31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Gísli Sveinsson:

Þótt jeg hafi gert áður grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, vil jeg samt skýra hana dálítið nánar og jafnframt rekja að litlu þau atriði málsins, sem orðið hafa sjerstaklega að umtalsefni.

Mjer blandast ekki hugur um það, að orðalagið á 1. gr. stjórnarfrv. mundi verða skilið á sama veg sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir skilið það og skýrt. En þetta atriði ætti samt ekki að verða að sundurþykkjuefni. Fjárhagsnefndin hefir nú breytt orðalaginu og sýnir það, að hún hefir skilið greinina eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.).

Jeg sagði, að allmiklar breytingar væru gerðar á frv. stjórnarinnar, ef brtt. nefndarinnar næðu fram að ganga. En auðvitað er þar ekki um stefnubreytingu að ræða; ef svo væri, hefði nefndin hlotið að leggjast á móti frv. í heild sinni; enda gat slík breyting ekki komið til mála, úr því að nefndin vildi á annað borð fara tekjuskattsleiðina, því að stefnan er altaf eins í slíkum skattskyldufrv., sem sje sú, að leggja ákveðinn skatt á með því að taka ákveðið af hverju hundraði. En jeg býst við, að háttv. deild átti sig samt á því, að breytingar nefndarinnar á frv. stjórnarinnar eru allmiklar.

Í fyrsta lagi hefir stjórnin lagt það til, að 5% skattur skuli lagður á 30 þús. kr. tekjur, en nefndin vill ekki skattskylda lægri tekjur en 50 þús. kr. Þetta er afarmikil breyting.

Í öðru lagi vill stjórnin auka skattinn um ½% á þúsundi hverju, uns hann er orðinn 15 af hundraði, en nefndin af hverjum 5.000, uns hann er orðinn 10 af hundraði. Hjer er um stórbreytingu að ræða.

Hæstv. fjármálaráðherra lagði mikla áherslu á það, að brtt. nefndarinnar sýndu stórgróðamönnum vorkunnsemi. Jeg hygg, að engin ástæða sje til slíkra ummæla. Nefndin ætlaðist alls ekki til þess, að stórgróðamenn væru undanþegnir skatti, heldur voru rökin til þessarar breytingar öll önnur. Jeg vil biðja hæstv. fjármálaráðherra að athuga, hvort hann hyggur, að skattur þessi komi í raun rjettri að eins niður á stórgróðamönnum. Ætlar hann, að skattur, sem lagður er á kaupmenn, komi ekki niður á öllum viðskiftamönnum þeirra? Á hinn bóginn mundu nokkrir falla undir skatt þennan, sem yrðu ef til vill að gjalda af eignum gróða sínum, t. d. útgerðarmenn. En t. d. þeir, sem bröskuðu með fisk, mundu láta skattinn koma niður á fiskverðinu og kaupgjaldi. Því fer fjarri, að hægt sje að ganga að því vísu, að stórgróðamenn beri þennan skatt, þó að hann sje af þeim tekinn að nafninu til. En þar verður auðvitað að taka skattinn, sem fjeð er fyrir. En reyndar þykir stórgróðamönnum eigi rjettlátt að verða fyrir strangri skattalöggjöf. Þeir eiga margs að gæta. Þeir þurfa að reka atvinnu sína, til þess að geta haldið pyngju sinni fullri. En þá dettur maður um þá spurningu, hvort þessi atvinnurekstur svari kostnaði á þessum tímum. Það getur verið vafasamt, og því hefir nefndin kosið að fara þennan meðalveg. En ef brtt. nefndarinnar ná ekki fram að ganga, mun hún, býst jeg við, greiða atkvæði móti stjórnarfrumvarpinu.

Það hefði verið æskilegast, að stjórnin hefði sjeð sjer fært og talið sjer skylt, eins og stjórnir annara landa álíta skyldu sína, að gera sjer grein fyrir hversu mikilla tekna frv. mundi afla landssjóði.

Jeg býst reyndar við, að stjórnin þykist geta haft sjer það til afsökunar, að hún hefði ekki haft fyrir sjer skattskrár frá 1917. En þar til er aftur því að svara, að skattur þessi kemur einkum niður á Reykjavík, en þar sitja ýmsar nefndir að störfum, t. d. niðurjöfnunarnefnd, sem hafa slík gögn handa millum, og hefði stjórninni átt að vera innan handar að notfæra sjer þau til leiðbeiningar. En þetta hefir hún ekki gert, og er það bagalegt, því að fyrir bragðið renna þm. blint í sjóinn um tekjuaukann. Hæstv. fjármálaráðherra skildist mjer að legði mesta áherslu á 100 þús. kr. tekjur og þar yfir og reiknaði þar af, hversu tekjuaukinn í procentum mundi nema miklu. Í þessu gæti verið vit, ef þingmenn vissu um einhverja, sem hefðu slíkar tekjur. En þegar farið er niður að 30 þús., er ekki hægt að miða við 100 þús. einvörðungu. En jeg veit ekki, hverjir hafa þessar miklu tekjur. Ef til vill einhverjir fáir stórsalar. En jeg er efins í því, að útgerðarmenn beri slíkan gróða frá borði. En jeg hefi heyrt um 3 eða 4 menn hjer í bæ, sem grætt hafa alleinkennilega, jafnvel svo að hundrað þúsundum skiftir. Það er sem sje kunnugt, að nokkrir útgerðarfrömuðir höfðu trygt sjer smíðar á skipum hjá erlendum skipasmíðastöðvum. En nú hefir verið svo mikið kapp um það að fá smiðuð skip, að menn hafa selt skipasmíðarjett sinn, svo nefnt „númer“ sitt þar, fyrir stórfje, jafnvel hundruð þúsunda. Þetta er auðvitað frábærlegur gróði. En hversu margir eru menn þessir hjer á landi? Þeir eru að eins örfáir, 2 eða 3 eða svo. Og ef ætti að taka skattinn einungis af þeim, mætti gera það með öðru móti. Það væri meira að segja auðvelt að gera þennan gróða þeirra upptækan að einhverju leyti, ef það þætti hlýða. Og ef frv. er fram kornið vegna þessara fáu manna, ætti ekki að skattskylda aðra en þá, sem hafa 100 þús. kr. tekjur eða þar yfir, en halda sjer að öðru leyti við þann tekjuskattsauka, sem samþ. var á síðasta þingi.