04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Magnús Kristjánsson:

Háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh) gaf mjer tilefni til andsvara, og hefði jeg óskað, að hann hefði ekki gert það. Það er ástæðulaust að vera að draga fram atriði, sem geta hleypt hita í málið. Skilningur þingmannsins (Jóh. Jóh.) á dagskránni var rangur. Síðari hluti hennar var blátt áfram bygður á yfirlýsingu bankastjórans sjálfs (B K.) um heilsufar hans. Það er ekki nema um tvent að velja fyrir háttv. þm. (Jóh. Jóh.); annaðhvort vefengir hann yfirlýsingu bankastjórans sjálfs, eða hann hlýtur að fallast á það, að full ástæða sje til að orða dagskrána eins og hún er orðuð, því að ummæli hennar eru rökrjett afleiðing af orðum bankastjórans. Annars vildi jeg helst komast hjá því að fara lengra inn á þetta atriði.

Jeg lýsti yfir því áðan, að ekki væri nema sjálfsagt að maðurinn æjeti af starfi sínu, þegar hann fyndi sig ekki mann til að gegna því lengur. Það væri ómannúðlegt að reyna að hindra, að svo geti orðið Þetta vakti fyrir mjer er jeg kom með dagskrána, en því mótmæli jeg harðlega, að um nokkra persónulega óvild sje að ræða. Jeg vildi bjarga málinu úr því öngþveiti, sem það er komið í. Jeg get ekki fallist á, að í niðurlagi dagskrárinnar sje nokkuð, sem ekki má koma fram. En ef dagskráin yrði þá líklegri til framgangs, er mjer ekki mjög á móti skapi, að síðari hlutinn sje feldur niður. Hinn hlutinn hygg jeg að geti staðið út af fyrir sig.