17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Árnason:

Þegar þetta mál var hjer til 2. umr., voru umr. um það mjög langar, og hafi nokkuð hafst upp úr öllum þeim löngu ræðum, hefir það líklega verið það, að málið komst í mesta óefni, þar sem tveir jafnsterkir flokkar deildu um tvær mismunandi stefnur. Jeg vil ekki verða til þess að vekja deilurnar aftur, því að jeg held, að málið vinni ekkert við það.

Eins og menn muna, fjell 1. brtt. háttv. meiri hl. bjargráðanefndar með jöfnum atkv. Þá var sjeð, að hjer voru tveir flokkar jafnsterkir, og leit ekki út fyrir annað en að stjórnarfrv. myndi falla líka. Jeg hallaðist að stefnu háttv. meiri hl. nefndarinnar, þó að mjer í ýmsum atriðum fjellu ekki sem best sumar brtt. hennar. En svo virtist mjer ekki rjett að fella stjórnarfrv. strax, heldur greiddi jeg því atkv. mitt, í þeirri von, að hægt myndi að koma á einhverju samkomulagi við 3. umr.

Nú hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 150, ef vera kynni, að menn gætu fallist á það, svo að frv. gæti komist út úr deildinni með sæmilegum meiri hl. Jeg skal strax taka það fram, að þessar brtt. ganga í svipaða átt og brtt. meiri hl. bjargráðanefndar um daginn, en þessar till. hafa þann kost, að þær gera málið einfalt og óbrotið og lögin þægileg til framkvæmda. Með þessu er frv. aftur fært inn á þá leið, að landssjóður láni sveitarfjelögum, þegar í harðbakka slær, en gefi ekki fje. Jeg hefi þá sannfæringu, að gjafir frá landssjóði, hvort sem er til einstakra manna eða sveitarfjelaga, hafi ekki góðar afleiðingar; þær rýra sjálfsbjargarhvötina, en hana má aldrei skerða, hvorki hjá einstaklingum nje fjelögum. Hins vegar verð jeg að halda því fram, að hjálp, sem veitt er í neyð, komi að sama liði, hvort sem hún er veitt sem lán eða gjöf, og hjer er það aðalatriðið, að sá, sem nauðsynlega þarf á hjálp að halda, hann fái hana.

Að þessu lýtur 2. brtt. á þgskj. 150, um það, að 2. og 3. gr. frv. falli burt. Með því er numin burt heimildin til að greiða úr landssjóði 1/3 af þeirri upphæð, er sveitar- og bæjarfjelög kunna að verja til dýrtíðarhjálpar, og með því er jafnframt stefnu frv. breytt í það horf, er jeg hefi bent á og talið heppilegt. Þetta er því þungamiðja brtt. Af þessu er það jafnframt eðlilegt að nema burt 15 kr. ákvæðið úr 1. gr. frv., því að þegar þátttaka landssjóðs er numin í burt, er það eðlilegt og sjálfsagt, að sveitarstjórnir sjeu sjálfráðar í þessu efni, svo langt sem vald þeirra nær samkvæmt sveitarstjórnarlögunum.

Þá er 3. brtt. um það, að landsstjórninni sje heimilt að lána bæjar- eða sveitarfjelögum vörur með eins árs gjaldfresti og 5% vöxtum. Jeg get ekki betur sjeð en að þegar í harðbakka slær, þá sje þetta einfaldasta ráðið til hjálpar. Eins og sakir standa nú, er ekki annað sjáanlegt en að öll kornvöruverslun hjer á landi gangi í gegnum landsverslunina, og finst mjer það þá óþarfa fyrirhöfn, að landssjóður láni fyrst sveitarfjelögunum peninga, til þess að þau borgi svo vörurnar, sem þau fá í landsversluninni, með þeim sömu peningum. Að þetta geti á nokkurn hátt leitt út á hálar brautir fyrir landsverslunina get jeg ekki sjeð. Jeg ætlast ekki til, að sveitarfjelög eða kaupstaðir leiti á náðir landssjóðs fyr en öll önnur sund eru lokuð, og jeg ætlast ekki heldur til, að landsstjórnin veiti þessi vörulán fyr en knýjandi nauðsyn ber til; en landsstjórnina tel jeg fullkomlega bæra að dæma um, hve nær sú nauðsyn er fyrir hendi. Og því frekar treysti jeg stjórninni til að framkvæm þetta, þar sem að hún hefir, að mínu áliti, farið alveg rjett að við framkvæmdir þeirra dýrtíðarlaga, sem nú gilda, þar sem hún hefir ekki notað sjer hina rúmu lánsheimild, sem þar er veitt; tel jeg hana eiga þakkir skilið fyrir það.

Jeg vil að lokum biðja menn að athuga það, að það lá mjög nærri, að frv. þetta fjelli hjer í deildinni við 2. umr. Fari nú svo, að þessar brtt. mínar falli, þá sje jeg mjer ekki fært að greiða frv. atkv., og eru þá forlög þess ærið tvísýn.