04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Eggert Pálsson:

Þar sem umræðurnar snúast nú um dagskrárnar, ætla jeg að láta í ljós álit mitt á þeim.

Jeg mun geta aðhylst dagskrá háttv. þm. Snæf. (H. St). Að mínu viti kemur hún ein til greina. Samkvæmt henni verður það eftir sem áður á valdi þingsins að ákveða eftirlaun bankastjórans. Það er það eina, sem þinginu er samboðið. Hitt væri fjarstæða, að fela stjórninni úrslit málsins.

Þá er dagskrártill. háttv. þm. Ak. (M. K). Þá er tvent til. Fyrst að samþ. till. í heilu lagi. En þá er því að svara, að niðurlagið er varhugavert. Þar er beint kveðinn upp sá dómur, að starfsþrek bankastjórans sje þegar bilað. En um það eiga aðrir að dæma en þessi háttv. deild. Það er ekki hennar hlutverk að gefa frá sjer heilbrigðisvottorð. Jeg gæti því ekki greitt till. í heild sinni atkv. Annar möguleikinn er sá, að fella burt niðurlagið, en halda fyrri hlutanum. Það væri barnaleikur einn, því að fyrri hlutinn er nákvæmlega eins að efni til og frv. sjálft. Sá, sem getur greitt dagskránni í þeirri mynd atkv., getur alveg eins greitt atkv. með frv. En þar sem jeg er á móti frv., get jeg ekki heldur verið með þessum hluta af dagskrá háttv. þm. Ak. (M. K.).