23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

16. mál, mótak

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Ástæðan til þess, að jeg hefi leyft mjer að koma fram með þetta frv., er sú aðallega, að það má búast við, að Íslendingar verði á eigin spýtur að sjá sjer fyrir eldsneyti fyrst um sinn. Það eldsneyti, sem landsmenn munu aðallega notfæra sjer, verður mórinn, því að þótt á síðari tímum hafi að nokkru verið byrjað á innlendu kolanámi, þá er ekki við því að búast, að það verði í svo stórum stíl, að það geti fullnægt eldsneytisþörf landsmanna.

Það er kunnugt, að í sjávarþorpum og kauptúnum hafa ensk kol verið aðallega notuð til þessa, en nú lítur ekki út fyrir annað en að þetta eldsneyti bregðist, þar sem þau bæði verða svo dýr, að lítt mögulegt er, að menn hafi efni á að kaupa þau, og svo þar sem að hinu leytinu er vafasamt, hvort þau fáist, hvað sem í boði er. Eitthvað verður því að koma í þeirra stað, og vafalaust verður mórinn best hentur til þess.

Tilgangur þessa frv. er því sá, að koma í veg fyrir, að eigendur og umráðamenn mólanda geti sett hóflaust gjald á mótak í landi sínu, en þó hefir verið reynt að útbúa frv. þannig, að ekki sje gengið of nærri hagsmunum eða rjetti eigendanna.

Jeg vona því, að háttv. Nd. telji þetta mál ekki óþarfa mál og leyfi því að ganga fram á þessu þingi.

Það getur verið vafamál, hvort málið eigi fremur heima í allsherjarnefnd eða bjargráðanefnd, en þó vil jeg heldur gera það að minni tillögu, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.