04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að skifta mjer af þessu máli. Hvað snertir viðbótartill. háttv. allsherjarnefndar, get jeg ekki sjeð, að henni felist nein fyrirmæli um það, hvenær bankastjórinn eigi að segja af sjer. Hún gerir ekki aðra breytingu en þá, að bankastjórinn fær fyr greidd eftirlaun, ef hann segir af sjer nú þegar eða á næstu vikum, en vera mundi eftir frv., eins og háttv. Nd. hefir gengið frá því.

Um dagskrá háttv. þm. Ak. (M. K.) er það að segja, að jeg tel yfirleitt ekki viðeigandi, að fjárveitingar sjeu gerðar í dagskrám, sem ef til vill verða til í augnabliksáhrifum.

Það má ekki minna vera en að fjárveitingar sjeu gerðar að minsta kosti í þingsályktunartillögum, ef ekki í beinum aukafjárlögum. En nú er ekki um fjárveitingu úr landssjóði að ræða, og í raun og veru er búið að samþykkja þá fjárveitingu, sem dagskrá háttv. þm. Ak. (M. K.) felur í sjer, í báðum deildum þingsins. Því verð jeg að álíta, að í meðferð málsins liggi heimild fyrir dagskránni eins og hún er, svo framarlega sem engin mótmæli koma fram í deildinni.