08.05.1918
Neðri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Þessi fyrirspurn, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) vill leggja fyrir flutningsmenn og nefndina, er þannig vaxin, að það er ekki gott að svara henni nema fyrir hlutaðeiganda sjálfan. En jeg get þó getið þess, að við okkur flutnm. mælti hann svo, að hann ætlaði bráðlega að fara úr bankanum; hvort það er sökum heilsubrests getur háttv. þm. Dala. (B. J.) látið stjórnina spyrja hann um þegar hann sækir um lausn. Hann hefir að eins skýrt svo frá, að hann ætlaði að fara frá þessari stofnun bráðlega; meira get jeg ekki sagt fyrir hönd þeirra manna, sem frv. flytja. En fari maðurinn ekki frá þessari stofnun, þá hefir hann sín laun sem bankastjóri eftir sem áður, og kemur ekki til greina kostnaður við eftirlaunagreiðslu á meðan svo stendur. (B. J.: En ef hann deyr í stöðunni, þá er þessi mikla fyrirhöfn til einkis).

Háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) vildi halda því fram, að þetta væri órjúfanlegt fordæmi; en jeg held ekki, að það þyrfti undir öllum atvikum að vera það, þótt jeg hins vegar búist við, að svo geti farið, að þessi stofnun greiði þeim, er henni stýra vel og lengi, einhver eftirlaun eða lífeyri, eða þá að launin yrðu hækkuð, eins og farið var fram á af sumum á síðasta þingi. En í raun og veru ætlast nefndin alls ekki til, að þetta verði sjálfsagt fordæmi fyrir því, að hver maður, sem færi frá þessari stofnun eftir svo og svo stuttan tíma, hefði þessi eftirlaun. Hvernig sem menn kunna að líta á þetta mál, — og jeg sje að sum blöðin hafa gert sjer mikinn mat úr þessu máli; þau hafa rætt það dag eftir dag — held jeg þó, að ekki verði bornar brigður á, að þessi maður hafi staðið vel í stöðu sinni. En ef það reynist, að það hafi verið miður, þá er það alveg nýtt atriði, sem þar kemur til skjalanna og oss flutnm. er ekki kunnugt um.

Með þessu tel jeg þá að nokkru leyti svarað því, sem háttv. þm. Barð. (H. K.) vjek að. Hann talaði um, að það væri hæpið vegna fordæmis að veita þessi eftirlaun og vildi, að það kæmi í ljós einhver knýjandi ástæða til þess, en eins og jeg hefi sagt, hefi jeg ekkert um það að segja; hlutaðeigandi mun á sínum tíma skýra stjórninni frá því, hvort það er fyrir heilsubrest eða annað, sem hann beiðist lausnar.