05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

16. mál, mótak

Framsm. (Magnús Guðmundsson); Aðalefni framhaldsnefndarálitsins er það, að nefndin leggur til, að frv. þetta verði samþykt eins og það kom frá háttv. Ed. Á frv. hefir verið gerð sú breyting í háttv. Ed., að það er beinlínis fram tekið, að enginn sje skyldur til þess að láta mótak af hendi, nema jörð hans eigi mótak aflögu. En það er ekki skýrt, hvað átt er við með þessu orði, „aflögu“. Með þessu getur alls eigi verið átt við það, að nægilegt mótak sje fyrir jörðina sjálfa um ófyrirsjáanlega framtíð, því að þá væri frv. meiningarlaust og með öllu gagnslaust. Nefndin skildi þetta ákvæði þannig, að meiningin með því væri sú, að móland jarðar væri nægilegt í nánustu framtíð, og með þennan skilning fyrir augum leggur hún til, að frv. verði samþ.

Eitt atriði er það í nál. háttv. allsherjarnefndar í Ed. um þetta frv., sem mjer finst ástæða til þess að athuga. Þar er svo að orði komist, að frv., eins og það kom frá Nd., heimili mónám á jörð „hvar sem er og hvernig sem á stendur“. Þetta er algerlega rangt, eins og hver getur sjeð, sem les frv., eins og það kom frá Nd. Það heimilar ekki mónám á jörð „hvar sem er“, því að skýrt er tekið fram í 1. gr., að óheimilt sje mónám utan hrepps, meðan móland er til innan takmarka hreppsins. Það heimilar ekki heldur mónám „hvernig sem á stendur“, því að það skilyrði er þó sett, að þeim, sem óskar mótaks, sje nauðsyn á því og það einmitt á þeim stað. Það má ef til vill segja, að tryggilegar sje frá frv. gengið eins og það er nú. En hins vegar eru þessi ummæli háttv. allsherjarnefndar Ed. algerlega rakalaus og hljóta að vera sprottin af því, að nefndin hefir eigi athugað nógu rækilega, hvað felst í frv.

Að svo mæltu vona jeg, að háttv. deild samþ. frv., eins og það liggur fyrir, og með skilningi allsherjarnefndarinnar í þessari háttv. deild.