23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

16. mál, mótak

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) hefir að miklu leyti tekið fram það, sem jeg hefi að athuga við frv. þetta; þó er jeg honum eigi sammála um það, að opinber íhlutun sje óþörf um þetta efni. Jeg álít frv. orð í tíma töluð, og sjálfsagt á þessum tímum að reisa skorður við hugsanlegri einokun á innlendu eldsneyti.

Hins vegar felli jeg mig ekki við það, að eigendur mólands sjeu ofurseldir óskum og vilja þeirra, sem mó þurfa að kaupa, og skyldir án allra takmarkana að láta mólandið falt. Frv. hefir eigi nein tryggingarákvæði fyrir eigendur mólands gegn gerræði af hálfu móstungumanna.

Þetta og fleira þarf að athuga í nefnd, og á slíkum ráðstöfunum og þessum má engin skyndiskrift vera. Mundangshófið er hjer mjótt milli rjettar og órjettar, en byrði eins varpað á annan með lagáboði.

Tvent vil jeg leyfa mjer að taka fram fyrir væntanlega nefnd til athugunar.

Í fyrsta lagi, að fyrirmæli frv. um fortakslausan rjett til móstungu, hvar sem hún er til, geta gefið tilefni til megnustu rangsleitni, svo sem ef mó skyldi stinga í túni eða nærtækum engjablettum búanda, af því að grönnum hans, sem móstungu vantar, væri það hagfeldast. Jeg tel sjálfsagt, að ákvörðunin um það, hvar mó megi taka í hverri sveit, sje gerð að opinberri tilhlutun, t. d. af sveitarstjórn. Sama gildir í raun og veru um meðferð mólandsins að öðru leyti, eins og háttv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram, um sljettun þess og ruðning.

Þá er það annað athugavert við frv., að í því er ekkert ákvæði um torfristu og hnausstungu. En eins og vitanlegt er, er oft svo ástatt fyrir þeim, sem móinn taka upp, að ekki er kostur að flytja hann heim að lokinni þurkun, heldur er það geymt vetri og akfæri. Þarf þá tíðast að rista torf til þakningar mónum og stinga hnausa í fyrirhleðslur. Landspjöllin, sem af því leiða, eru oftast miklu verri en sjálf móstungan, ef í engjum er eða slægjulandi, og er því fylsta ástæða til að gera mun á móstungunni einni sjer og móstungu ásamt torfristu og hnausstungu. Af frv. verður eigi sjeð, hvort ákvæði þess um „þurkun og geymslu“ taka til torfristu og hnausstungu, en ef svo er ekki, þá er móstungugjaldið sennilega of lágt, og virðist mjer eðlilegast að liða eftirgjaldið sundur, svo að fyrir móstungu og þerriland væri goldið sjer á parti, en í öðru lagi fyrir torfristu og hnausstungu.

Ágreinings hefir orðið vart hjer um það, hvert vísa beri þessu máli, hvort heldur í bjargráðanefnd, landbúnaðarnefnd eða allsherjarnefnd. Um það tek jeg afstöðu með háttv. flutnm. (M. G.) og vil fela það allsherjarnefnd. Sú nefnd hefir bestu skilyrði til að sjá við misfellum á málinu og er skipuð færum lögfræðingum, en lögfræðilega hliðin á þessu máli er einmitt mjög aðgæsluverð.