31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Einar Arnórsson:

Það mun þykja óviðfeldið og óviðeigandi að mæla á móti frv. þessu og brtt. nefndarinnar, og verður sjálfsagt skoðað sem vörn fyrir „kapitalistana“ eða auðkýfingana. En jeg er ekki svo mjög hræddur við það, sem menn kunna að segja, eða hverjar hvatir þeir telja liggja til grundvallar því, sem jeg eða aðrir segja eða gera. Mun jeg því tala um frv. og brtt. eins og það á skilið frá minu sjónarmiði.

Það er vitanlega rjett hjá hæstv. fjármálaráðherra, að stefna frv. og brtt. er mjög hin sama. Það sje í raun og veru fjarri mjer að neita því, að þeir, sem meira hafi, eigi að miðla af því og leggja drýgri skerf til þeirra útgjalda, er leiða af núverandi vandræðaástandi, en hinir, sem tapa á stríðsástandinu. Það er langt frá því, að jeg vilji bera þá, sem hafa háar tekjur, undan því að borga af gróða sínum. En hjer koma fleiri atriði til álita en það eitt, að skattur sje lagður á menn til landssjóðs.

Um þetta mál er það þá fyrst að segja, að það er bagalega seint fram borið. Það hefði verið rjett að taka þessa leið upp miklu fyr og helst þegar á þingi 1915. Mig minnir, að þá hafi komið fram frv. í líka átt frá háttv. þm. Dala. (B. J.), sem var hinn sami þá og nú. En þá vildu menn ekki líta við slíkum skatti. Það kann nú að hafa verið hugsun manna þá, að ekki myndi taka því að leggja á skatt, því að þá mun sú hugsun hafa legið í loftinu, að styrjöldin myndi standa skamma hríð. Það getur verið. En síðan 1915 hafa verið háð 2 þing og þetta hið þriðja, aukaþingið 1916—17, reglulegt þing 1917 og nú þetta aukaþing 1918. Á aukaþinginu 1916—17 man jeg ekki, hvort nokkuð kom fram í þessa átt, en á þinginu 1917 kom hjer fram í Nd. og var samþ. frv. frá fjárhagsnefnd neðri deildar um aukinn skatt af gróðamönnum. Eru það víst þau lög, sem heimta á eftir skatt af árinu 1917, í fyrsta sinni á manntalsþingum 1919. Nú hygg jeg, að á þingi í fyrra hafi menn hugsað sjer að fara eins langt í þessu efni og unt væri.

En í þessu máli er annars að gæta, sem miklu máli skiftir, og það er það, að aðalstyrjaldargróðinn er nú farinn hjá. Hann var fyrstu árin af stríðstímanum, 1914—15, allmikill og kom töluvert jafnt niður, og 1916 líka að nokkru leyti. En aðalgróðinn á því tímabili mun þó hafa fallið í skaut sjávarútvegsmönnum og kaupmönnum. En nú er svo komið, því miður, að útlitið er ekki glæsilegt eða von um, að mikill gróði muni falla til útgerðarmanna þessi ár, og líklega, því miður, ekki það sem eftir er af þessu stríði. Meira að segja er nú svo komið, að útlit er fyrir, að margir tapi töluverðu af því, sem þeir hafa grætt. Í fyrsta lagi geta þeir tapað af því, að þeir haldi áfram útgerðinni og kjörin sjeu svo slæm, að útgerðin borgi sig ekki eða þeir tapi á henni. Jeg býst við, að gera megi ráð fyrir því, að svo kunni að fara. En setjum nú svo, að þeir verði ekki fyrir því skakkafalli, en segjum, að þeir verði að draga inn seglin og hætta útveginum. Það er þá bæði tap fyrir þá og alla, er þeir veita atvinnu, og auk þess rentutap af þeim höfuðstóli, er liggur dauður í skipunum, fiskgeymsluhúsum, löndum, sem búin eru út sem stakkstæði, bryggjum og öðrum áhöldum. Nú má gera ráð fyrir, að þessir menn hafi grætt meira eða minna, yfirleitt allmikið, á þeim góðu árum, sem hjá liðin eru. En þessi lög ná ekki til þess gróða nema að litlu leyti, eða einungis til ársins 1917. Lengra hefir væntanlega ekki verið hægt að fara aftur í tímann.

