17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Björn R. Stefánsson:

Við 2. umr. þessa máls var svo margt um það skrafað, að mjer fanst ekki gustuk að fara að lengja þær umr. með því að fara þá að gera grein fyrir atkv. mínu, enda fjelst jeg á það, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) sagði, að þm. myndu vera búnir að mynda sjer skoðun og taka afstöðu til málsins, svo að lengri umr. myndu þar engu um þoka.

Jeg gat hvorki sætt mig við frv. hv. stjórnar nje till. nefndarinnar, hvorki meiri nje minni hluta, en mjer fanst, að stjórnarfrv., eins og það lá fyrir, mundi fremur verða komið í það horf, sem jeg gæti felt mig við, heldur en eins og það hefði orðið með brtt. háttv. meirihluta. Þess vegna greiddi jeg atkv. á móti flestum brtt.

Ágreiningurinn við 2. umr. var aðallega um það, hvort heldur ætti að fylgja þeirri stefnu að gefa eða lána fje úr landssjóði til hjálpar almenningi, ef vandræði bæri að höndum. Háttv. meiri hl. nefndarinnar hjelt því fram, að hagur landssjóðs væri ekki svo góður, að hann væri þess megnugur að gefa nokkuð, sem um munaði, ef verulega neyð bæri að höndum. Jeg játa fyllilega, að þetta sje rjett, en sumar aðrar röksemdir hv. meiri hluta sýndu það jafnframt og sönnuðu, að landssjóður sje enn síður megnugur að lána eftir till. hans heldur en að gefa eftir till. stjórnarinnar, því að eftir till. háttv. meiri hluta var um ferfalt hærri útgjaldaupphæð að ræða.

Háttv. meiri hluti tók það fleirum sinnum fram og lagði áherslu á það, að ef svangan mann vantaði 10 krónur, þá væri hann ekkert um það að hugsa eða að því að spyrja, hvort hann fengi þær lánaðar eða gefins, ef hann að eins gæti fengið þær, enda kæmi það, í bráðina, alveg í sama stað niður fyrir hann.

Jeg vil nú snúa þessu dæmi að landssjóðnum og segja: Ef landssjóður er í þröng, en þarf að leggja út peninga almenningi til bjargar, þá er honum í bili alveg sama, hvort hann á að lána þá eða gefa; hitt verður aðalatriðið, að upphæðin sje sem allra minst, sem hann á að leggja fram, svo að hann komist ekki ekki í þrot, og jeg tel það aðalskyldu okkar að binda landssjóði ekki þyngri bagga en svo, að hann fái undir þeim risið. Þess gættum við ekki í fyrra, og það víti eigum við að láta okkur að varnaði verða og gæta þess að stranda ekki á sama skeri nú.

Jeg tók það fram áðan, að eins og stjórnarfrv. og till. háttv. meiri hluta lágu fyrir við 2. umr., þá hefði fjárframlag landssjóðs orðið ferfalt meira eftir till. meiri hlutans en eftir stjórnarfrv., því að eftir sama mælikvarða, sem hv. meiri hluti áætlar framlögin eftir till. sínum, 903 þús., hefðu þau orðið 225 þús. eftir stjórnarfrv.

Gamall málsháttur segir, að maður eigi að vona það besta, en vera við búinn því versta.

Ef við nú fylgjum þessari reglu, verðum við að gera ráð fyrir, að stríðið standi nokkur ár enn, að enn harðni í ári og hagur almennings versni að mun. Þá mundi svo fara, að við á næstu árum myndum þurfa að veita ný lán, í staðinn fyrir að innheimta það, sem við lánum í ár, eins og háttv. meiri hluti ætlast til, — eða dettur nokkrum í hug, ef stríðið heldur áfram og við framvegis verðum við það að búa að hlíta ofbeldi Englendinga, að sá almenningur, sem þarf í ár að fá hundruð þúsunda að láni, geti endurborgað þau lán á næstu árum.

Það, sem við því þurfum að gera, er það að búa svo um, eftir því sem við höfum best vit á, að almenningur finni hjá sjer hvöt og skyldu til að hjálpa sjer í lengstu lög sjálfur, að leggja bjargráðin sem mest í hendur sveitarstjórna, en sýna þó jafnframt hluttekningu og veita hjálp þar, sem að þrengir, og hana þeim mun meiri sem erfiðara verður fyrir.

Jeg játa það, að undir venjulegum kringumstæðum er stór munur á því að lána og gefa, en eins og hjer stendur á, held jeg, að munurinn verði lítill, og því beri að leggja áherslu á það að hafa fjárframlagið sem rjettlátast og notadrýgst, en þó svo lágt sem hægt er, hvort sem það svo er kallað gjöf eða lán, enda er á það að líta, að þegar batnar í ári, mun full þörf á að finna nýjar tekjulindir, til þess að rjetta við fjárhag landssjóðsins, og hvar haldið þið þá, að þessara tekjulinda verði leitað annarsstaðar en hjá þeim sama almenningi, sem nú á þessum erfiðu tímum á að veita dálitla hjálp? Hún fer þess vegna ekki í ómildan akur.

Af framansögðu fanst mjer frv. hæstv. stjórnar vera nær rjetta sporinu en till. háttv. meiri hluta, og því studdi jeg að því með atkvæði mínu, að það kæmist til 3. umr. Hins vegar fanst mjer það alveg fráleitt, að hjálpin væri altaf jöfn, hvort sem sveitarfjelagið þyrfti mikið eða lítið að sjer að leggja, og því ganga brtt. okkar háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) út á það, að gera greinarmun á því. Landssjóður hefir ekki ráð á því að hampa fjenu framan í almenning og segja við fyrstu þriggja krónu aukabyrðina, sem hann verður að leggja á sig: Eina af þessum þremur krónum geturðu fengið hjá mjer.

