12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi fengið að vita það af einum háttv. þm. Ed., að það hafi sjerstaklega vakað fyrir deildinni, er þetta ákvæði var sett inn í frv., að bankastjórinn gæti fengið eftirlaunin frá 1. júlí, þótt lögin hefðu þá ekki fengið staðfestingu. Það vita sem sje allir, að það getur liðið alllangur tími frá því að lögin eru samþykt af þinginu og þar til er þau ná fullkominni staðfestingu. Með þessu ákvæði er því manninum gert það kleift að segja af sjer hve nær sem er eftir 1. júlí, án þess að bíða nokkurn skaða. Þetta er það, sem háttv. þm. Ed. hafa í hug haft, er þeir bættu þessu tímatakmarki inn í frv., og skil jeg því ekki, að neinn þurfi að sjá ofsjónum yfir því, að frv. verði samþykt með þessari breytingu.