En nú kynni að vera spurt, hvort það sje sæmilegt landsstjórn og löggjafarvaldi að seilast svo langt aftur fyrir sig, og ef til vill til manna, er ekki mega nú við því Þessari spurningu má hreyfa. Án þess að jeg vilji mæla þá undan, er best geta, að leggja sinn hæfilega skerf til alþjóðarhagsmuna, þá vil jeg, að þess sje gætt, að margar af þeim atvinnugreinum, er skatturinn legst á, eru stórkostleg áhættufyrirtæki. Það getur sem sje vel hugsast, að einn útgerðarmaður græði stórfje eitt árið, og þá heldur hann áfram, en næsta árið getur hann orðið svo óheppinn, að tapa t. d. í einni útferð botnvörpungs, ekki svo tugum þúsunda króna skiftir, heldur jafnvel hundruðum þúsunda. Væri um áhættulausa og staðfasta atvinnugrein að ræða, væri alt öðru máli að gegna. Þetta á sjerstaklega við sjávarútveginn, en jeg skal játa, að þessi athugasemd á ekki við alla, er háar tekjur hafa. En nú er samt svo komið um þá kaupmenn, er grætt hafa, að við því er búið, að skorbíldar nokkrir gangi í fje þeirra. Jeg get t. d. hugsað mjer, að takmörkuð yrði notkun skipa, þannig, að þótt vörur fengjust keyptar erlendis, yrði ekki hægt að flytja þær. Og mjer dettur ekki í hug að neita því, að það gæti verið fyllilega rjettmætt, að stjórnin takmarkaði flutninga á þeim skipum, er hún ræður, er um óþarfar vörur væri að tefla, svo sem gull- og silfurvörur og ýmislegt glingur, sem arðvænlegt er kaupmanninum að selja, en ekki getur talist til nauðsynjavara. Margir kaupmenn myndu þá missa spón úr aski sínum, er þess háttar vörur, sem bestan gefa ágóðann, yrðu látnar sitja á hakanum fyrir nauðsynjavörum, svo að búast má við, að allmargir kaupmenn gangi frá af þessum ástæðum.

Þá býst jeg og við, að ein tegund stórgróðamanna, sem menn nefna umboðssalana, gangi frá að mestu það sem eftir er af stríðinu. Jeg býst við, að stjórnin taki mestalla verslun í sínar hendur, og þá fá þessir menn ekki leyfi til að flytja vörur til landsins nema í gegnum stjórnina. Og þar af leiðir, að um gróða þeirra manna verður væntanlega ekki slíkan að tefla sem áður.

Það mætti nú segja, að þessar athugasemdir mínar sjeu ekki mótbárur móti frv., því að segja má, að ef þær sjeu rjettar, þá verði afleiðingin sú, að þessir menn gangi undan skattinum, og landið fái ekkert frá þeim. Og þetta væri líka rjett athugasemd, en afleiðingin af henni væri sú, að þá væri rjóminn fleyttur ofan af frv., og þeir orðnir fjarska fáir, sem skattskyldir yrðu eftir frv. Landssjóður fengi þá hverfandi lítinn skatt eftir því, og varla tilvinnandi fyrir hann að seilast eftir þessum sárfáu mönnum.

En svo var annað atriði, sem jeg vildi minnast á, þótt áður hafi verið um það talað, og það er skattaálögurjettur sveitarfjelaganna. Sú stefna hefir verið ríkjandi hjer, og jeg vil ekki segja að hún sje röng, að sveitarfjelögin eigi að sjá fyrir sjer sjálf í lengstu lög. Það getur vel verið rjett. En eigi sveitarfjelögin að geta bjargað sjer, verða þau að hafa einhverja skattstofna til að leggja á. Aðaltekjulind þeirra er, sem kunnugt er, aukaútsvörin, sem jafnað er niður að lögum eftir efnum og ástæðum.

