29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg vil benda á, að það má ekki mæla eftirlaun bankastjóra eftir sama mælikvarða og eftirlaun annara embættismanna. Það hefir verið svo, að menn hafa þá fyrst fengið slíka stöðu, þegar þeir hafa sýnt dugnað og eru teknir að eldast, og því geta þeir ekki borið eins úr býtum og þeir, er verða embættismenn yngri að aldri.

4.000 kr. eftirlaun þau, sem hjer er um að ræða, eru ekki há, þegar gætt er að því verðfalli, sem orðið hefir á peningum — eru ekki meira en 2.000 kr. voru, er síðustu bankastjóraeftirlaun voru ákveðin. Ef Björn bankastjóri Kristjánsson hefði komist í embætti á þeim aldri, sem venja er til, þá hefði hann verið búinn að vera embættismaður í 30 ár og ætti heimting á 2/3 launa sinna í eftirlaun, eða 4.000 kr., eins og frv. fer fram á.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hjelt því fram, að nefndin færi með órökstutt mál, og virtist gera kröfu til, að nefndin færði lagasönnur á ummæli sín. Í tilefni af þessu skal jeg taka það fram, að ummælin eru eftir bankastjóranum sjálfum, og tel jeg, að við það megi una, og það hefir ekki verið siður hjer á Alþingi að krefjast þess, að bú væru skrifuð upp eða ummæli staðfest með eiði eða efnahagsskýrsla tekin af þeim, sem eftirlauna hafa átt að verða aðnjótandi, eins og gert er af þurfamönnum áður en þeir þiggja sveitarstyrk.