23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm (Stefán Stefánsson):

Jeg skal ekki verða langorður. En hvað það snertir, að þingið hafi ekki tíma eða tök til þess að athuga þetta mál, þá veit jeg í sannleika ekki, hve nær það hefir tíma til þess að athuga mál. Eftir þeim störfum þingsins, sem fyrir liggja sé jeg ekki betur en að annir þingmanna verði næsta litlar, svo að nú muni einmitt gott ráðrúm til þess að athuga þetta mál. Og svo hygg jeg, að frv. og önnur þau gögn, sem liggja fyrir um málið, verði til þess að skýra það svo ljóslega fyrir háttv. þm., að það þurfi ekki að taka langan tíma fyrir þá að sjá, hverjar breytingar hjer eigi að fara fram. Þess vegna finst mjer það engin ástæða hjá hæstv. forsætisráðherra, að ekki sje tími til þess að athuga málið, af því að þetta sje aukaþing; miklu fremur álít jeg einmitt nú þann heppilega tíma til þessa.

Kostnaðaraukinn finst mjer, eins og áður er sagt, hverfandi lítill, og auk þess hefir um mörg ár verið lagt til löggæslu á Siglufirði 1.000 kr., og gæti jeg hugsað mjer, að þær 1.000 kr. mundu ekki hrökkva til framvegis, þó að sama fyrirkomulagið hjeldist. Öll störf eru nú dýrari en áður, og má gera ráð fyrir, að við upphæðina verði að bæta hvort sem er. Útgjaldaaukinn verður þar af leiðandi, eftir öllum líkum að dæma, eigi mikill, því að frv. gerir ráð fyrir að eins 2.000 kr. launum til bæjarfógeta.

Þótt fólksfjöldinn sje ekki nema rúmlega 900 manns, þá mun öllum það ljóst, að nauðsynlegt er fyrir bæinn að hafa eitthvert yfirvald, — hafa lögregluvald, — sem getur beitt sjer í þeim tilfellum, sem fyrir kunna að koma næstum daglega, og hafi menn sjer við hönd til að ráða fram úr þeim málum, sem mest nauðsyn er á að ráða fram úr í hvert skifti; að á þessu sje „engin sjerstök nauðsyn“ er því hrein og bein fjarstæða. Það vita allir, hvernig afstaða Siglufjarðar er gagnvart sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu; það er ca. 10 mílna löng sjóleið til Akureyrar, en á landi illfærir fjallvegir, og hygg jeg, að öllum sje það ljóst, hvað slíkt er afar bagalegt, og getur jafnvel valdið stórtjóni fyrir slíkan bæ að hafa svo frámunalega ógreiðan aðgang að lögreglustjóra sínum. Um launahæð eða á hvern hátt þau greiðast, er auðvitað ekkert aðalatriði.

Staðhættir benda því ótvírætt á það, að hjer er um fullkomið nauðsynjamál að ræða, og á þetta hefir líka öll sýslunefndin fallist. Þótt hún að hinu leytinu vilji ógjarnan missa Siglufjörð úr sýslufjelaginu, þá er hún eigi að síður svo sanngjörn að viðurkenna, að ekki dugir að neita staðreyndum eða ganga fram hjá auðsærri nauðsyn. Enda var það engin sjálfsögð skylda síðasta þings að láta ekki málið ganga fram, þótt sýslunefnd væri þá mótfallin. Og þótt kauptúnið sje eigi fjölmennara, þá virðist mjer, að hver maður hljóti að sannfærast um, er les greinargerðina, er frv. fylgir, að ekki verði lengi spyrnt á móti því, að Siglufjörður fái kaupstaðarrjettindi.

Það kann að vera, að þeim mönnum, sem aldrei hafa komið á Siglufjörð og eru þar alókunnugir, finnist þetta óþarfi, en jeg er viss um, að hver og einn, sem hefir dvalið þar, hefir farið þaðan með þeirri skoðun, að þar þurfi að komast breyting á.

Þeir sem stjórna kauptúninu — hreppsnefndin — eru dreifðir yfir afarstórt svæði; Hjeðinsfjörður fyrir austan fjörð og Dalabæir fyrir vestan og illfærir fjallgarðar á milli. Það er því auðsætt, hversu óhægt það er fyrir hreppsnefndina að stjórna slíkum bæ.

Hvernig hugsa menn sjer, að slíkt sje framkvæmanlegt, svo að í sæmilegu lagi sje? Nei, þarna þarf kraftgóða stjórn; þá stjórn verður einn maður aðallega að hafa á hendi, og það er fásinna að ætlast til, að hann eigi heimili inn í Akureyrarbæ.

Jeg hefi gert það að till. minni, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, og vænti hins besta frá henni í málinu.