýrtíðarinnar, en hins vegar vegna hins mikla gróða, er einstaka mönnum hefir hlotnast vegna styrjaldarinnar. Lögin voru því samkvæmt eðli sínu að eins bráðabirgðalög, þar til betra skipulagi yrði komið á tekjuskattslöggjöf landsins.

Eftir lögunum frá síðasta þingi er skatturinn yfrið hár, þegar tekjurnar fara hækkandi, í samanburði við það, er menn áttu að venjast áður. Það var sem sje kveðið á um í 2. gr. laganna,

– hana er meira um vert en 1. gr., er ræðir um skatt af tekjum af eignum,

– að tekjuskattsákvæðin frá 1877 skuli haldast, þar til skatturinn er orðinn 15 af hundraði, er greiðist af því, er tekjur nema yfir 29.000 kr. Það er fullvíst, að slíkur tekjuskattur til landssjóðs er nokkuð hár. Hann getur verið rjettmætur nú, en væri ef til vill ekki eins rjettlátur á eðlilegum tímum.

Þá er spurningin, hvort rjett sje að auka skattinn, tekjuskattinn, enn meir og kalla hann dýrtíðar- og gróðaskatt. Jeg er því heldur mótfallinn, en svo fer fyrir mjer sem fleirum, að illmögulegt er að mótmæla tekjuauka á þessum tímum, ef hans er ekki aflað með bláberri rangsleitni.

Stjórnarfrv. fer fram á, að leggja skuli 5% aukaskatt á tekjur, er nemi 30.000 kr. til 31.000. Skatturinn er þá allur orðinn 20 af hundraði eða fimtungur af tekjunum, er nema þessu, og meira af því, sem hærra er. Ef menn aðgæta nú, hver stefna þingsins hefir verið og hefir hlotið að vera í dýrtíðarmálunum, sem sje að krefjast þess, að sveitar- og bæjarfjelög berðust svo lengi við ástandið og óáranina, sem þeim væri kleift að standast, þá yrðu þeir, er eitthvað megna, að leggja svo mikið af mörkum til þess, sem þeim væri með nokkru móti unt. Gæti þessu þá verið beitt í Reykjavík og víðar þannig, að ósleitilega yrði lagt á efnamennina. Auk þess er nú á leiðinni í gegnum þingið frv. um tekjuskatt fyrir Reykjavík, er kveður á um, hve háan skatt menn skuli gjalda til bæjarins, sem líklegast eigi verður minni en tekjuskatturinn til landssjóðs.

Þannig yrði það, að af háum tekjum, 50 þús. kr. eða meiru, verða, ef miðað er við stjórnarfrv., tekin 15% í viðbót við þau 15%, sem gjalda á eftir núgildandi lögum. Með öðrum orðum, það verður 1/3 af tekjunum, er þar eru yfir, sem landssjóður einn tekur í slíkan skatt. Þar við bætist svo, að ef tekjuskattsfrv. fyrir Reykjavík yrði að lögum, þá yrði hjer í þessum bæ tekinn alt að helmingur af tekjum manna, er þær eru á háu stigi, í tekjuskatt einan, auk annara gjalda.

En það eru fleiri hliðar á málinu. Það má vel vera, að þessum gróðamönnum sje ekki vorkunn, og að það sje fyllilega rjettmætt að taka til almenningsþarfa helminginn af tekjum þeirra, eða kann ske 3/5 af þeim, er þær eru mjög háar. En þá er þetta ekki skattur, heldur hrein og bein upptaka (konfiskation) í stríðsþarfir, eins og látin er fram fara í öðrum löndum, þó eigi nema í sjálfum stríðslöndunum. En þá er eftir að vita, hvort við getum staðið okkur við það, með ekki fleiri eða öflugri hátekjumönnum, að gera upptækar eigur manna. En hin hliðin er sú, að ef fara á að pressa menn og sjúga til skatta, eins og farið er fram á í frv. stjórnarinnar, — sem jeg vil kalla mjög ósanngjarnt —, þá er spurning, hvort það sje trygt, að það náist, sem að er stefnt, eða hvort þetta gæti ekki orðið meðal til þess, að menn gefi ekki tekjur sínar upp, og því náist ekki það framtal, sem stjórnarfrv. tiltekur og byggir á, og skatturinn verði þar af leiðandi miklu minni. Svo er og þess að gæta, að þótt öll kurl komi til grafar, þá er það eins og stendur og verður framvegis röng aðferð að sjúga menn út, og þá ekki síður efnamennina, því að það er vitanlegt, að hvarvetna þar, sem framkvæmdir eru í landi, þá eru eignamennirnir til þrifa og styrktar, yfirleitt tekið. Peningar þeirra liggja ekki í kistuhandraðanum lengur, heldur eru á ferð og flugi manna á meðal, standa í fyrirtækjum, sem veita mörgum mönnum atvinnu og landinu tekjur, og horfa til framfara á marga lund. Slík skattalöggjöf sem þessi gæti orðið til þess að stemma stigu fyrir eðlilegri og nauðsynlegri þróun í landinu. Þetta frv. hefir því eða getur haft svo mikið í för með sjer af því, sem kalla má hið illa, að fullan varhug verður við því að gjalda.

Nefndin hefir því komið með till. til breytinga á frv. Þær milda frv. nokkuð, en þó þykja mjer þær enn helst til harðvítugar. Samt hefi jeg ekki gert ágreining, eða viljað kljúfa mig út úr, og mun greiða þeim atkvæði og þá eftir atvikum frv. með þeim breytingum.

Í viðbót vil jeg láta þess getið, að í frv. stjórnarinnar er ákveðið, að skatturinn skuli í fyrsta sinni heimtur inn á manntalsþingum 1919, af tekjum ársins 1917. Það var nefndin ekki óánægð með og var þar í samræmi við stefnu sína í fyrra, þá er hún vildi, að gróðaskattur eða tekjuskattsaukinn væri tekinn af tekjum ársins 1916. Ljet hún þetta ákvæði því standa, þótt vera kunni, að það falli ekki í smekk háttv. efri deildar.

Menn muna, að í fyrra þótti það ýmsum óviðeigandi að fara þannig aftur fyrir sig, og var það ákvæði því felt í Ed. á síðasta þingi úr tekjuskattsfrv. En það hefir verið óbætanlegt tjón að sleppa árinu 1916, og verður það aldrei þingmönnum til heiðurs, heldur vanvirðu, eins og sakir stóðu. Menn töluðu þá um, að slíkt ákvæði ætti ekki við í skattalöggjöf. En nú hefir stjórnin ekki lagt þá reglu, er þessir hv. þm hömpuðu, til grundvallar; og það tel jeg rjett, því að sú regla er alls ekki algild. Það var sjálfsagt að leggja á eitthvað af þeim gróða, sem kominn var. Mönnum þótti það eftir dúk og disk í fyrra, ef ákvæðin næðu ekki til ársins 1916, einhvers mesta gróðaársins, og svo gætu sömu menn og sagt um þetta. En nefndinni hefir ekki þótt hlýða að breyta til um þetta, og vill hún nú láta þessa þingmenn um samræmið milli gerða sinna í fyrra og nú.