Það hefir oft verið á það minst og að því fundið, hvað landssjóður hafi náð í lítið af stórgróða einstakra manna á þessurn ófriðartímum. Þessir stórgróðamenn eru flestir í bæjum og þorpum, en þar er helst vandræða von; þar eru þá líka óeyddir tekjustofnar, sem við getum sagt að þing og stjórn hafi eftirlátið bæjar- og sveitarfjelögum að grípa til, til almennrar dýrtíðarhjálpar. Þessar tekjulindir þurfa að vera svo djúpar og drjúgar, að úr þeim náist sem svarar 5 krónum á hvern mann í bæjar- eða sveitarfjelaginu, áður en landssjóður fer að leggja fram.

Hjer er nú ýtt að mjer stjórnarfrv., sem til þess er œtlað að ná í þennan stórgróða handa landssjóðnum. Þetta stjórnarfrv. var ekki lagt fram fyr en núna á fundinum, og hafði jeg ekki hugmynd um, að það væri á leiðinni, þegar við sömdum brtt. okkar á þgskj. 136. Annars liggur það frv. ekki fyrir til umr., svo að ekki er vert að minnast frekar á það nú, eða lýsa minni afstöðu til þess, en þegar brtt. voru skrifaðar, var það tilætlunin, að bæjarfjelögin hefðu þennan skattstofn, eða að landssjóður eftirljeti þeim hann. Við það eru brtt. miðaðar.

Jeg hefi líklega farið aftan að siðunum með því að minnast fyrst á síðustu brtt., en það er afsakanlegt, vegna þess að það er aðalbrtt. Brtt. við 2. gr. er bygð á því, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) benti á, að það vantaði ákvæði um það, hvað ætti að miða við og hvað væri venjuleg útgjöld sveitarfjelaganna. Eru hjer sett ákvæði um það.

Þá er brtt. við 1. gr. b. Hv. meiri hluti talaði mikið um það, að þessar 15 krónur á mann væru í raun og veru ekki nema smáræði, ef nokkuð þrengdi að. Samt fór hann ekki hærra en að hækka það upp í 20 krónur, en með brtt. okkar háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er styrkurinn hækkaður upp í 25 kr. „Fyrir 1. okt. komi: 1. nóv.“ er bygt á því, að sveitarstjórnir koma altaf saman seint í okt. til þess að jafna niður útsvörum og ráða ráðum sínum að öðru leyti; væri þeim mjög óþægilegt, ef þær ættu að gera það strax í september. Auk þess er á það að líta, að í september er ekki eins vel sjeð, hvað til muni verða, ekki eins vel komið fram, hvað bjargræði manna hafi orðið yfir sumarið og hvað skorta muni til þess, að menn geti bjargað sjer með sumargróðann. Að þessu leyti held jeg, að brtt. sje aðgengilegri fyrir sveitarstjórnirnar, því að þeim verður óhægt að gera ábyggilegar áætlanir svo snemma.

Nú skal jeg stuttlega gera grein fyrir því, hvað þetta nemur miklu fyrir landsjóðinn, ef brtt. okkar háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ganga fram. Ef til þess þyrfti að taka, að hvert einasta sveitarfjelag notaði þetta til hins ítrasta, gæti hjer verið um tæp 600.000 króna útgjöld að ræða fyrir landssjóð. Ef við svo aftur á móti göngum út frá, að að eins helmingur sveitar- og bæjarfjelaga notaði sjer þetta — eins og háttv. meiri hluti gerði við 2. umr. —, yrði upphæðin tæp 300.000, eða 299.700 krónur. Eftir þessum lægri mælikvarða hefði framlag landssjóðs orðið eftir till. háttv. meiri hluta 900.000 krónur, en eftir stjórnarfrv. 225.000 krónur.

Við 2. umr. þessa máls var Reykjavík oft nefnd, og sett upp dæmi til að sýna, hvað hún gæti fengið mikið eftir hvorri till. fyrir sig. Jeg skal nú gera sama, og geng þá út frá 15.000 manns.

Eftir till. háttv. meiri hl. gat hún fengið 300.000 króna lán. Eftir stjórnarfrv. gat hún fengið 75.000 króna styrk, gegn 150.000 krónum úr bæjarsjóði. Eftir brtt. okkar háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gæti hún fengið 100.000 króna styrk, gegn 275.000 krónum úr bæjarsjóði.

Jeg sagði áðan, að landssjóður gæti ekki lagt meira fje fram heldur en það, sem verða mundi eftir þessum till. Jeg meinti það nú ekki alveg bókstaflega, að hann gæti kann ske ekki meira í bráðina, en bann má ekki ganga nær sjer en þetta, því að eigi stríð og dýrtíð eftir að standa lengi enn, þá má hann ekki tefla svo mjög á það ítrasta með möguleika sína, að hann geti ekki neitt, þegar enn meir þrengir að.

Viðvíkjandi því, að þetta sje gjöf, en ekki lán, sem kann ske sje óþörf, ef snemma batnar í ári, má endurtaka það, að skattarnir verða ekki sóttir annað en til þessara sömu manna, sem fengu hjálpina meðan á dýrtíðinni stóð, svo að hún hefir þá ekki fallið í ómildan akur.

Við 2. umr. skrifaði jeg ýmislegt hjá mjer, sem jeg áleit þörf á að gera athugasemdir við, en jeg skal nú ekki tefja tímann með því að fara að taka það upp nú, nema því að eins, að það verði þá vakið upp aftur við þessa umr.

Jeg ætla svo að bíða andsvara áður en jeg segi meira.