17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi bæði við þessa og 2. umr. málsins heyrt um það talað, að alt of takmörkuð sje upphæðin í stjórnarfrv., 15 kr., þar sem sveitarstjórnir mættu ekki fara lengra. Hæstv. fjármálaráðherra hefir nú þegar bent á, að þetta er ekki rjett. Öll takmörkunin er sú, að sveitarstjórnin verður annars að leita samþykkis sýslunefndar, og býst jeg við, að sýslunefnd muni undir flestum kringumstæðum fús til að veita samþykki sitt.

Annars er það sjerstaklega 2. aðaltill. háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), sem jeg vildi minnast á, af því að húu fer, eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram, í sömu átt og till. meiri hl. bjargráðanefndar, að veita lán. En jeg álít þessa till. lakari að því leyti, að hún ríður í bág við þá stefnu, sem haldið hefir verið fram á þingi og álitin rjettmæt, að aðgreina landsverslunina sem mest frá stjórnarstörfunum og fela hana sjerstökum mönnum. Þetta hefir stjórnin gert svo rækilega, að þessir menn ráða versluninni alveg, og stjórnin skiftir sjer ekkert af henni. Ef nú þingið heimtar aftur af stjórninni, að hún taki vörur frá versluninni til að lána almenningi, þá er aftur farið að blanda saman versluninni og stjórnarstörfunum. Er þá horfið að því, sem áður var fundið að, og farið að gera graut úr því, sem áður var aðskilið og allir hafa viðurkent rjettmæta ráðstöfun. Jeg vil vekja athygli háttv. þm. á þessu.

Það liggur í augum uppi, að ef á að lána, þá á að lána hreint og beint peninga úr landssjóði. Enda hefir því verið stranglega fylgt, að lánin eru tekin beint úr landssjóði og versluninni borgaðar vörur þær, er hún lætur úti. Þess vegna er jeg sjerstaklega á móti till. háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.). Einkum er það brýn nauðsyn, að verslunin sje sem best út af fyrir sig, eftir því sem hún vex. Og þegar svo yfir þessa verslun eru settir menn, sem allir treysta fyllilega, þá á að láta þá ráða. Þeir hafa nýlega í viðtali við stjórnina látið í ljós, að þeir álitu mjög svo óholt að skylda verslunina til að lána. Að vísu voru allmiklar skuldir útistandandi við verslunina, er þeir tóku við um nýár, en þeim hefir tekist að fá mikið inn og hreinsa þannig til. Það verður vísast aldrei svo, að ekki verði eitthvað ofurlítið útistandandi, en þeir hafa hugsað sjer að hafa það sem minst.

Jeg verð því að halda því fram, að ef hallast er að þeirri stefnu að veita lán, þá eigi að lána beint úr landssjóði, ekki í vörum, heldur peningum. Um till. háttv. samþingismanns míns (J. B.) vil jeg taka í þann streng með hæstv. fjármálaráðherra, að vel geti komið fyrir, að nauðsynlegt verði að tryggja atvinnuvegina eitthvað með peningalegum tilstyrk. En þessi styrkur verður að vera alveg laus við almennu dýrtíðarhjálpina og má ekki blandast saman við hana. Og jeg get sagt háttv. deild, að eftir þeirri reynslu, sem stjórnarráðið hefir fengið í þessu tilliti, þá er hætt við, að stjórnin yrði að taka býsna mikla peninga til þessa. Einstakir hreppar hafa heimtað til þeirra hluta svo að þúsundum og jafnvel tugum þúsunda skiftir. Ef svona till. yrði samþ., væri því komið inn á þá braut, sem enginn veit hvar lendir. Held jeg því, að það sje alveg rjett að fella báðar þessar till., háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna) og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Verður svo að ráðast, hvernig háttv. deild fer með stjórnarfrv.

Viðkomandi því, að ástæða sje til að athuga, hvort nauðsynlegt sje að gera einhverjar frekari ráðstafanir til styrktar atvinnuvegunum, skal jeg geta þess, að stjórnin hefir þegar gert nokkuð til að tryggja landbúnaðinn, t. d. keypt fóðurbæti fyrir allmikið fje. Eitthvað má sjálfsagt gera fyrir sjávarútveginn, en jeg vil ráða frá að setja nokkrar slíkar ráðstafanir inn í þetta frv., um almenna dýrtíðarhjálp.

Svo skal jeg koma að því, sem háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) og fleiri háttv. þm. hafa minst á. Ef sveitarfjelag er orðið alveg bjargþrota, sjóður þess þurausinn og sýslufjelagið getur ekki hjálpað, þá er alveg einsætt og sjálfsagt, að landssjóður verður að hjálpa. Þar um þarf engin lög. En það verður fyrst, þegar í þrot er komið að öllu leyti heima í hjeraði, og heyri jeg nú á mörgum háttv. þm., að þeir búast ekki við, að svo fari á næsta ári. En ef til þarf að taka, þá þarf ekki að kvíða því, að stjórnin, hver sem hún verður, hlaupi ekki undir bagga.