10.05.1918
Neðri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

16. mál, mótak

Magnús Pjetursson:

Það var að eins örstutt athugasemd eða fyrirspurn til nefndarinnar út af þessari sömu brtt. við 1. gr. Þar stendur meðal annars: „Meðan nægilegt móland er innan takmarka hrepps eða kaupstaðar, er óheimilt mótak utan þeirra takmarka, nema aðiljar sjeu ásáttir um“.

Mig langar til þess að fá nokkrar skýringar á þessu, því að jeg álít þetta talsverðan galla á frv., eftir því sem hagar til sumstaðar.

Það getur sem sje víða staðið svo á, t. d. þar, sem mjóir firðir ganga inn í landið og aðskilja hreppana, að í öðrum hreppnum sje illmögulegt að ná í móinn, þótt hann sje til í sveitinni, en aftur á móti getur verið miklu hægara fyrir íbúa kauptúna eða kaupstaða að ná í móinn í nágrannahreppnum, en þetta er þeim meinað með þessu ákvæði, eða þótt þeir fái það, þá geta þeir orðið að sæta afarkjörum.

Þetta vildi jeg benda nefndinni á til athugunar, ef henni fyndist ástæða til þess að breyta því við 3. umr.