23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Á síðasta þingi bárum við flutningsmenn þessa máls fram samskonar frv. og hjer liggur fyrir, og þótt það næði þá ekki fram að ganga, þá var því eiginlega vel tekið af háttv. þingd.; að eins minnist jeg þess, að hæstv. forsætisráðherra taldi nokkur tormerki á því, að málið fengi að ganga fram. Sjerstaklega gat hann þess, að það væri of lítið undirbúið til þess, og auk þess leiddi af því nokkurn kostnaðarauka fyrir landssjóð. Þetta voru andmælin helstu, sem fram komu á móti því. Annars mæltu engir þingmenn í móti. Málið komst í allsherjarnefnd og sat þar lengi, sem stafaði af því, að þegar það fór til nefndarinnar, var ókomið svar frá sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, en nefndin vildi ekki, að málið gengi til háttv. deildar aftur, fyr en álit hennar væri komið. Svar sýslunefndarinnar var á þá lund, að mikill meiri hluti atkv. var á móti málinu. Hverjar ástæður voru fyrir því er mjer ekki nægilega ljóst. Þó hygg jeg, að sú hafi verið aðalástæðan, að sýslan misti þann hluta Hvanneyrarhrepps, er mestar átti eignirnar og hafði þar af leiðandi mest gjaldþolið.

Þegar þessi svör komu frá sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, sá allsherjarnefnd sjer ekki fært að leggja til, að málið gengi fram, en ljet þó uppi, að öll sanngirni mælti með því, að Siglufjörður fengi kaupstaðarrjettindi. Þegar svo var komið, að allsherjarnefnd lagði þetta til í málinu, sáum við flutningsmenn okkur ekki fært að halda því lengra og tókum því frv. aftur.

Síðan þetta gerðist hefir málið verið tekið til rækilegrar íhugunar, bæði á Siglufirði og í sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, og hefir nú samkomulag fengist, en þó með þeirri breytingu, að allur Hvanneyrarhreppur verði sjerstakt lögsagnarumdæmi, og enn fremur að sýslumannsembættinu í Eyjafjarðarsýslu verði sjeð fyrir hæfilegum tekjum.

Sú mótbára, að þetta sje kostnaðarauki fyrir landið, er ljettvæg. Því að sá tekjuauki, sem hlýtur að leiða af breytingunni, mun vissulega bæta hann upp, að líkindum margfaldlega. En það er sú tilfinnanlega vöntun á lögreglu eða valdsmannsleysið á Siglufirði, sem er sterkasta ástæðan fyrir flutningi þessa máls, og þetta er mjög svo eðlilegt, þar sem um jafnafskekt, stórt og fjölment kauptún að ræða, enda fólkið hvaðanæfa að komið, ekki einasta af öllum landshornum, heldur líka útlendingar í hundraðatali. Það er því að ýmsu leyti mjög sundurleitt í háttum og skoðunum.

Hjer er því um fylstu sanngirniskröfu og nauðsyn að ræða, eins og allsherjarnefndin á síðasta þingi ljet skýrt í ljós, og því vona jeg, að þingið taki nú málinu vel. Geri jeg það að till. minni, að því verði vísað til allsherjarnefndar, að umræðunni lokinni, og treysti henni enn til þess að afgreiða málið með sanngirni og svo fljótt, að því verði borgið í gegnum þingið.