Um niðurjöfnunarnefndir er það að segja, að það er ekki mikil takmörkun á því, hve djúpt þær geta smeygt hendinni niður í vasa borgaranna, og það er gefinn hlutur, að þær verða að gera það ósleitilega á komandi ári, og það er ekki heldur erfitt að sjá, hvert þær muni snúa sjer. Það er auðvitað, að þær verða að leggja á þá fáu menn í hverjum stað, sem efnaðir eru og eitthvað hafa grætt. En með því að landssjóður hraðar sjer nú að taka gróða þessara fáu manna til sín, get jeg ekki betur sjeð en að það sje að minka möguleika sveitar- og bæjarfjelaganna til þess að geta bjargað sjer sjálf, því að þá verða niðurjöfnunarnefndirnar að taka til greina þann aukaskatt, sem þessir menn eiga að greiða til landssjóðs, og það væri þá ekki forsvaranlegt af niðurjöfnunarnefndunum að leggja á þessa menn nokkur hærri gjöld til síns sveitar- eða bæjarfjelags. Jeg hefi, því miður, ekki getað komið því við, tímans vegna, að reikna út nákvæmlega, hvernig þessi lög myndu verka, reikna út skattinn, en mjer skilst þó, að maður, sem hefði 30.000 krónur í tekjur, búsettur hjer í Reykjavík, ætti eftir gildandi tekjuskattslögum að borga 15% af 29.000 krónum; það getur að vísu ekki náð alveg svo miklu, vegna þess, að skattastiginn er ekki 15% frá byrjun. (Fjármálaráðherra: Það er víst 2.300 krónur). Já, það er eitthvað á milli 2.000 og 3.000 krónur, býst jeg við. Svo á hann, eftir frv. stjórnarinnar, að borga 5% af 30.000 krónum. Það verða 1.500 krónur. Hann á þá að borga í landssjóð tæp 4.000 krónur í alt. (Fjármálaráðherra: Nei, nei). Jú, ef hann borgar fyrst 15% af 29.000 krónum og svo 5% af 30.000 krónum að auki. (Fjármálaráðherra: Þetta er misskilningur). Jeg er að tala um, hvernig það væri eftir frv. stjórnarinnar; þar stendur „af tekjum frá og með 30.000 krónum“, 30.000 krónur því taldar með; það stendur svart á hvítu í frv. stjórnarinnar, og það strax í 1. gr.: „Þeir, sem hafa í árstekjur. 30.000 kr. eða meira“ o. s. frv.; svo stendur það síðar í sömu gr., þar sem tekjuupphæðirnar eru nefndar, svo að það getur hver maður sjeð, sem augu hefir til að lesa og skynsemi til að skilja. Þá verður tekjuskatturinn í landssjóð eitthvað upp undir 4.000 kr., og svo mikill tekjuskattur til bæjarins, ef miðað er við Reykjavík. (Fjármálaráðherra: Þetta er misskilningur). Nú, ef ekki á að skilja tekjuskattsfrv. eins og orð liggja til, þá væri best fyrir hæstv. stjórn að vera ekki að semja slík lög; jeg þori að leggja það undir hvern einasta dómstól, sem íslenskt mál skilur, að það mundi dæmt, að jeg skildi þau rjett. Jeg var að reikna út eftir frv. stjórnarinnar, hvað maður með þessum tekjum þyrfti að greiða í landssjóð, og er þá kominn að því, hvað hann yrði að gjalda til bæjarins. Ef bæjargjaldafrv. Reykjavíkur gengur fram, eins og allsherjarnefnd skilur við það, ætti hann að gjalda 10% til bæjarins; það verða 3.000 krónur. Hann ætti þá að borga upp undir 7.000 krónur alls. Ef stjórnin vill nú skilja sitt frv. einhvern veginn öðruvísi, þá hefði hún virkilega átt að orða það í samræmi við, hvernig hún vildi láta skilja það; nefndin hefir þar á móti breytt orðalaginu í sinni till., ekki notað orðin „frá og með“, heldur „af tekjum frá“. (Fjármálaráðherra: Jeg skal sýna háttv. 2. þm. Árn. (E A), hvernig á að skilja þetta). Þá ætti hæstv. fjármálaráðherra að strika út orðin „og með“, því að jeg þykist hafa eins mikla æfingu í að útskýra mælt mál í lögum eins og hæstv. fjármálaráðherra, og jeg hefði gaman af að sjá þann lögfræðing, sem skildi þetta öðruvísi. Mjer finst líka, eftir brtt. háttv. nefndar á þgskj. 237, að hún skilji þetta á nákvæmlega sama hátt og jeg, og jeg býst ekki við, að hæstv. fjármálaráðherra álíti, að hún hafi vilja til að skýra rangt frv. stjórnarinnar.

