29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Kristinn Daníelsson:

Við fyrstu umr. um frv. þetta tók jeg það fram, að jeg teldi enga þörf á því, að það væri sett í nefnd; annars vegar vegna þess, að maður sá, er hjer á hlut að, er svo kunnur öllum háttv. deildarmönnum, og hins vegar vegna þess, að málið væri svo einfalt; það væri öllum háttv. deildarmönnum fært að gera sjer sjálfum grein fyrir því, hvern kost þeir vilja gera Birni bankastjóra Kristjánssyni, er hann lætur af störfum sem bankastjóri fyrir Landsbankann. Og jeg fann enga ástæðu til að hrekja frv. á milli deilda, ef háttv. þm. gætu annars fallist á aðalefni þess, en nú sje jeg, að háttv. nefnd ætlast til þess, og tel jeg það miður farið, þótt jeg sje henni hins vegar samþ. í aðalatriðunum. Jeg hefi ekkert á móti því að breyta fyrirsögn frv., en jeg tel það ekki skifta svo miklu máli, að ástæða sje að hrekja frv. þess vegna, og ekki sje jeg heldur neina ástæðu til að setja inn í frv. tímatakmark það, er nefndin hefir sett. Jeg er því í sjálfu sjer á móti brtt. nefndarinnar og finst þær ekki skifta neinu máli, en best fara á því að samþ. frv. óbreytt. Slík afgreiðsla hefði mjer þótt samboðnust háttv. efri deild.

Það er öllum háttv. þm. fyllilega kunnugt og ljóst, að þessi maður hefir af mikilli óeigingirni lagt fram allan áhuga í þarfir bankans. Tel jeg víst, að hyggindi hans og þekking hafi komið að góðu í þeim störfum, og veit jeg, að jeg get mælt þetta fyrir munn margra. Og þótt einhverjir, sem minni velvild bera til hans, skoðuðu þetta á annan hátt, þá mundi þó enginn draga hitt í efa, áhuga hans og ósjerhlífni sína og hyggindi til þess að efla og bæta hag og viðgang stofnunar þeirrar, Landsbankans, er bann hefir unnið fyrir. Vil jeg hjer engar öfgar, heldur sannindi ein, sem jeg gæti jafnt sagt um óvin sem vin.

Brtt. þá, sem fram hefir komið og prentuð er á þgskj. 235, mætti líta svo á, að væri komin fram af ertni eða af því, að menn vildu móðga bankastjórann, ef hún væri ekki frá þeim mönnum, sem jeg ætla alls ekki slíkt og frítek þá frá því. En þar sem þeir færa þau rök og telja sig bera till. eingöngu fram í því skyni, að láta vera samræmi milli þessara eftirlauna og eftirlaunalaganna, þá mun erfitt að ná því samræmi, svo að engin missmíði finnist á, og ekki er það samræmi til nú í eftirlaunalögunum sjálfum; nægir þar að benda á eftirlaun presta, saman borið við eftirlaun t. d. sýslumanna. Hjer er ekki heldur um lögboðin eftirlaun að ræða, heldur um það, hvernig þingið vill gera til manni, sem lætur af samviskusamlega unnu mikils háttar starfi, og þá lít jeg svo á, sem þingið verði að greiða mönnum eftir því, hversu samviskusamlega þeir hafa leyst störf sín af hendi. Og þegar um bankastjórastarf er að ræða, þá munu einatt verða valdir þeir menn í það, er verða að leggja niður önnur arðvænlegri störf og þess vegna fá órífleg laun. Þetta hefir þessi maður gert og alls engan aukahagnað haft við hliðina á starfi sínu.

En ef það á að vera samræmi, þá ætti að bera saman við fyrv. bankastjóra. Og jeg þykist ekki gera þeim sál. heiðursmanni Tryggva Gunnarssyni neitt rangt til, þótt jeg segi, að Björn bankastjóri Kristjánsson hafi ekki síður nje síðra pund lagt fram í þarfir bankans.

Og þegar verið að ákveða upphæð eftirlaunanna, þá verða háttv. þm. að gæta þess, að orðið hefir hin síðustu ár, stríðsárin, gífurlegt verðfall á peningum, svo að sama upphæð er nú í rauninni miklu lægri laun en þá.

Jeg vona því, að brtt. verði ekki samþykt, enda verð jeg að taka undir með háttv. framsm. (Jóh Jóh.) um það, að það er vafasamt, hvort það hefði þá nokkra þýðingu að samþykkja frv., því að jeg get þá búist við, að þessi maður sjái sjer ekki fært að nota rjettinn, en hætti á um heilsufar sitt að halda áfram og láta ráðast um sinn, hvað við tekur á öðru þingi.

Jeg vil því eindregið mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, að minsta kosti að efni og aðalatriðum.