18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Framsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að fara langt út í þetta má), en eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. fjármálaráðherra er mjer vorkunn, þótt jeg skiljist ekki við þetta mál án þess að gera betur grein fyrir afstöðu minni en jeg gerði í fyrri ræðunni.

Jeg hafði litið svo á, að grundvöllurinn undir nýjum tekjuskattsauka hefði átt að vera lög um tekjuskatt frá 1877, en ekki lögin frá 1917. Ef stjórnin hefði lagt þau lög til grundvallar, hefði hún sloppið við að hengja talsvert af rjettlátum. En þessi stefna hefir ekki fengið náð hjá þingi eða stjórn. Það er fjarstæða, að hjer sje verið að ráðast á kaupmenn. Hitt er annað mál, að hjer er verið að ráðast á aðra, sem stunda miklu óvissari atvinnu og leggja miklu meira í hættu, nefnilega útgerðarmennina. Það er engu líkara, en að bæði þing og stjórn sje að gera sjer leik að því að hengja rjettláta. Það bar að minsta kosti ekki á öðru, þegar gengið var frá dýrtíðarlögunum. Með því frv. eru þeir, sem minstir eru í mannfjelaginu, settir út á gaddinn.

Jeg skal geta þess í sambandi við þetta mál, að jeg sje ekki betur en að með stjórnarauglýsingunni út af bresku samningunum sje einmitt verið að hengja hina rjettlátu; þar á jeg við smærri útgerðarmenn, sem skattur þessi legst á.

Þar er gert ráð fyrir, að framleiðendur fái 170 kr. fyrir fisk nr. 1. En þar sem verðið er 170 kr. lægst og 250 kr. hæst, getur vel farið svo, að meðalverðið verði 210 kr., ef vel aflast. Það eru þá 40 kr. af hverju skippundi, sem kaupmönnum er gefið. Og jeg verð að segja það, að mjer þykir það í meira lagi ríflegt. (Atvinnumálaráðh: Jeg hygg þetta vera misskilning hjá háttv. þm. (M. T )). Nei, þetta er enginn misskilningur, ef ekki verða gerðar frekari ráðstafanir en þær, sem eru í auglýsingu þessari.

Jeg þykist þá hafa tekið fram það helsta, sem mælir á móti brtt., enda skildist mjer á hæstv. fjármálaráðherra, að hann ætti orðið harla erfitt með að verja sinn málstað.