17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki verða fjölorður eða myrkur í máli, en kann betur við, áður en til atkvæða er gengið, að gera grein fyrir atkv. mínu og afstöðu til frv. og brtt.

Jeg fylgdi frv. stjórnarinnar við 2. umr., og einstöku fram komnum brtt. get jeg fylgt, en jeg get ekki verið sammála háttv. meiri hl. bjargráðanefndar, því að mjer finst endilega, að hann hafi misskilið tilgang frv. Jeg veit, að háttv. meiri hl. hefir vandað til till. og að þær eru fram komnar af fylsta áhuga fyrir málinu, en gat þó ekki orðið henni samferða. Jeg skal kannast við það, að stjórnarfrv. er ekki svo tæmandi eða ítarlegt, sem vera þyrfti, en svo er þetta líka um brtt. Það mun líka reynast svo, að nærri ókleift er að er að gefa út lög um dýrtíðarráðstafanir, er geti náð yfir öll þau einstök tilfelli, sem það ástand hefir í för með sjer. Þess vegna held jeg, að best sje að taka frv. eins og það er, í þeirri von, að það komi að liði í þeim tilfellum, er fyrir kunna að koma, og frv. þræðir þá leið, sem annarsstaðar er fylgt, að veita nokkra kauplausa hjálp áður en kemur að hallærislánum.

Fjórar brtt., á þgskj. 133, 134, 136 og 150, hafa komið fram við frv. Skal jeg stuttlega minnast á þær allar og byrja á þeirri síðustu, sem komin er frá háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.). Mjer þykir fyrir því, að þessi till. skuli vera komin frá jafngætnum og tillögugóðum manni, því að mjer finst, að hann hafi hlotið að misskilja tilgang frv. Háttv. þm. (E. Árna.) leggur það til, að feld verði úr frv. 2. og 3. gr., en það er alveg það sama og að leggja það til, að 1.—8. gr. verði feldar, eða með öðrum orðum alt frv.; það er ekkert eftir af því, ef 2. og 3. gr. eru feldar úr.

Lánsheimildin, sem hann að nafninu til vill að haldist, er með öllu óþörf, því að hún er áður til í lögum, bæði eftir stjórnarskránni og sveitarstjórnarlögunum, sem og eftir gamalli venju um hallærislán.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessa till. háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), því að annað, sem athugavert er við hana, hefir verið tekið fram af háttv. 1. þm. Reykv. (J. B ).

Þá kem jeg að till. á þgskj. 136. Um hana er, í sem fæstum orðum, það að segja, að jeg felli mig vel við 2. lið hennar, sem fer í þá átt, að færa tímatakmarkið fyrir skýrslugjöf hreppsnefnda frá 1. október til 1. nóvember. Sömuleiðis felli jeg mig vel við staflið a í 1. tölulið, en við staflið b felli jeg mig ekki og verð að skoða hann í sambandi við 3. tölulið brtt.

Jeg held, að tillögumönnunum hafi yfirsjest, er þeir hafa búið til „skalann“ um lánshámarkið.

Í staflið b er gert ráð fyrir, að tillagið verði 25 kr., og það hefir ekki verið tekið fram af flutningsmönnunum, að hjer væri um ritvillu að ræða, en ef það er ekki, þá er horfið frá þeim grundvelli, sem lagður er í lögunum og jeg hallaðist að, og yfir höfuð finst mjer þessi sundurliðun vera harla smávægileg. Sje um verulegan skort að ræða, held jeg, að hluttaka landssjóðs megi ekki vera minni en stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, sem sje að hann leggi 5 kr. á móti hverjum 10 kr., sem sveitarfjelagið leggur fram.

Það má auðvitað altaf deila um það, hvort þessi 15 króna styrkur, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, sje nægilegur. Hann mundi víða nægja, þar sem skortur er ekki mjög almennur, líka reynast óþarflega hár þar, sem fáir eru þurfandi, og þá eigi notaður að hámarki, en þegar hann reynist of lítill, þá er heimildin til fyrir láni.

Jeg get því felt mig við tölulið 1 a á þgskj. 136 og sömuleiðis við tölulið 2, en ekki sje jeg ástæðu til þess að hallast að hinum breytingunum.

Brtt. á þgskj. 134, frá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), finst mjer þess eðlis, að hana beri að styðja. Mjer finst sú langeðlilegust hjálpin, sem sjávarútveginum verði veitt, og landsjóði að útgjaldalitlu. Jeg hefi það í huga, að þau lán mundu sjerstaklega verða veitt þeim útgerðarmönnum, sem efnaskorts vegna geta ekki aflað sjer vörunnar með því að borga hana út í hönd. Þeim er aðallega þörf á þessu, sem hafa takmarkað lánstraust.

Brtt. á þgskj. 133, frá 1. þm. Árn. (S. S.), finst mjer vera frambærileg, en ekki get jeg kannast við, að hennar sje brýn þörf, því að í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir þessu, að stjórninni skuli heimilað fje til atvinnubóta, og jeg býst við, að stjórnin muni ekki ganga fram hjá tækifærinu til þess að nota fjeð til vatnsveitu, eða jafnvel heyskapar, þegar það gefst, en annars get jeg vel sætt mig við hana og mun því greiða henni atkvæði.

Frv., með nefndum tækum breytingum, mun jeg því styðja. En verði það felt, eða brtt. háttv. bjargráðanefndar samþyktar, þá situr alt við sama og áður, eftir lögum síðasta þings, og þó því lakara, sem till. nefndarinnar eru lakari en lögin frá síðasta þingi, gölluð eins og þau eru.