06.07.1918
Sameinað þing: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Frsm allsherjarnefudar Nd. (Þorleifur Jónsson):

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að allsherjarnefnd Nd., sem hafði málið til meðferðar hjer í deildinni, hefir ekki í heild sinni tekið neina ákvörðun eða gert neina ályktun um málið, en mjer er óhætt að segja, að meiri hluti hennar hallast að því að gera ekki ágreining við háttv. Ed. á síðustu stundu.

Eins og háttv. Alþingi er kunnugt, þá er breyting háttv. Ed. að eins innifalin í því, að hún bætti við nýrri grein um það, að lögin öðluðust þegar gildi, en hefir ekki haggað við orðalagi frv. að öðru leyti, og stendur því aðalgreinin eins og allsherjarnefnd Nd. lagði til og samþykt var þar við eina umr. Það sýnist því í sjálfu sjer, að hjer geti ekki verið um mikinn ágreining að ræða, þar sem allsherjarnefnd Ed. hefir aftekið það með öllu í álitsskjali sínu, þgskj. 221, að með tímatakmarki sínu, sem hún áður setti (1. júlí), hafi átt að felast nokkur bending um það, hve nær bankastjórinn ætti að fara frá, heldur hafi það átt að vera honum í vil, ef hann vildi beiðast lausnar heldur fyr en síðar.

Þessa umsögn háttv. nefndar vil jeg alls ekki leyfa mjer að rengja, og þar sem viðbótin, hin nýja grein í frv., mun eiga að skiljast sem vilkjör fyrir bankastjórann á líka lund, þá finst allsherjarnefnd Nd., að ekki sje veður gerandi út af þeirri breytingu, sem háttv. Ed. hefir gert, þótt ef til vill megi líta svo á, að sú breyting hafi ekki verið beint þörf, með því að fyrri greinin gefur það í skyn, að eftirlaunin verði greidd frá þeim tíma, sem bankastjórinn láti af starfi sínu. En til þess að koma málinu ekki í meira öngþveiti hefir meiri hluti allsherjarnefndar Nd. ekki viljað gera neinn ágreining um það, og vill því leggja til, að frv. verði samþykt eins og það er.