18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg finn ástæðu til að þakka háttv. nefnd fyrir það, hvernig hún hefir tekið í þetta mál. Brtt., sem hún ber fram, ganga í líka átt og stjórnarfrv. í sinni upprunalegu mynd. Það er kunnugt, að stjórnin ætlaðist til, að gróðaskatturinn kæmi fram á tekjum, sem næmu 30 þús. og þar yfir, og færi vaxandi upp að 50 þús. Þá næmi hann 15% væri það goldið af 50 þús. kr. árstekjum og þeim, sem fram úr því færu. Jeg hefi ekki komið með brtt., sem færðu frv. í samt lag, því að þótt þær hefðu náð samþykki hjer, efast jeg um, að þær hefðu náð fram að ganga í háttv. neðri deild. Hins vegar eru brtt. nefndarinnar svo sanngjarnar, að jeg get ímyndað mjer, að háttv. neðri deild fallist á þær. Jeg verð að leggja áherslu á, að þessi millileið verði farin. Á sviðinu frá 35 þúsund til 50 þúsund eru svo margir gjaldendur, svo að þótt þessi skattur sje ekki hár, þá munar landssjóðinn samt um hann. Skatturinn af fyrstu 5 þús.,35—40 þús. kr. tekjum, er 175 kr.,af næstu fimm þús. 200 kr. og af þriðju fimm þús. 225 kr., en að öðru leyti er frv. eins og það kom frá háttv. neðri deild.

Það hefir verið fært sem mótbara a móti frv. í neðri deild og hjer, að skatturinn kæmi hart niður á útgerðarmönnum. Jeg skal ekki neita því, að svo gæti orðið, að skatturinn kæmi hart niður á þeim, sem yrðu nú fyrir stóróhöppum. Og atvinna útgerðarmanna er rekin oft og tíðum með áhættu, en hins vegar aukin framleiðsla lyftistöng fyrir landið. En þrátt fyrir það, þótt skatturinn kæmi illa niður á einhverjum undantekningum, þá verður ekki hjá því sneitt, en hins vegar eru margir af útgerðarmönnum orðnir svo rótgrónir frá fyrri árunum, að þeir þola þennan skatt, þótt ekki gangi alt sem best nú. Um hitt getur hins vegar ekki verið vafi, að kaupmennirnir, og sjerstaklega stórkaupmennirnir, eru allra manna færastir til að taka á móti skattinum, því að atvinna þeirra hefir verið rekin mjög áhættulítið síðan stríðið byrjaði, og sú stjett hefir enga sjerstaka ástæðu til að kvarta yfir stríðinu.

Það hefir verið sagt, að jeg hafi borið fram frv. af því, að mjer sje í nöp við kaupmannastjettina. En því fer fjarri að svo sje. Það er ekki af neinum illvilja, heldur hreint og beint af rjettlætistilfinningu, að jeg vil leggja skatt á þá stjett. Kaupmannagróðinn, og þá sjerstaklega stórkaupmannagróðinn, hefir verið svo stórkostlega mikill í seinni tíð og áhættan lítil eða engin. Því liggur það í hlutarins eðli, að ómögulegt er að finna rjettlátari tekjustofn en þennan, fyrst landssjóður hefir mikla þörf fyrir tekjuauka.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði um, að betra væri að sleppa tveim ranglátum en hengja einn rjettlátan. Jeg er honum alveg sammála um það. En jeg er hræddur um, að það verði að hengja svo marga rjettláta, ef slept er að leggja skatt á stórgróðann. Þegar gengið er fram hjá honum, eru að eins hinir eftir, sem minst mega sín. Hjer er því um tvent að velja, annaðhvort að leggja á þá, sem hafa grætt á stríðinu, eða hina, sem hafa tapað á stríðinu. Sama orsökin liggur til gróðans og tapsins. Því fæ jeg ekki betur sjeð en að það sje rjett að taka toll af þeim, sem grætt hafa.

Af þessum ástæðum vil jeg leyfa mjer að greiða atkv. með brtt. meiri hl., og vona, að þær verði samþ. Geri jeg það í því trausti, að háttv. neðri deild muni fallast á þær. Það er enginn barlómur, að landssjóður þurfi tekna; þingið hefir sjálft viðurkent það. Og það er enginn vafi á því, að þessi leið, sem hjer er farin til að ná í tekjuaukann, er sú rjetta.