04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Karl Einarsson:

Jeg ætlaði að láta þetta mál með öllu afskiftalaust og alls ekki taka til máls, en það kom fram mishermi í ræðu háttv. þm. Ísaf. (M. T.), sem jeg vil leiðrjetta.

Jeg hygg, að það muni vera best, til þess að eyða þessu mishermi, að lesa upp yfirlýsingu þá, er Björn bankastjóri Kristjánsson gaf um þetta í háttv. Nd. 12. júní.

Yfirlýsing hans hljóðar svo:

„Um leið og jeg þakka hinni hv. deild fyrir, hve hlýlega hún tók á móti frv. um, að mjer yrðu ákveðin eftirlaun, er málið var til meðferðar hjer í háttv. deild, vil jeg leyfa mjer að taka það fram, að þar sem sá skilningur mun nú af sumum vera lagður í frv., eins og það kom frá háttv. Ed., að eftirlaunin sjeu því skilyrði bundin, að jeg láti af stjórn bankans 1. júlí þ. á, þá treysti jeg mjer ekki til að ganga að neinu slíku skilyrði, eða að taka við eftirlaunum, bygðum á því, og óska jeg því, að frv. um eftirlaun til mín verði tekið út af dagskrá eða felt, ef brtt. allsherjarnefndar á þgskj. 316 verður ekki samþykt“.

Þessi brtt. frá allsherjarnefnd, sem hjer er nefnd, var um það að færa frv. í sama horf og það var, áður en það var sent til Ed., og var hún samþykt. Það er tekið fram í frv., að landsstjórnin greiði Birni bankastjóra Kristjánssyni eftirlaun, 4.000 kr. á ári, frá þeim tíma, að hann lætur af bankastjórastarfi, og jeg hygg, að það geti ekki verið nokkur vafi á því, að stjórnin hafi, eftir venjulegum lögskýringareglum fullkomna heimild til þess að greiða honum eftirlaun þessi, þótt hann ljeti strax af starfi sínu.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að álit það, að eftirlaunin væru skilyrði bundin, ættu sjer enga stoð neinsstaðar. En þetta álit kemur berlega fram í framhaldsnefndaráliti allsherjarnefndar hv. Nd. Þar segir svo: „Nefndinni virðist algerlega rangt að binda eftirlaunarjettinn við ákveðinn mánaðardag, þar sem það alls ekki er á valdi Alþingis að taka nokkra ákvörðun um lausn embættis- eða sýslunarmanna frá störfum þeirra …“ Allsherjarnefndin hefir því lagt þennan skilning í þetta ákvæði, og því er ekki hægt að segja annað en að það sje rjett, sem segir í yfirlýsingu bankastjórans, að þessi skilningur hafi komið fram. Að hann lætur skoðun sína í ljósi á þessu atriði, gat því ekki komið flatt upp á háttv. þm. Ísaf. (M. T.).

Jeg fæ ekki betur sjeð en að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi sannað það með ræðu sinni, að rjettast sje að láta slag standa og veita eftirlaunin eins og hv. Nd. vill, og jeg efa ekki, að bankastjórinn láti af bankastjórninni þegar hann getur ekki þjónað því lengur, vegna heilsu sinnar.

Jeg hefi nú sýnt, að af yfirlýsingu bankastjórans verður ekki dregin sú ályktun, að bankastjórinn sje sjúkur, eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) gerði.

Annars ætla jeg ekki að ræða málið sjálft og tel rjettast, að atkvæði ein skeri þar úr.