04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Halldór Steinsson:

Jeg get ekki neitað því, að gangur þessa máls er harla einkennilegur og er fremur þinginu til vansa en til sóma.

Upprunalega er frv. borið fram í hv. Nd., að jeg tel, fyrir tilmæli háttv. 1. þm. G. K. (B. K.), eða bankastjórans sjálfs. Strax er málið kom fram, kom það í ljós, að þingið var þrískift í málinu. Í fyrsta flokknum eru þeir menn, sem telja Björn bankastjóra Kristjánsson alls góðs maklegan og vilja því veita honum eins há eftirlaun og frv. gerir ráð fyrir. Í öðrum flokknum eru þeir, sem í sjálfu sjer þykja eftirlaunin of há og eru í rauninni andvígir frv.. Þeir slæðast þó með því vegna þess, að þeir vilja fá þennan bankastjóra út úr bankanum. Það er þó hvorki af mannúð nje vorkunnsemi, eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T) sagðist frá, heldur af einhverju öðru, sem þeir hirða ekki að greina frá. Loks er þriðji flokkurinn; þeir hafa það eitt við frv. að athuga, að eftirlaunin sjeu alt of há, með tilliti til þeirra eftirlauna, sem aðrir fá.

Og þessi sama skifting kom einnig fram hjer í háttv. Ed., og varð enn gleggri hjer, þegar allsherjarnefndin setti það skilyrði fyrir eftirlaununum, að bankastjórinn ljeti af starfi sínu 1. júlí. Brtt. nefndarinnar var samþykt, frv. fór til háttv. Nd., er breytti því aftur í fyrri búning sinn, og nú kemur háttv. nefnd aftur með skilyrðið, þótt í öðrum búningi sje.

Gangur málsins er því mjög óhreinn, og þótt frv. yrði samþykt, þá sýndi það alls ekki þann vilja Alþingis, að veita jafnhá eftirlaun og hjer er um að ræða.

Jeg vil því bera upp eftirfarandi dagskrá:

„Í því trausti, að næsta reglulegt Alþingi hlutist til um, að Birni bankastjóra Kristjánssyni verði veitt hæfileg eftirlaun frá þeim tíma að hann lætur af embætti, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Jeg vænti, að háttv. þm. sjái, við nánari athugun, að málið er best leitt til hafnar með dagskrá þessari.