29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Framsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Um frv. það sjálft, sem hjer liggur fyrir, og brtt. allsherjarnefndar, get jeg látið mjer nægja að vísa til nefndarálitsins á þgskj. 218, sem jeg vænti, að háttv. deildarmenn hafi fyrir sjer.

Að því er snertir brtt. á þgskj. 235 og 239, skal jeg leyfa mjer að benda á það, að eins og nefndarálitið ber með sjer, er frv. flutt eftir ósk bankastjóra þess, sem hlut á að máli, og að hann hefir einnig samþykt brtt. þær, sem allsherjarnefnd leggur til, að á því verði gerðar.

Verði eftirlaunaupphæðin færð niður, þykist jeg mega fullyrða, að hann vilji ekki sætta sig við frv. og þá halda áfram að eiga sæti í bankastjórninni, jafnvel þótt hann með því stofni heilsu sinni í voða. Það er því að mínu áliti talsverður ábyrgðarhluti fyrir háttv. deildarmenn að greiða atkvæði með brtt., því að hart finst mjer það, að hálfsvelta menn til þess halda áfram að gegna störfum, sem eru heilsu þeirra ofvaxin.

Það mundi og líta undarlega út, ef til væru lög um, að greiða skuli bankastjóra þessum eftirlaun frá 1. júlí næstkomandi, sem bann hefir sjálfur óskað settan sem tímatakmark fyrir brottför sinni úr bankastjórninni, og að hann hjeldi samt áfram að vera í bankastjórninni, auk þess sem slík lög yrðu þýðingarlaus, því að það væri alveg á valdi bankastjórans, hvort þau kæmu til framkvæmda eða ekki.

Jeg verð því að ráða háttv. deild frá því að samþykkja þessar brtt og ráða henni til þess að samþykkja frv. með brtt. allsherjarnefndar.