10.05.1918
Neðri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

16. mál, mótak

Framsm, (Magnús Guðmundsson); Jeg held, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafi misskilið brtt., ef hann heldur, að hún komi í bága við 53. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um helgi eignarrjettarins, því að þetta ákvæði var einmitt sett til þess að draga úr rjetti til mótaks og skyldu til þess að láta það af hendi, ákvæðinu eins og það var í upphafi, og vernda þar með eignarrjettinn.

Eftir 1. gr. frv. gat hvaða maður sem var heimtað mótak í landi annars manns, þótt hinn síðari vildi ekki láta það laust, en eftir brtt. er það bæjarstjórnar eða sveitarstjórnar að skera úr, ef deila skyldi rísa út af því, hvort sá, er mótaks beiðist, skuli fá það eða ekki.

Ef háttv. þm. (Sv. Ó.) hefði borið brtt. saman við 1. gr. frv., þá hefði hann hlotið að sjá þetta.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) vil jeg svara því, að nefndin athugaði einmitt samskonar tilfelli og hann benti á, en þó varð það ofan á að hafa ákvæðin eins og það er hjer, en persónulega er jeg hlyntur því, sem hann sagði, og ef hann vill koma með brtt. til 3. umr., mun jeg styðja hana, en svo mun eigi vera um meðnefndarmenn mína.