12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Bjarni Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer í þessu sambandi að benda á álit allsherjarnefndar Ed. Þar stendur, að hún hafi haft tal af Birni Kristjánssyni bankastjóra um málið, og hafi hann lýst yfir því, að frv. væri borið fram eftir ósk sinni, og að það væri ósk sín að láta af embættinu 1. júlí. Síðar í álitinu stendur: „Rjett þykir og nefndinni að binda eftirlaunarjettinn við ákveðið tímatakmark og vill setja 1. júlí næstkomandi, eftir ósk bankastjórans“. Nú vitum við, að háttv. Alþingi hefir engin ráð til að setja menn af embætti, nema þá ráðherrana. Það er stjórnin, sem fer með það vald, og því kemur það þinginu ekkert við. Og síst af öllu er ástæða til að ætla, að háttv. Ed. hafi sett þetta tímatakmark inn í frv. af fjandskap við bankastjórann, því að svo verður að líta á, að þingið mundi ekki vilja gera svo við mann, sem því er svo vel við, að það ákveður honum eftirlaun, þótt hann hafi engan lagalegan rjett til þeirra.

Að það geti verið hættulegt að hrekja málið milli deildanna, get jeg vel skilið, því að ekki er ólíklegt, að mönnum detti í hug, að hjer sje verið að gera gys að þinginu. Jeg skil ekki, hvernig háttv. allsherjarnefnd Nd. hefir getað farið fram á að breyta þessu aftur, því að best hefði verið, að málið hefði gengið í gegnum þingið þegjandi og hljóðalaust. Það má líka nefndin vita, að það lá fyrir utan verksvið þingsins að framkvæma frv. á þann hátt, sem hún hyggur.