08.05.1918
Neðri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Einar Árnason:

Jeg býst ekki við, að mikið þurfi um málið að segja á þessu stigi. Eins og háttv. frsm. (E. A.) tók fram, eru nú fallnir í gras þeir agnúar, er nefndin fann á frv., með þeim brtt., er hjer liggja fyrir frá okkur flutningsmönnum. En svo heyri jeg á háttv. frsm. (E. A.), að von sje á brtt. frá nefndinni til 3. umr. Þar sem við flutningsmenn vitum ekki nú, í hverju sú brtt. muni fólgin, verðum við að biða með að taka afstöðu til hennar, þar til hún kemur fram.

Hvað það snertir, að nefndin hafi ekki fengið það svart á hvítu, hvort Siglfirðingar muni ganga að þessum breytingum eða ekki, er það að segja, að við höfum talað við þann mann í síma, er fremst hefir staðið um þetta mál á Siglufirði, og hefir hann tjáð okkur, að þeir muni sætta sig við þetta fyrirkomulag. En til frekari tryggingar höfum við sent honum símskeyti og beðið um símsvar með frekari skýringum og athugasemdum. Býst jeg við, að það verði komið þá er málið er tekið til 3. umr.

Um launin er það að segja, að þar getur naumast verið að ræða um nokkur aukin útgjöld fyrir landssjóð. Reikningslega sjeð er kostnaðaraukinn 7— 800 kr., en eins og tekið hefir verið fram, mun þess varla að vænta, að maður fáist þar að sumrinu til löggæslu fyrir sömu þóknun og hingað til — 1.000 kr. Og af þessu frv. gæti auk þess leitt það, að tolltekjur yrðu meiri af Siglufirði en ella.

Þar sem bæði hæstv. forsætisráðherra og háttv. frsm. allsherjarnefndar (E. A.) hafa lagt með brtt. okkar, sje jeg ekki ástæðu til að ræða þær frekar.