12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Eins og sjá má af nál. á þgskj. 316, hefir allsherjarnefnd ekki sætt sig við orðalagið á frv„ eins og Ed. skildi við það. í frv„ eins og það er orðað af Ed„ er eftirlaunarjetturinn einskorðaður við 1. júlí þetta ár. Þetta atriði þótti nefndinni sjerstaklega ankanalegt. Bankastjórinn hefir lýst yfir því, að hann óskaði lausnar frá embætti sínu, og farið þess á leit við þingið, að það veitti sjer eftirlaun. Því væri það ankanalegt, ef þingið segði: Jú, þú skalt fá eftirlaun, en þá veröur þú að fara frá embætti þínu einhvern vissan dag. En það er óvenjulegt, að þingið setji þvílíkar skorður í slík lög. Man jeg það, þegar Tryggva sál. Gunnarssyni voru veitt samskonar eftirlaun, að þau voru ekki bundin neinu tímatakmarki, heldur miðuð við þann tíma, er hann hætti starfinu.

Bankastjórinn (B. K.) hefir, sem kunnugt er, skýrt svo frá, að hann óskaði að fara sem fyrst frá bankanum, og nefndin vill láta hann einráðan um, hve nær hann beiðist lausnar. Hún áleit það eigi á valdi þingsins að ákveða slíkt. Jeg býst við, að ákvæði það, sem Ed. setti í frv„ gefi í skyn, að þingið setji bankastjóranum stólinn fyrir dyrnar. En slíkt gæti auðvitað ekki komið til mála. Það er ekki þingsins verk, eða á þess valdi, að leysa menn frá störfum; það er stjórnarinnar að ákveða slíkt, og þess vegna kom nefndinni saman um að breyta orðalaginu í sama horf og það var áður, og væntir, að brtt. nái fram að ganga hjer í háttv. deild. En jeg vil geta þess, að ef brtt. verður feld, er vafasamt, að nefndin geti aðhylst frv.

Jeg hefi ekki fleira um þetta mál að segja, en fel það á vald háttv. deildar, og vænti jeg, að hún samþ. brtt. nefndarinnar.