Þá má benda á, að í till. háttv. nefndar er einmitt allmikill munur á útfærslunni. Þar er að vísu sama gjald í landssjóð af 30.000 krónum, og til bæjarlegt að koma með svona frv. á þeim tíma, sem háttv. þm. (E. A.) var ráðherra; þá hefði líka aldrei þurft að láta slík lög verka aftur fyrir sig. Jeg álít það einmitt mjög óheppilegt, að fyrri stjórnir skyldu ekki koma með frv. eins og þetta. Háttv. þm. (E. A.) tók fram í sambandi við þetta, að aðalstyrjaldargróðinn væri nú farinn hjá. Það er mikið rjett í þessu, og vitanlega er það einkum árið 1916, sem þingið í fyrra slepti undan skattinum, en jeg get þó ekki sjeð, að þetta sje í sjálfu sjer nein veruleg mótbára gegn frv., ef ástæða þykir til að skattleggja gróða, sem kom á árinu 1917, og jeg skil ekki, að gróði á því ári sje rjetthelgari en á hverju öðru ári, svo að þetta geti verið nokkur gild mótmæli gegn frv., heldur væru þau að eins til þess að sýna fram á, að lítið kæmi í landssjóð með þessum skatti, en ef svo lítið yrði um gróða á árinu 1917, þá finst mjer ekki ástæða til að gera þessa háværu mótstöðu gegn frv., því að þá gerir það ekkert til meins, ef það kemur hvergi við. En jeg er viss um, að á árinu 1917 hefir fallið stórgróði, svo að tugum eða hundruðum þúsunda skiftir, til einstakra manna á þessu landi.

Háttv. þm. (E. A.) mintist aðallega á tvo flokka manna, sem þessi skattur mundi falla á, og færði ástæður fyrir því að draga þá báða undan skattinum. Fyrsti flokkurinn voru útgerðarmennirnir, og þar benti háttv. þm. (E. A.) á þá miklu áhættu, sem væri samfara þeim atvinnuvegi. Þetta sama tók jeg fram í fyrstu ræðu minni, og að þess vegna væri ekki eins mikil ástæða til þess að láta þunga skatta skella á þeim eins og áður, þegar vissa var fyrir, að þeir græddu; en þegar litið er á þessa menn í samanburði við aðra borgara, sem við erfið kjör eiga að búa, þá verða menn að kannast við, að þótt töluverð áhætta sje fólgin í atvinnuvegi þeirra, þá sje engu að síður sjálfsagt að skattleggja þá, og það því frekar, sem vitanlegt er, að útgerðarmenn hjer á landi eru eftir þessi stríðsár orðnir mjög rótgrónir og hafa mikla krafta til að mæta þeim erfiðleikum, sem nú eru.

Jeg man eftir því, að þegar talað var um að skattleggja gróða þessara manna fyrir árið 1916, var því borið við, að það mætti ekki gera vegna þess mikla taps, sem þeir gætu beðið á árinu 1917, en sú ástæða er nú fallin. Jeg hygg, að það hafi verið alveg rjett stefna hjá þeim mönnum, sem vildu skattleggja hið mesta gróðaár á Íslandi, árið 1916, en háttv. þm. muna ef til vill eftir því, með hve miklum eldmóði var barist á móti því, og einni ástæðu var tjaldað fram, að lögin væru látin verka aftur fyrir sig.

Ef háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefði gripið tækifærið til þess að skattleggja gróðann á árinu 1916, þegar hann var ráðherra 1915, þá hefði verið hægt að ná í gróðann án þess að láta lögin verka aftur fyrir sig. En það tjáir ekki að vera að tala um þá viðsýni, sem ekki var til. Nú er það viðurkent af mjer og öðrum, að það er mjög erfitt að finna leiðir til þess að ná þeim sköttum, sem nauðsynlega þarf að fá. Þess vegna, þegar um það er að velja að fara dýpra í vasa þeirra manna, sem fátækir eru hjer á landi, eða að seilast meir í vasa hinna ríku, þó að það sje gert fyrir undanfarið ár, skil jeg ekki annað en að það verði viðurkent rjettara að seilast þannig aftur fyrir sig til stórgróðamannanna heldur en að vera altaf að seilast dýpra og dýpra niður í vasa fátæklinganna.

