08.05.1918
Neðri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Gísli Sveinsson:

Jeg hafði frá upphafi ætlað mjer að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli, áður en það gengi út úr þessari háttv. deild, en jeg hefi verið að bíða eftir því, að málinu yrði vísað til nefndar, sem og varð, og vildi jeg gjarnan sjá nál. áður en jeg segði það, sem jeg ætlaði að segja.

Þetta nál. frá allsherjarnefnd er nú komið, og satt að segja finst mjer það furðu fátæklegt að rökum; má kann ske segja, að það komi til af því, að allir virðast vera einhuga álits í þessari háttv. deild um, að þetta mál beri ekki að ræða og sjálfsagt sje að samþ. það. Háttv. nefnd virðist einnig vera á þeirri skoðun, þótt lítið innskot í nál. gefi til kynna, að eitthvað hafi þótt athugavert í málinu. En jeg ætla ekki að ræða um nál., og ekki um frv. í sjálfu sjer, og þess vegna ekki heldur það, sem komið hefir til greina úti í frá, í blöðunum, að greinargerðin fyrir frv. muni tæpast vera samhuga álit þessarar háttv. deildar, heldur flutningsmanna, enda býst jeg við, að aðalflm. (Þorl. J.) hafi samið hana og að hún standi á hans ábyrgð. Hitt er og líklegt, að hinir aðrir flutningsmenn hafi ekki viljað vera að gera neinn ágreining út af lítilfjörlegu orðalagi; jeg á sem sje við það, hvort þessi viðkomandi maður, sem hjer er farið fram á að fái eftirlaun, hafi staðið prýðilega í stöðu sinni. Það er vitanlegt, að um þetta hafa verið deildar skoðanir, og má auðvitað halda áfram að deila um það, en það er svo lítilfjörlegt, þótt það standi í greinargerðinni, að ekki er talandi um slíkt. En það er viðurhlutamikið að ganga inn á þá braut, sem frv. fer fram á, vegna þess, hvernig á stendur. Hjer er ekki verið að tala um menn, sem taldir eru sjálfsagðir eftirlaunamenn, þó að þau sjeu ávalt veitt með eftirtölum. Hjer er verið að tala um mann, sem er starfsmaður eða sýslunarmaður við einstaka stofnun. Fyrir því er, eins og kunnugt er, eitt fordæmi; bankastjórinn, sem fór frá fyrir elli sakir, fjekk eftirlaun. Mjer er ekki kunnugt um, hvernig á því stóð, en líklega hefir það verið með hliðsjón af starfi hans, bæði við þessa stofnun og aðrar, að Alþingi hefir viljað viðurkenna verðleika hans; mjer er sem sje ókunnugt um, hvort um það hefir verið nokkur flokkarígur í sinni tíð, geri ráð fyrir, að svo hafi ekki verið, þó að það hefði vel getað átt sjer stað. Þetta mál virðist vera mál allra flokka, og það er eftirtektarvert, að þessi maður, sem hjer er um að ræða, — jeg ætla ekki að dæma störf hans — hefir, eins og hinn, sem frá fór, verið við sömu stofnun; það er að eins sá munur á því, að hinn fór frá í hárri elli, en þetta er maður á besta aldri, og eftir því, sem þeir menn, sem til þekkja og vilja halda heiðri hans á lofti, segja, hefir hann staðið vel í stöðu sinni, og skal jeg ekki bera brigður á það, því að hjer er annaðhvort að hrökkva eða stökkva. En jeg vil geta þess, að þetta er talsvert viðurhlutamikið; hjer er komið inn á braut, sem varla verður snúið út af, nema því að eins, að það sýni sig að vera hin mesta óþurft að veita slík eftirlaun. En um leið og háttv. þingd. ætlar að viðurkenna þessa braut, eða að það sje sjálfsögð leið, þá býst jeg við, að erfitt verði fyrir einstaka þm. eða nefndir, sem hjer eru, að færa föst rök fyrir því, að gamlir embættismenn, sem hafa slitið sjer út í þágu hins opinbera, eigi ekki heimtingu á eftirlaunum, — ekki einungis borgaralega, lagalega og pólitíska, heldur og siðferðilega. Þessi aðferð hefði átt að koma fram sem beinlínis viðurkenning á þeim rjetti, sem telja verður sjálfsagðan, að opinberir starfsmenn eigi skilið aðhlynning síns vinnuveitanda, þegar þeir komast á það skeið, að þeir geta ekki rækt starf sitt, en ef þeir hafa ekki staðið vel í stöðu sinni, þá eiga þeir ekki lagalega heimild til þeirra, og hafi þeir leyst störf sín illa af hendi, eiga þeir að sæta vítum og fara frá án eftirlauna.

Í þessum lögum er ekki farið í neitt manngreinarálit, og getur verið, að það sje rjett. Jeg drep á þetta vegna þess, að samkvæmt eftirlaunalöggjöf þeirri, sem embættismenn verða að hlíta, á hver maður, sem að dómi stjórnarvalda hefir ekki staðið vel í stöðu sinni, það á hættu að fá ekki eftirlaun.

Upphæðin er há, miðuð við launin, enda býst jeg við, að menn hafi eitthvað fett fingur út í þessa upphæð hjer í deildinni; en hún mun vera miðuð við launin og við það, sem viðgengist hefir í landinu, að embættismenn hafi notið.

Hjer er talað um, að embættismenn við þessa stofnun eigi að fá eftirlaun sem samsvari 2/3 af starfslaunum þeirra. Það getur verið, að þeir geti ekki lifað sómasamlega ef þeir hafa minna, en þess ber að geta, að það er eins og svo sje til ætlast, sem það verði ekki sagt, hvaðan eftirlaunin eiga að takast, en það er víst þannig, að það á ekki að vera af fje landssjóðs, heldur af fje bankans, eða svoleiðis hefi jeg skilið það, og vil jeg þá lýsa yfir því, að jeg greiði atkvæði með frv., og er þannig samþykkur nefndinni, en finst þó, að hún hefði getað skýrt betur frá ýmsum atriðum en mjer finst hún hafa gert. En með þessu er svo komið, að eitt bankastjórasæti þar er autt enn þá, og þá höfum við kann ske það, sem sagt hefir verið um þennan banka frá því að hann varð háður pólitísku flokkarifrildi og bitlingum, ef sama aðferð verður höfð að skipa menn, sem enginn maður getur sjeð, þó að góðir og gegnir menn sjeu, að færir sjeu til að skipa þau sæti, sem þeir eru þó látnir sitja í við bankann. Jeg vona, að landsstjórnin muni setja þar mann, sem ekki er að allra dómi óhæfur til þess — jeg segi landsstjórnin.

Nú vil jeg bíða og sjá hvað setur sjá hvort landsstjórnin heldur ekki uppteknum hætti, sem þó kæmi mjer mjög á óvart.