15.05.1918
Efri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg hefi litið svo á, að hjer á landi væru tvö aðalskilyrði fyrir því, að menn fengju eftirlaun og hversu há, hið fyrra, að embættismaðurinn væri orðinn ófær til þess að gegna embætti sínu, annaðhvort vegna elli eða heilsubilunar, og hið síðara, að eftirlaunahæðin væri miðuð við embættisaldur.

Frv. það, er hjer liggur fyrir, fer í bága við bæði þessi skilyrði.

Það er talinn almennur vilji hjer á landi, að eftirlaun verði afnumin, og svo er að sjá, að þingviljinn hafi fremur hallast á þá sveifina í seinni tíð. Í þessa átt bendir, meðal annars, álit milliþinganefndarinnar í launamálum. Jeg álít nú raunar, að almenningsviljinn sje á rangri leið í þessu máli og að hið rjetta markmið sje, að allir fái eftirlaun. Jeg er því ekki á móti þessu frv. vegna þess, að jeg sje andstæður eftirlaunum yfirleitt, nje heldur eftirlaunum til þess manns, sem hjer um ræðir sjerstaklega, heldur vegna þess, að jeg sje ekki, að hin rjettu skilyrði sjeu fyrir hendi.

Þetta tek jeg fram sem greinargerð fyrir atkvæði mínu.