Það er nú ekki heldur svo, ef skatturinn er lagður á eftir frv. stjórnarinnar, að maður, sem hefir 100.000 krónur í tekjur, verði neitt nálægt því að verða öreigi; það er mjög mikill misskilningur ef menn halda það, því að hann á þá að eiga eftir í hreinar tekjur h. u. b. 77.000 krónur, þegar hann hefir borgað skattinn, Jeg get nú ekki skilið, að almenningur hjer á landi að minsta kosti mundi líta svo á, að sá maður væri mjög nauðulega staddur, sem ætti slíka upphæð eftir, þegar hann hefði borgað skattinn, og maður, sem hefði 200.000 krónur í tekjur, ætti eftir h. u. b. 147.000 krónur. Jeg held, að menn, bæði hærri og lægri, mundu líta svo á, að hann væri ekki mjög nauðulega staddur, og að þeir yrðu ekki mjög margir, sem kendu í brjósti um hann af þessum orsökum, og það jafnvel þótt hann gyldi auk þessa einhvern skatt til sveitarfjelagsins.

Þá vildi háttv. þm. (E. A.) helst undanþiggja kaupmenn og stórsala dýrtíðarskatti, af því að þeir mundu eiga erfiðara hjer eftir en hingað til að flytja að sjer vörutegundir þær, er gefa þeim drýgstan arð, sem sje álnavöru og allskonar glysvarning. Jeg býst nú að vísu við, að landsstjórnin muni hafa gát á því, að skip hennar flytji ekki óþarfavarning til landsins, svo að gera má ráð fyrir, að gróði þessara manna rýrni við það. En að hinu leytinu ber að líta á það, að menn þessir hafa nú þegar grætt of fjár á slíkum vörutegundum, og þeir mundu græða framvegis, þó að aðflutningar yrðu bannaðir. Jeg hygg því, að mönnum þessum sje ekki neinn órjettur ger, þó að skatturinn sje látinn ná til þeirra, jafnvel þótt gera mætti ráð fyrir, að minna flyttist framvegis af glysvarningi til landsins.

En um stórsalana er það að segja, að við má búast, að velta þeirra verði minni þetta ár en að undanförnu. En jeg hygg, að allir verði sammála utn það, að þeir hafi nú grætt stórfje, ef til vill mest af öllum atvinnurekendum þessa lands. Þeim er því engin vorkunn. Og yfirleitt á jeg bágt með skilja þessa vorkunnsemi háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) og álít, að hún geti ekki náð nokkurri átt, eins og nú er ástatt. Fjárveitinganefndin komst að sömu niðurstöðu og stjórnin, að nauðsyn bæri til þess að að útvega landssjóði auknar tekjur, og að þessum tekjum skyldi meðal annars náð með dýrtíðarskatti; og sannast að segja skil jeg ekki, að menn skuli ekki geta orðið algerlega sammála um það, að þennan skatt beri að leggja á þá menn, sem mest hafa grætt á ófriðnum og dýrtíðinni. Þetta ætti hverjum þm. að vera svo auðsætt mál, að ekki þyrfti um að þrátta hjer á Alþingi.

Háttv. sami þm. (E. A.) vildi skilja frv. stjórnarinnar á annan veg en hún hafði skilið það. Ætlun hennar var alls ekki að skattskylda menn, sem hefðu lægri tekjur en 30 þús. kr., heldur að eins hina, er tekjur hefðu fyrir ofan þetta mark (E. A.: Það sagði jeg ekki heldur, en það þarf að breyta orðalaginu). Ef orðið „með“ getur orkað tvímælis, mun stjórnin ekki hafa neitt á móti því, að það sje felt burt. En jeg hefi bæði nú og við 1. umr. málsins sýnt fram á, hvernig stjórnin skilur þetta atriði og hvernig hún ætlast til að skatturinn verði lagður á. Stjórninni datt ekki í hug að auka skattinn frá því, sem hann var ákveðinn í gildandi lögum, á þeim mönnum, sem befðu lægri tekjur en 30 þús. kr. En úr því að þessi ágreiningur hefir á orðið, tel jeg sjálfsagt, að breytt verði orðalaginu, til þess að taka af allan vafa, og mun Ed. verða til þess að gera þá breytingu, ef frv. verður samþ. hjer óbreytt.

Loks skal jeg geta þess, að þótt jeg óskaði helst, að frv. yrði samþ. óbreytt, eins og það kom frá stjórninni, þá tel jeg þó bót í því, að það nái samþykki með breytingum nefndarinnar, því að þótt hlutskifti landssjóðs yrði minna, ef brtt. nefndarinnar næðu fram að ganga, er jeg ekki í vafa um það, að honum mundi áskotnast allálitlegur tekjuauki Samt sem áður. Frv. og brtt. nefndarinnar fara í sömu átt, aðhyllast sömu grundvallarregluna, en greinir að eins á um það, hvort skattskylda skuli 30—50 þús. kr. tekjur.